27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Heilbr.- og félmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Með þessu frv. er leitað heimildar Alþ. til að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun, sem yrði sameignarfélag ríkis og sveitarfélaga á Norðurlandi, eða öðrum aðila að reisa og reka jarðgufuaflstöð við Kröflu eða austanvert Námafjall með allt að 55 mw. afli til framleiðslu raforku og leggja þaðan aðalorkuveitur til tengingar við aðalorkuflutningskerfi Norðurlands og Austurlands.

Í 2. gr. segir, að valið milli Kröflu og Námafjalls austanverðs sem virkjunarstaðar skuli fara fram á grundvelli jarðhitatæknilegra sjónarmiða og umhverfisverndarsjónarmiða. Sem hluti af virkjuninni skulu gerðar ráðstafanir, er að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og að dómi sérfræðinga teljast nauðsynlegar til að draga úr hugsanlegum áhrifum virkjunarinnar á lífríki Mývatns, svo sem frekast er kostur. Um þessa grein er það að segja, að þetta er í fyrsta skipti, sem slíkt ákvæði um að umhverfisþáttur skuli falla inn í virkjunarkostnað, er tekinn í lög á Íslandi.

Í 3. gr. er lagt til, að ríkisstj. hafi heimild til að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs eða ábyrgjast lán, sem virkjunaraðilinn tekur, allt er 1500 millj. kr. eða jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt, til greiðslu stofnkostnaðar mannvirkjanna.

Í 4. gr. er svo lagt til að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni, tækjum og vélum, og í 5. gr., að um stofnun og rekstur fari að öðru leyti en eftir ákvæðum orkulaga.

Þegar ég lagði þetta frv. fyrir Ed. á sínum tíma, gerði ég grein fyrir því í allítarlegu máli. Sú ræða hefur nú verið prentuð og er í þingtíðindum í fórum allra þm., þannig að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hér þær röksemdir, sem ég flutti þá. Hins vegar kom fram í Ed., að það er enginn efniságreiningur um þetta mál. Það var samdóma mat Ed, að fylgja frv., og ég vænti þess, að undirtektir hér í hv. Nd. verði hinar sömu.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.