28.03.1974
Efri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3185 í B-deild Alþingistíðinda. (2864)

61. mál, tannlækningar

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Þetta frv. er komið til Ed., eftir að Nd. hafði fjallað um það og afgreitt það frá sér. Frv. var upphaflega undirbúið af samstarfsnefnd heilbrrn., Tannlæknafélags Íslands og tannlæknadeildar Háskóla Íslands, sem heilbrrh. setti á stofn 25. maí 1972 undir forustu fulltrúa rn., en n. var falið að endurskoða gildandi lög og reglur um tannlækningar og þær stéttir, sem starfa saman á þessu sviði, fyrst og fremst tannlækna og tannsmíði. Tannlæknafélagið hafði óskað eftir því, að slík n. yrði skipuð, því að gildandi lög voru talin löngu orðin úrelt fyrir efnis sakir, enda voru þau að stofni til frá 1929. Var frv. síðan samið með hliðsjón af íslenskum aðstæðum og síðari tíma lagasetningu um lækningastarf hér á landi, fyrst og fremst læknalögum nr. 80 frá 1969, en einnig af yngstu löggjöf nágrannaþjóða, einkum Dana og Norðmanna, sem hafa nýverið endurskoðað ýmis ákvæði á þessu sviði og sett nýjar reglur.

Frv. gerir ráð fyrir því, að sams konar reglur gildi um veitingu tannlæknaleyfis, og nú gilda um veitingu almenns lækningaleyfis, og er 1. gr. frv. um þetta efni og efnislega samhljóða 1. gr. læknalaga. En merkasta nýmælið er að finna í 9. gr. í hinu upphaflega frv., en þar er heimilað, að tannlæknar hafi sérhæft aðstoðarfólk sér til hjálpar. Skýr ákvæði um efni þessarar gr. hefur vantað í núgildandi lög, og var það eitt með öðru ástæðan til þess, að svo brýna nauðsyn bar til, að tannlæknalög yrðu nú endurskoðuð. Hér er gert ráð fyrir því, að það fyrirkomulag við vinnu á tannlæknastofum, sem nú tíðkast bæði hér og í nágrannalöndum okkar, verði berum orðum heimilað. Auk tannlækna starfa nú á tannlæknastofum yfirleitt tannsmiðir og aðstoðarfólk ýmist við afgreiðslu eða við aðstoð við tannlækni að störfum. Í nágrannalöndum okkar, svo sem í Danmörku, eru sérstök ákvæði um þetta aðstoðarfólk.

Ég tel rétt, að kannað verði, hvort og að hve miklu leyti nauðsynlegt er að setja sérreglur um nám og menntunarskilyrði og þá réttindi þessara stétta hér á landi. Um tannsmiði gilda þær sérreglur, að þeir hafa hingað til verið menntaðir af tannlæknum sjálfum, sem hafa rekið nokkurs konar tannsmíðaskóla, og þar hafa viðkomandi lokið prófi og fengið sín skírteini og réttindi. Hvernig svo sem ákveðið yrði í framtíðinni að haga menntun þessara stétta, taldi n. eðlilegt, að endanlegt starfsleyfi eða löggilding heilbrrh. fylgdi því eftir, eins og um aðrar heilbrigðisstéttir, enda sannað fyrir honum, að menntun hvers og eins uppfyllti þau skilyrði, sem lögð séu hér fyrir slíku starfsleyfi.

Eins og ég gat um áðan, hefur Nd. fjallað um þetta mál. og hún gerði á því nokkrar breytingar, sem eru til að einfalda málið eða skýra það. En ég vil láta þess getið, að við eina breyt., sem gerð var í Nd., hafa komið fram aths. Samkv. frv., eins og það var lagt fram af ríkisstj., var gert ráð fyrir því, að ráðh. skipaði n., sem fjallaði um umsóknir um sérfræðileyfi fyrir tannlækna, n. væri skipuð tveimur fulltrúum frá Tannlæknafélagi Íslands og deildarforseta tannlæknadeildar Háskóla Íslands, sem yrði form. hennar. Auk þess var gert ráð fyrir, að n. tilnefndi tvo sérfróða tannlækna til þátttöku með n. í meðferð einstakra mála og hefðu þeir einnig atkvæðisrétt. Í Nd. var þessum ákvæðum þannig breytt, að einungis tannlæknadeild Háskóla Íslands ákveði reglur um nám sérfræðinga, svo og leyfisveitingar til þeirra. Nú hefur þm. öllum, að ég hygg, borist bréf frá Tannlæknafélagi Íslands, þar sem þeir gera athugasemdir við þessa breytingu og vara mjög eindregið við, að gr. verði samþ., eins og frá henni var gengið í Nd., en leggja til, að henni verði breytt í upphaflega mynd, eins og n., sem undirbjó frv., gerði ráð fyrir. Röksemdir Tannlæknafélags Íslands fyrir þessu eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessu til stuðnings leyfir stjórn Tannlæknafélags Íslands að benda á, að eins og gr. er undirbúin frá heilbr: og trn. Nd. Alþ., er engin trygging fyrir því, að sérfræðingur fjalli um umsóknir til viðurkenningar á sérfræðiréttindum, þar sem aðeins einn sérfræðingur er innan tannlæknadeildar Háskóla Íslands, og komast því núv. kennarar þar í þá óæskilegu aðstöðu að dæma sjálfa sig, en venjan við próf er, að hlutlaus aðili fjalli þar um. Þótt fyrrnefnd 6. gr. sé hliðstæð við gr. í læknal., skal bent á, að meðal lækna er fyrir löngu komin hefð á reglur um menntun og skilyrði til sérfræðileyfis hérlendis og erlendis. Hins vegar eru engar samsvarandi alþjóðlegar reglur til um slík skilyrði meðal tannlækna og reglur og kröfur mismunandi í hinum ýmsu löndum. Hér á landi er aðeins til einn sérfræðingur enn sem komið er. Því liggur ljóst fyrir, að þessi mál eru fyrst og fremst í undirbúningi hér á landi, og því telur stjórn Tannlæknafélags Íslands rétt og nauðsynlegt, að Tannlæknafélag Íslands sé haft með í ráðum, þegar samdar eru reglur um skilyrði og veitingu sérfræðileyfa, eins og gert er ráð fyrir í núgildandi l. um tannlækningar og stjórnskipuð n. til endurskoðunar á l. um tannlækningar er sammála um.“

Mér virðist, að hér komi fram röksemdir, sem vert sé að athuga, og vil beina því til hv. n., að hún líti á þessar röksemdir og kanni, hvort ekki væri ástæða til að færa þessa grein aftur í upprunalegt horf.

Ég legg svo til herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og trn.