27.03.1974
Neðri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3173 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða það frv., sem liggur fyrir iðnn. og hefur legið síðan í haust. En ég vil aðeins benda hæstv. ráðh. á, að enda þótt það verði samþ. hér á hv. Alþ., leysir það ekki þann vanda, sem ég var að benda á. Það eru mengunarmálin, og það er vatnsrennslið út í Mývatn, og það er lífríkið í vatninu. Líklegt er, að það verði frekar Námafjall, sem æskilegt er að virkja, en verður ekki fullyrt, fyrr en rannsókn er lokið við Kröflu. (Gripið fram í.) Það verður ekki fullyrt, hvort yrði betra, fyrr en búið er að ljúka rannsókn við Kröflu. En ef virkjað verður í Námafjalli, er talið, að það muni verða viðkvæmara fyrir Mývatn og þótt ekki þurfi að spyrja kóng eða prest um leyfi til þess að virkja, þá er eftir að fullnægja því, sem náttúruverndarráð kann að krefjast, og fullnægja því, sem aðrir aðilar vilja krefjast í sambandi við lífríki Mývatns. Þess vegna eru aðvörunarorð mín tímabær og eðlileg, að sá tími verði notaður, sem nú er fyrir hendi, til athugunar á þessu máli, vegna þess að annars gæti það orðið til tafa, þegar að öðru leyti væri búið að undirbúa virkjunina. Það er ekki langt síðan bóndi norðan úr Mývatnssveit, sem á land að Mývatni, var hér á ferð og lét í ljós áhyggjur sínar af því, að virkjun við Námafjall gæti haft mjög skaðleg áhrif á lífríki Mývatns. Þessi vandi er alveg eins til staðar, þótt hæstv. iðnrh, fái lögfest það frv., sem hann áðan vitnaði í.