27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3170 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég mun ekki tefja þessar umr., enda tel ég, að það sé ekki heppilegt, heldur vil ég alveg sérstaklega leggja áherslu á, að það sé mikil nauðsyn á að hraða afgreiðslu þessa frv. Við erum, held ég, nokkuð sammála um gagnsemi frv. Það eru engar deilur um það og enginn ágreiningur um það, að þetta frv. stefni í rétta átt, og skal ég ekki hafa um það öllu fleiri orð. En mig langar þó af sérstöku tilefni að taka hér til máls, m.a. vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóns Sólness, sem minntist á það atriði, að Laxárvirkjunarstjórn, sem er sá gamli virkjunaraðili norðanlands, hefur óskað eftir því að ganga inn í þetta mál, a.m.k. sem bráðabirgðavirkjunaraðili, fyrir utan það, sem ljóst verður, að Laxárvirkjun hlýtur að verða aðili að því fyrirtæki, sem l. gera ráð fyrir að fjalli um virkjun á Kröflu- eða Námafjallssvæði. En mig langar til að geta þess, að mér hefur borist í dag bréf frá stjórn Laxárvirkjunar undirritað af framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Knúti Otterstedt, og mér þykir rétt að lesa þetta bréf hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af skeyti Laxárvirkjunar í dag um breyt. á 1. gr. umrædds frv. er það skoðun Laxárvirkjunarstjórnar, að það sé mjög óeðlilegt, að Laxárvirkjun verði ekki sá aðili, sem að þessari framkvæmd stendur, þar sem fyrirhuguð gufuvirkjun er á orkuveitusvæði Laxárvirkjunar. En einmitt þetta sjónarmið kom upp, þegar ákvörðun um gufuvirkjunina í Bjarnarflagi var tekin, og þá talið sjálfsagt, að l.axárvirkjun verði þar virkjunaraðilinn. Undirbúningur að stofnun Norðurlandsvirkjunar er enn á algeru frumstigi og ógerlegt á þessu stigi að fullyrða, hvenær af stofnun þess fyrirtækis verður, og því ástæðulaust annað en að tilgreina sem virkjunaraðila að væntanlegri gufuvirkjun við Kröflu þann aðila, sem að þessum málum hefur unnið um áratugaskeið á þessu svæði.

Væntir stjórn Laxárvirkjunar þess, að þér hlutist til um, að frv. verði breytt í samræmi við þessi sjónarmið. Að öðru leyti vísast í bréf Laxárvirkjunar til iðnrn., dags. 10.1. 1974, sem yður var sent afrit af.

Virðingarfyllst,

f.h. Laxárvirkjunarstjórnar.

Knútur Otterstedt.“

Þetta er það bréf, sem stjórn Laxárvirkjunar sendi mér, að vísu þannig, að ætlunin er, að þetta bréf sé til okkar allra þm. í Norðurl. e., og að sjálfsögðu verður þetta bréf tekið fyrir af okkur og efni þess rætt. Nú er það að vísu svo, að á þessu stigi treysti ég mér ekki til þess að lofa neinum ákveðnum stuðningi við þau tilmæli, sem fram koma í þessu bréfi. Ég held, að það þurfi mikillar athugunar við. Að sjálfsögðu fer ekkert á milli mála, að Laxárvirkjun er vel fær um að sjá um þetta mál, ef út í það er farið, a.m.k. til bráðabirgða, um það efast ég ekki. En ég vil þó að þessu gefna tilefni leggja á það höfuðáherslu, að það, sem máli skiptir nú, er, að stofnun Norðurlandsvirkjunar, þess fyrirtækis, sem lög gera ráð fyrir, verði hraðað sem allra mest, þ.e.a.s. Norðurlandsvirkjun komist á laggirnar. Það er gert ráð fyrir, að þetta verði sameignarfyrirtæki ríkis og sveitafélaga, þ.e. ríkisins og sveitarfélaganna á Norðurlandi, og það er áreiðanlega mjög heppilegt skipulag og nauðsynlegt, að því verði hraðað, að það komist á laggirnar. Að því er ég best veit, er nú einmitt þessa dagana og hefur raunar verið að undanförnu verið að vinna að því að koma þessu máli fram. Það er m.a. verið að finna skynsamlegan grundvöll undir eignaskiptingu, þannig að ég held, að við verðum að fara með nokkurri gát í þessu öllu, þó að sjálfsagt sé að taka beiðni Laxárvirkjunar til vinsamlegrar skoðunar. Það er sjálfsagt að gera það. En ég held þó, að við verðum að lita á fleira í þessu, og við megum ekki gera neitt það, sem yrði til þess að torvelda stofnun Norðurlandsvirkjunar. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu nú, m.a. að gefnu tilefni frá hv. þm. Jóni Sólnes, varðandi beiðni Laxárvirkjunar og eins vegna þess bréfs, sem mér hefur borist og raunar okkur þm. Norðurl. e. öllum, varðandi þetta sama efni.