05.11.1973
Neðri deild: 15. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

53. mál, Laxárvirkjun

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. til 1. um Laxárvirkjun flutti ég á síðasta þingi, þ. e. a. s. s. l. vetur og flyt það nú óbreytt. Í því felast tvær breytingar sérstaklega frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi það, að Laxárvirkjun, sem nú er sameign Akureyrarbæjar og ríkis, verði gerð að sameign ríkis og kaupstaðanna í Norðurl. e., Akureyrar og Húsavíkur, svo og sýslnanna beggja, Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslna, þannig að Laxárvirkjunarsvæðið allt sé í eigu ríkis og þeirra aðila, sem virkjunarinnar njóta.

Í öðru lagi er lagt til í frv., að heimilað verði að fullljúka Laxárvirkjun III, þ. e. a. s. að í staðinn fyrir þau 6.5 megawött, sem nú hafa verið virkjuð alveg nýverið og tekin í gagnið í haust, verði leyft að bæta við virkjunina þannig, að hún geti framleitt 19 megawött, og með því móti yrði hægt að bæta úr sárasta orkuskortinum, sem er á þessu svæði, með fljótvirkri og ódýrri framkvæmd, því að við þá virkjun, sem framkvæmd var með 1. áfanga Laxárvirkjunar III og framleiðir nú 6.5 megawött, eins og áður segir, þarf að bæta stíflu, 23 metra hárri, og það er svo ódýr framkvæmd miðað við það, sem þegar er búið að leggja þarna af mörkum, að það er að allra skynsamra manna mati og sérfróðra langódýrasta aðferðin til þess að bæta úr þeim raforkuskorti, sem er fyrir hendi í Norðurl. e.

Mig langar að geta þess, að í haust var verið að athuga um almannavarnir á þessu svæði og þá ráku þeir sérfræðingar, sem kvaddir voru þangað, sig á, að eitt erfiðasta viðfangsefnið í þeim málum var einmitt það, hvað orkan var takmörkuð og óviss á svæðinu. Í öðru lagi þekkja allir, að t. d. á Akureyri er einn undirstöðuatvinnuvegur bæjarbúa iðnaður, og þegar orkan er óviss og getur truflast svo og svo mikið og svo og svo lengi, þá er auðvitað þessum dýrmæta atvinnuvegi hætta búin. Þegar þannig stendur, að við þurfum að framleiða verulega orku með dísilvélum og olían er orðin jafndýr og allir þekkja og jafnvel óvíst, hve auðvelt verður að fá hana, eins og hér var verið að ræða um áðan, má öllum vera ljóst, að þarna þarf hið allra fyrsta úr að bæta. Menn geta gert sér í hugarlund, að hér er nokkur vandi á ferðum, ef þeir hafa tekið eftir fréttum, sem nýverið bárust úr þessu kjördæmi, að t. d. heilsugæslustöð og elliheimili, eins og heimilið í Skjaldarvík, hefur talið sig til knúið að kaupa vararafstöð upp á ½ millj. kr. til þess að eiga það ekki á hættu, að aldrað fólk, um 100 talsins, í þessu elliheimili þurfi kannske einn góðan veðurdag að sitja í kulda og myrkri.

Ég fylgdi þessu máli nokkuð úr hlaði á síðasta þingi með allítarlegri ræðu, sem var prentuð í Alþingistíðindum, og leyfi ég mér að vísa til þess. Þó vil ég taka fram hér nokkur atriði, sem mér þykir rétt að telja enn frekar en ég hef þegar gert.

Ein ástæðan, sem ég hef fyrir þessum frv. flutningi, er sú, að ég get ekki orða- og athafnalaust horft á, að svo herfilega sé fleygt í súginn almannafé sem verður, ef nú er hætt við Laxárvirkjun nánast á því stigi, sem verst gegnir. Ég vil rifja þetta upp:

1. Með lögum um Laxárvirkjun frá 1965 var heimilað að virkja í Laxá við Brúar í Aðaldal 12.6 megawött fram yfir þau 12 megawött áður virkjuð. Af þessum 12.5 megawöttum hafa nú 6.5 megawött verið virkjuð eða svokallaður I. áfangi Laxárvirkjunar III og verið tekinn í gagnið í haust, eins og fyrr segir. En ráðh. orkumála hefur samið við Landeigendafélag Laxár og Mývatns að hætta virkjun þar með. Þó á ríkið eða átti og Laxárvirkjun allt það land, sem virkjunin fer fram á, og þar með fullan rétt á virkjunaraðstöðunni samkv. vatnalögum. Svo er að sjá sem ríkið hafi aldrei áttað sig á þessari réttarstöðu sinni og Laxárvirkjunar.

