27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim þm., sem hér hafa tekið til máls, fyrir mjög góðar undirtektir við meginefni þessa frv. og fyrir ábendingar, sem frá þeim hafa komið. En ég er alveg á sama máli og síðasti hv. þm. Ég tel það skipta ákaflega miklu máli, að samkomulag takist um að koma á laggirnar Norðurlandsvirkjun, sem verði sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna á Norðurlandi. Ég tel þetta vera ákaflega mikla nauðsyn fyrir Norðlendinga sjálfa. Án þess að ég vilji nokkuð fara að ýfa hér upp deilumál, þá held ég, að það sé alveg augljóst mál, að ýmis vandkvæði, sem Laxárvirkjun hefur lent í, stöfuðu af því, að hún var í eigu Akureyrar, en ekki annarra aðila á þessu svæði. Einnig hefur komið upp norðanlands og raunar hvarvetna um landið það sjónarmið, að menn hafa horft fyrst og fremst á þann kost, sem næstur þeim var, þegar rætt var um virkjanir, en áttu erfitt með að fjalla um málin í stærri heildum og út frá hagsmunum landsfjórðungsins í heilu lagi.

Ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt að reyna að þoka málum þannig, að landsfjórðungurinn allur telji sig hafa hag af myndarlegri framkvæmd og landsfjórðungurinn allur eigi þá lýðræðislega aðild að slíkri framkvæmd. Um hitt er ég alveg sammála hv. þm. Jóni Sólnes, að framkvæmdatöf á þessu skipulagi má ekki verða til þess að draga úr þeim undirbúningshraða, sem hafa þarf til þess, að þessi virkjun geti sem allra fyrst komið að gagni. Og ég skal vissulega huga að því að reyna að finna leiðir til þess, að hægt sé að flýta þeim framkvæmdum, þannig að þær tefjist ekki, þó að ekki verði endanlega búið að ganga frá Norðurlandsvirkjun. Eftir að þetta er orðið að l. hér á Alþ. og heimildin er komin, er hægt að fara að hefja ýmsan undirbúning.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson benti á, að það er eftir að framkvæma þarna tilteknar rannsóknir. Það, sem vantar, er að fullreyna, að botnhiti við Kröflu sé nægilega hár. Það er vitað um þetta við Námafjall. og jarðfræðingar telja allar líkur benda til þess, að það sé einnig við Kröflu. En til þess að vera alveg öruggur þarf að ganga úr skugga um þetta, og það er ekki hægt að gera upp á milli svæðanna, fyrr en þetta hefur verið gert nú í sumar. En ég mun fyrir mitt leyti reyna að beita mér fyrir því, að á þessu verði hafður sem mestur hraði, eins og hv. þm. Jón Sólnes lagði áherslu á.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson benti á eignarréttarvandamál, sem þarna kynnu að koma upp. Í því sambandi vil ég minna á það, að fyrir hinu háa Alþ. liggur frv., sem ég flutti í fyrsta skipti á síðasta þingi. Ég flutti það aftur í upphafi þessa þings, og það hefur legið óafgreitt hjá iðnn. hv. Nd. síðan. Þetta frv. fjallaði um háhitasvæði, og efni þess var það, að orku á háhitasvæðum skyldi meta sem sameign þjóðarinnar allrar, en ekki sem einkaeign þeirra aðila, sem kunna að eiga landið yfir orkunni. Ég tel það algerlega óhjákvæmilegt, að Alþ. skeri úr um þetta mál nú á þessu þingi. Við erum að ráðast í meiri háttar framkvæmdir nú á háhitasvæðum fyrir utan hina væntanlegu jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall. Þá kemur til hitaveita frá Svartsengi og væntanlega undirbúningur að sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Alþ. verður, áður en til þessara framkvæmda kemur, að ganga frá þessu grundvallaratriði, hvort þjóðin öll á ekki þessa orku, sem okkur er einvörðungu tiltæk vegna þess, að við höfum lagt okkar sameiginlegu fjármuni í að rannsaka þessi svæði, og enginn einstaklingur getur notað sér að neinu upp á eigin spýtur. Ég hygg, að almenn réttlætiskennd Íslendinga sé sú, að það beri að meta þessa orku sem sameign þjóðarinnar, en að sjálfsögðu koma svo til bætur fyrir hvers konar landsspjöll og annað slíkt. En verði þetta ekki gert, geta vissulega komið upp vandamál, sem geta hreinlega orðið risavaxin, og ef við leysum ekki þetta mál, getum við verið að leggja á okkur sjálfa bagga, sem kunna að verða óhemjulega þungbærir, þegar tímar líða fram. Þess vegna verður að taka á þessu máli núna, Alþ. verður að skera úr um það, hvernig með þetta skuli fara.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson benti mér á að hafa samband við Náttúruverndarráð. Því er þannig háttað, að um meira en eins árs skeið hefur verið starfandi samstarfsnefnd milli iðnrn, og Náttúruverndarráðs. Þessi n. starfar reglulega, og fyrir hana eru lagðar allar áætlanir um virkjunarframkvæmdir, þannig að sú samvinna er í ákaflega góðri skipan, og þarna hefur tekist mjög svo greið samvinna einnig. Að sjálfsögðu hafa þessi áform um jarðgufuvirkjun við Kröflu og við Námafjall fyrir löngu verið lögð fyrir Náttúruverndarráð, sem hugað hefur að öllum þeim vandamálum, sem þar kynnu að koma upp.

En sem sagt, ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir góðar undirtektir og vona, að þetta mál verði fljótlega að lögum.