28.03.1974
Efri deild: 93. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3232 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

291. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram um breyt. á almannatryggingalögunum, er hið þriðja í röðinni, sem endurskoðunarnefnd tryggingalaga hefur unnið að. N. þessi var skipuð haustið 1971, og í henni eiga nú sæti Geir Gunnarsson alþm., Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri, Adda Bára Sigfúsdóttir aðstoðarmaður ráðh., Halldór S. Magnússon viðskiptafræðingur, Tómas Karlsson ritstjóri, Oddur Ólafsson alþm. og Sigurður Ingimundarson forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Ritari n. er Jón Ingimarsson skrifstofustjóri.

Veigamesta nýmæli þessa frv. eru ákvæði um tannlæknaþjónustu og um rýmkun á rétti öryrkja og ellilífeyrisþega til þess að fá uppbót á lífeyri.

Vorið 1971 var samþ. á Alþingi lagabreyting, sem fól í sér verulega stefnubreytingu í lífeyrisgreiðslum. Þá var horfið frá því, að allir skyldu eiga jafnan rétt, hvað sem liði öðrum tekjum. Þetta var gert með þeim hætti að lögbinda rétt lífeyrisþega til uppbóta á almennan lífeyri, ef aðrar tekjur voru litlar eða engar, þannig að heildartekjur næðu vissu lágmarki. Þetta lágmark var ákveðið 7 000 kr. á mánuði, en lögin áttu ekki að taka gildi fyrr en í ársbyrjun 1972. Strax eftir stjórnarskiptin 1971 voru sett brbl., sem flýttu gildistöku þessa ákvæðis, og í ársbyrjun 1972 var tekjutryggingarmarkmið hækkað upp í 10 000 kr. Frá 1. apríl n. k. verður þessi upphæð 18 886 kr. á einstakling eða tæp 34 þús. á hjón, ef bæði hafa þessi réttindi. En á sama tímabili hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað úr 155 stigum í 242 stig. Vísitalan hefur þannig hækkað um 56% rúm, en tekjutryggingarmarkmið um nær 170%. Hér er um að ræða viðleitni til þess að jafna nokkuð kjör þeirra, sem eiga tryggða fjárhagsafkomu með aðild að lífeyrissjóðum, og hinna, sem ekki eiga neinn slíkan rétt.

Eins og kunnugt er, skortir mjög mikið á, að viðunanlegur tekjujöfnuður ríki meðal vinnufærra manna. En ójöfnuður vex þó til mikilla muna, þegar að því kemur, að menn hætta vinnu sökum elli eða örorku. Þá eiga sumir auk lífeyris almannatrygginga rétt á 60% af launum í þeirri stöðu, sem þeir gegndu síðast, eins og þau eru á hverjum tíma. Aðrir eiga rétt, sem miðast við laun þeirra, eins og þau voru að meðaltali síðustu 5 eða 10 vinnuárin. Og enn aðrir eiga engan annan rétt en þann, sem almannatryggingar veita.

Á þessu misrétti verður ekki ráðin bót nema með sameiningu almannatrygginga og lífeyrissjóða í eitt allsherjartryggingakerfi. Ég tel, að á því sé mikil nauðsyn, að að því verkefni verði unnið, og ég hygg, að á því sé nú meiri skilningur meðal manna hér á landi en nokkurn tíma áður hefur verið. En á meðan sú breyting er enn á undirbúningsstigi, er nauðsynlegt að auka tekjujöfnunaráhrif tekjutryggingarákvæðanna.

Uppbótarákvæðin voru frá upphafi þannig hugsuð, að hverjum bótaþega væri greiddur mismunurinn á tekjutryggingarupphæð og tekjum bótþega, væru þær lægri en tryggingarmarkið, og er þá bæði átt við grunn lífeyristrygginganna og aðrar tekjur, hvort sem um er að ræða tekjur úr lífeyrissjóðum eða tekjur vegna vinnu. Breytingin, sem nú er fyrirhuguð, lýtur að því, að þeir, sem hafa óverulegar tekjur úr lífeyrissjóðum eða vegna vinnu, geti notið tekjutryggingarákvæðanna í ríkara mæli en nú er og þar með færst svolítið nær þeim kjörum, sem fólk með mikil lífeyrisréttindi býr við.