2. Vegna heimildar laga um 12.5 megawatta virkjun og trú af líkum á nokkuð stærri virkjun hafa vatnsgöng og stöðvarhús, sem og vélakaup orðið kostnaðarhærri en þurft hefði fyrir 6.5 megawattaáfangann einan, svo að fullyrt er, að nemi 250–300 millj. kr., sem nú eru gerðar óvirkar með öllu með framkvæmdabanni ráðh., en koma að fullu til gagns, ef fengist að reisa hina 23 metra háu stíflu í Laxárgljúfrum samkv. hönnun Laxárvirkjunar III. Rétt er að benda á, að á hinni umdeildu Laxárvirkjun hefði aldrei verið byrjað, hefði grunur leikið á, að henni fengist ekki lokið til sæmilegs gagns. Og í þessu sambandi endurtek ég enn, að það eru til heimildarlög, þar sem mátti þó a. m. k. virkja 12.5 megawött, en hefur verið staðnæmst við 6.5 og bannað að fara lengra af ráðh.

3. 100 millj. kr. raflína hefur verið reist undir forsjá núv. orkumálaráðh. frá Akureyri til Skagafjarðar, og er henni ætlað að flytja rafmagn frá Laxársvæði til orkuvana Skagafjarðar- og Húnavatnssýslusvæða. Þessi lína stendur nú ótengd, opin í báða enda, þar eða enga orku er að flytja að óbreyttri virkjun. Eru þá millj. orðnar 400, sem bíða ónýttar norður þar, en mæti fullnýta með fullgerðri Laxárvirkjun III.

4. Laxárvirkjun, sem á gufuvirkjun, 3 megawött að stærð, í Bjarnarflagi í Mývatnssveit, hefur óskað eftir leyfi til að auka þá virkjun. Stjórn virkjunarinnar hefur ekki fengið svar við umleitun sinni.

5. Laxárvirkjunarstjórn hefur spurst fyrir um leyfi til gufuvirkjunar við Kröflu í Mývatnsfjöllum. Hún er ekki virt svars. En frést hefur eftir krókaleiðum, að Orkustofnuninni hafi verið synjað um fjárveitingu til rannsóknarborana þar. Sú synjun talar að sjálfsögðu sínu máli.

6. Landbrh. selur kirkjujörðina Birningsstaði fyrir spottprís 15. des. 1972, meðan enn er óútkljáð Laxárdeila. Ég fæ kannske tækifæri til þess alveg næstu daga að rekja það mál nánar og fer ekki lengra að sinni í það.

Nú er ákaft veifað framan í okkur Norðlendinga raflínu frá Sigöldu og svo Dettifossvirkjun. Að sjálfsögðu eru þetta framkvæmdir, sem eiga að koma, og vel sé þeim, sem vinna að þeim. En þessar framkvæmdir eiga að gerast með skynsamlegum hætti og í hagkvæmri röð. Meðan hægt er að veita okkur Norðlendingum það rafmagn, sem okkur skortir nú, ódýrast og hagkvæmast með fullbyggingu Laxárvirkjun III, þá er sjálfsagt að gera svo. Þarna á vísast að koma næst virkjun í Blöndu eða Jökulsá í Skagafirði eða gufuvirkjun við Kröflu, þá samlína við Búrfell og Sigöldu og þá Dettifossvirkjun, nema áður hafi okkar hugkvæmi orkumálaráðh. náð snjöllum sameignarsamningi við Gambíumenn, sem ég skal fyrir mitt leyti fylgja honum til af minni fátæklegu getu, ef skynsamlegt þykir. En mig langar að skjóta því fram, að ekki alls fyrir löngu las ég einhvers staðar, að slíkri framleiðslu, sem þar hefur verið stungið upp á, fylgi talsvert mikil mengun, og einhvern tíma hlustaði ég á það, að þessum hæstv. orkumálaráðh., sem nú er, hafi þótt óskynsamlegt að koma á stóriðnaði hér á Íslandi, sem mikil mengun fylgdi, svo að ég vona, að hann kanni það mál vel, áður en nokkuð er gert alvarlegt í því. En í dag bið ég þess eins, að hann taki sönsum í Laxárvirkjunarmálinu og að stoði okkur Norðlendinga til að komast úr sárasta orkuskortinum. Því leyfi ég mér að vænta þess, að hann stuðli nú að því, að þetta frv. mitt um Laxárvirkjun verði samþ., og í trausti þess, að svo megi verða með atfylgi annarra viturra sannsýnna manna á Alþ., legg ég til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til iðnn.