28.03.1974
Neðri deild: 92. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

277. mál, sala kirkjujarðarinnar Stóru-Borgar

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 559 er flutt af mér og hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfi Jónssyni. Frv. er flutt að beiðni oddvitans í Grímsneshreppi.

Saga þessa máls er sú, að árið 1947 keypti Grímsneshreppur jörðina Stóru-Borg af ríkinu með þeim skilyrðum í heimildarlögum um söluna, að ef hreppurinn seldi jörðina aftur, þá mætti hann ekki selja hana öðrum en ríkinu, og þá á fasteignamatsverði. Það er þetta skilyrði, sem lagt er til með þessu frv., sem hér er til umr., að fella niður úr l., svo að hreppurinn geti selt jörðina núverandi ábúanda, sem hefur búið á Stóru-Borg í hálfan annan áratug. Hann óskar mjög eftir að kaupa jörðina, en þannig stendur á því, að tveir synir hans, sem farnir eru að heiman og búnir að stofna heimili, vilja koma þeim aftur og fara að búa með föður sínum, en þó því aðeins að eignarhald á jörðinni færist í hendur föður þeirra.

Stóra-Borg er það mikil jörð, bæði að landrými og ræktunarskilyrðum, að þar geta þrír eða fleiri búið góðum búum. Ábúandi Stóru-Borgar, Sigurjón Ólafsson, er mjög mikill dugnaðarmaður. Hann hefur ræktað mikið og byggt og verið, eins og stundum er sagt um dugnaðarbændur, sveitarstólpi í sveit sinni.

Grímsnesið, þessi góða sveit, sem er kunn fyrir mikið landrými og mörg stórbýli, hefur á síðustu tveimur áratugum orðið fyrir því, að margar jarðir þar hafa farið undir sumarbústaði, og bændum hefur fækkað í sveitinni. Nú vilja tveir ungir og dugandi menn koma heim í þessa sveit sína aftur, eftir að hafa dvalið utan hennar um skeið, og hefja þar búskap með föður sínum, sem er, eins og ég sagði áðan, kunnur dugnaðarmaður. En þessir feðgar vilja eins og flestir bændur aðrir eiga sjálfir ábýli sitt. Þar í hreppnum er mikill áhugi fyrir því, að þessar fyrirætlanir geti tekist. Hreppsn. hefur með öllum atkv. gegn einu samþykkt að selja ábúanda jörðina og almennur hreppsfundur, að mestu skipaður bændum, samþykkt söluna með 39:1 atkv., en 6 menn greiddu ekki atkv. Þetta mál hefur þannig yfirgnæfandi fylgi hreppsbænda og hefur fengið hina lýðræðislegustu meðferð, þar sem það var borið undir atkv. á sérstökum, almennum hreppsfundi, sem til var boðað um þetta mál. Samþykktir þær, sem gerðar voru um málið, eru prentaðar með frv. á þskj. 559, og vil ég, með leyfi forseta lesa þessi fskj.

Það er þá í fyrsta lagi:

„Á fundi hreppsn. Grímsneshrepps, sem haldinn var að félagsheimilinu Borg 24. febr. 1974, var tekið fyrir m.a.:

Sigurjón Ólafsson bóndi, Stóru-Borg, fór fram á að fá ábýlisjörð sína, Stóru-Borg, keypta af Grímsneshreppi. Svohljóðandi bókun var gerð um málið:

„Hreppsn. Grímsneshrepps samþykkir að selja Sigurjóni Ólafssyni jörðina Stóru-Borg á fasteignamatsverði, ef nauðsynleg leyfi fást til sölunnar, (þ.e. að ríkissjóður falli frá forkaupsrétti sínum), með því skilyrði, að hreppurinn eigi ávallt forkaupsrétt að jörðinni eða hluta af henni á fasteignamatsverði og þeim mannvirkjum, sem á henni verða, á matsverði. Undan sölu sé tekið lán það, sem um getur í byggingarbréfi Sigurjóns, og eitthvað meira eftir nánara samkomulagi, sem gert verður, ef af sölu verður.“

Till. þessi var samþykkt með 4 atkv. gegn einu.

F.h. hreppsnefndar Grímsneshrepps,

Ásmundur Eiríksson, oddviti.“

Þá vil ég einnig lesa samþykkt hreppsfundarins, sem hljóðar þannig:

„Á almennum hreppsfundi, er haldinn var að Borg mánudaginn 18. mars 1974, var eftirfarandi till. borin fram:

Almennur hreppsfundur í Grímsneshreppi, haldinn að Borg, mánudaginn 18. mars 1974, lýsir stuðningi sínum við samþykkt meiri hl. hreppsn. Grímsneshrepps frá 24. febr. s.l. varðandi sölu jarðarinnar Stóru-Borgar, með þeim skilmálum, er fram eru teknir í samþykkt hreppsnefndarinnar.

Flm. till. voru: Ásmundur Eíríksson, Gunnlaugur Þorsteinsson, Guðbjörg Arndal, Sigurður Gunnarsson.

Eftir allmiklar umr. var till. samþykkt með 39 atkv. gegn einu. Sex fundarmenn greiddu ekki atkv.

Ég skal taka það fram til skýringar, að flm. þessarar till. á hinum almenna hreppsfundi, þeir, sem ég las hér upp, eru allt hreppsnefndarmenn.

Ég vona, að þetta mál fái greiða leið í gegnum Alþingi. Ég tel, að það væri illa farið, ef Alþingi gæti ekki fallist á þessa till., bæði íbúana í Grímsneshreppi og hreppsn. þar um það, að Sigurjón Ólafsson fái að kaupa ábýlisjörð sína, Stóru-Borg. Ég veit, að hv. alþm. hafa skilið það, að hér er ekki um að ræða að selja eign ríkisins, heldur sölu á eign Grímsneshrepps, sem hann fyrir löngu keypti af ríkinu með þeim skilmálum, eins og ég hef getið um, að ríkið ætti forkaupsrétt að jörðinni.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að gera till. um það, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og landbn.