27.03.1974
Neðri deild: 91. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3175 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

289. mál, lántökuheimild fyrir ríkissjóð

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli fram komið, en harma, að það hefur tafist meira en gert var ráð fyrir í upphafi. En hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir, af hvaða ástæðum það er, og virðist þar því miður vera um misskilning að ræða. En ég vildi í sambandi við þetta leyfa mér að beina tveimur fsp. til hæstv. fjmrh., af því að ég sé ekki, að það komi fram í frv. Það er í fyrsta lagi: Hvaða vöxtum er reiknað með af því fé, sem inn kann að verða lagt á hinn bundna reikning hjá Viðlagasjóði? – Og í öðru lagi: Frá hvaða tíma tekur verðtrygging gildi? Það skiptir nokkru máli, hvort verðtrygging tekur gildi frá byggingarvísitölunni, sem kom á 1. nóv., eða þeirri vísitölu, sem kom á 1. mars. Það mun vera um 6 stiga hækkun að ræða frá því í nóv. og fram í mars, og ég mundi telja mjög eðlilegt, eins og málið hefur að borið, að verðtrygging yrði miðuð við þá vísitölu, sem í gildi var, þegar bætur hófust, hinn 20. okt.