27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3165 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

278. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Heilbr.- og félmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að efna til neinna meiri háttar umr. um raforkumál almennt í sambandi við þetta frv. Það kemur hér til umr. mjög fljótlega. Skýrsla iðnrn. um orkumál í sambandi við hugmyndir um nýtingu innlendra orkugjafa í stað erlendra, og ég gæti hugsað mér, að það væri ágætur vettvangur til að ræða þessi mál í heild.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson ræddi þessi mál af fullum skilningi einmitt vegna þess, að bann þekkir þau vandamál, sem þarna er um að ræða, og veit, að sá vandi, sem við blasir núna, er ekki nýr. Hann hefur komið upp margsinnis áður af ástæðum, sem eru í sjálfu sér óviðráðanlegar þeim ráðh., sem kann að sitja í þessu starfi hverju sinni. Það er vegna þess, að þarna er fyrirtæki falið verkefni, sem er mjög erfitt að leysa. Það eru lagðar á það kvaðir og kröfur án þess að tryggja á móti eðlilegan fjárhagslegan fjárhagsgrundvöll. Það, sem um er að ræða, þegar í vanda er komið, er annaðhvort að taka þessa fjármuni með því að velta þessum tilkostnaði yfir á viðskiptavini Rafmagnsveitna ríkisins eða reyna að jafna þessu að einhverju leyti niður á þjóðina, þannig að aðstöðumunur minnki.

Það er afar undarlegt að heyra hv. þm., Benedikt Gröndal. tala um þessa lausn af mikilli vandlætingu út frá hagsmunum fólks úr kjördæmi hans, vegna þess að það liggur fyrir, að ef ekki verður gripið til einhverrar verðjöfnunar af þessu tagi, yrði raforkuverð að hækka um 45% hjá viðskiptavinum Rafmagnsveitna ríkisins, og þetta frv. er einmitt til þess, að sú hækkun þurfi ekki að koma til framkvæmda. Þetta er frv. um það, að viðskiptavinir Rafmagnsveitnanna, sem eru í kjördæmi hv. þm. Benedikts Gröndals, þurfi ekki að borga eins hátt verð og mér virtist hann vera að leggja til. að lagt yrði á þá.

Það er alveg rétt, að þetta frv. er ekki nein heildarlausu á sviði raforkumála. Ég kynnti hér á þingi fyrir tveimur árum eða meir hugmyndir um endurskipulagningu á öllu kerfi raforkumála á Íslandi, stefnuyfirlýsingu frá núv. ríkisstj., og hún tók bæði til raforkuöflunar og raforkudreifingar. Síðan hefur verið unnið á vegum rn. að framkvæmd þessarar stefnuyfirlýsingar.

Yfirlýsingar um það, að ekkert hafi verið gert í þessum málum, stangast að sjálfsögðu einnig á við þekkingu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. Mér þótti afar undarlegt að heyra hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason tala um tengilínuna fyrir norðan þannig, að þarna mundi engin orka fara um jafnvel áratugum saman. Hvaða hugmyndir hefur þessi hv. þm. um þróun orkumála á Íslandi? Hugsar hann sér, að orkuveitusvæðin á Íslandi verði ekki tengd áratugum saman? Ætlast hann til þess, að það ástand sem nú er í þessum málum, haldi áfram áratugum saman? Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi. Að sjálfsögðu mun þessi lína flytja raforku á megintíma hvers árs. Þegar raforkuskortur er að vetrinum, getur hún ekki flutt hana, en hún byrjar að sjálfsögðu að flytja raforku nú þegar, og þessi raforkuflutningur mun ákaflega fljótt borga sig í samanburði við að reka dísilstöðvar.

Ég held, að hver einasti maður, sem ber nokkurt skynbragð á þessi mál og hefur nokkuð um þau hugsað, geri sér það ljóst, að meginforsenda allra skynsamlegra framkvæmda í raforkumálum er samtenging orkuveitusvæða, og það verður að leggja í þann tilkostnað. Það verður að leggja í hann mjög verulegar fjárhæðir, eins og ég mun rekja í sambandi við þá skýrslu, sem ég flyt hér. Þetta er algjör forsenda þess, að við getum nýtt orkuver okkar á sem bestan hátt með samrekstri, með því að nýta aðstæður í lágu landsins alls, og ennfremur hitt, að næg raforka sé tiltæk, hvar sem er á landinu, og hægt sé að verðjafna hana á grundvelli þess. Þá fyrst mun raunveruleg verðjöfnun nást. Þetta frv. hins vegar er hugsað til þess að bæta úr tímabundnum örðugleikum Rafmagnsveitna ríkisins, og ég ætlast til þess, að þeir menn, sem telja, að sú lausn, sem þarna er lögð til, fái ekki snúist í meginatriðum, — mér heyrðist, að hv. þm. Ingólfur Jónsson teldi, að hún gæti staðist í meginatriðum, þótt á henni mætti finna vankanta, en þeir, sem ekki geta fallist á hana í meginatriðum, verða að vera menn til þess að koma fram með einhverjar aðrar till. um það, hvernig eigi að leysa þennan vanda. Og ég vil vænta þess, að ég fái eitthvað um slíkar till, að heyra og eitthvað annað og meira en þennan orðaflaum, sem við fengum að heyra hér í ræðu hv. síðasta ræðumanns.