Eindregnar óskir um breytingar í þessa átt hafa m.a. komið fram hjá talsmönnum verkalýðshreyfingarinnar, en verkamenn og sérstaklega þeir, sem nú eru á ellilífeyrisaldri, eiga mjög takmarkaðan rétt til lífeyris úr lífeyrissjóðum sínum.

Það er 3. gr. frv., sem fjallar um þetta efni. Þar er gert ráð fyrir því, að uppbót á lífeyri skerðist ekki, þó að lífeyrisþeginn hafi aðrar tekjur en lífeyri trygginganna, ef þær tekjur fara ekki fram úr 30 þús. kr. á ári. Þegar þessu marki er náð, fer uppbótin hins vegar að skerðast, og nemur skerðingin helmingi þeirra tekna, sem bótaþeginn fær. Uppbótin, sem tilgreind er í frv., 64 000 kr. á ári, er miðuð við upphæðina eins og hún er mánuðina jan.-mars í ár. 1. apríl n.k. hækkar þessi upphæð um 25%, eins og aðrar lífeyrisbætur, og þarf þá að breyta tölunni, eins og hér er tilgreint, til samræmis við það. Erfitt er að meta að fullu, hversu miklu fé verður varið til tekjujöfnunar vegna þessara breytinga, en skv. mati Tryggingastofnunar ríkisins er sennilega um 250 millj. kr. að ræða á einu ári.

Ákvæði um tannlæknaþjónustu, sem ég minntist á áðan, er í 6. gr. þessa frv. í tryggingalögum hefur tæpast verið minnst á tannlæknaþjónustu, aðeins er að finna heimild í 43. gr. l., þar sem segir, að í samþykkt sjúkrasamlaga megi ákveða greiðslur vegna tannlækninga. Þessi heimild hefur litið sem ekkert verið notuð. Ríkið greiðir hins vegar hluta af tannviðgerðarkostnaði skólabarna, og sum sveitarfélög halda uppi skólatannlækningum, en önnur ekki eða aðeins að takmörkuðu leyti.

Með l. um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi um síðustu áramót, var mörkuð sú stefna, að tannlækningar yrðu hluti þeirrar læknisþjónustu, sem veita á á heilsugæslustöðvum, og tannlæknar ráðnir til starfa þar eins og aðrir læknar. Unnið er að áætlun um tannlæknaþörf, og athugun fer fram á því, hvar þurfi að koma upp aðstöðu fyrir launlækna.

Í framtíðinni má því gera ráð fyrir, að sú tannlæknaþjónusta, sem frv. gerir ráð fyrir að sjúkrasamlagið taki þátt í að greiða, fari að mestu fram á heilsugæslustöðvum og í skólum. En einnig er þó áformað að semja við tannlækna, sem reka eigin stofur, og er lagt til, að þátttaka sjúkrasamlags í kostnaði við veitta þjónustu nemi 50%. Þar sem hvort tveggja kemur til, að greiðsla á tannlæknaþjónustu mun auka útgjöld sjúkrasamlaga verulega og uppbygging þjónustustöðva tekur nokkurn tíma, er eðlilegt að láta réttinn til greiðslu frá sjúkrasamlögum takmarkast fyrstu árin við ákveðna þjóðfélagshópa. Í þessum áformum um uppbyggingu og þróun þessarar þjónustu í áföngum er farið inn á svipaða braut og Norðmenn hafa fylgt, þegar þeir hafa tekið tannlækningar inn í sitt kerfi.

Í haust er áformað, að réttur til greiðslu nái til allra barna og unglinga 6–15 ára og sveitarfélag greiði þá jafnframt hinn helming kostnaðarins. Eins og ég gat um áðan, er það mjög breytilegt, hve miklu fé sveitarfélög hafa varið til skólatannlækninga, en vonandi þarf ekki að standa á framlagi þeirra. Ekki er gert ráð fyrir framlagi sveitarfélaga vegna annarra aldursflokka, sem síðar bætast við.

Í ársbyrjun næsta árs, 1975, á rétturinn til 50% greiðslunnar að ná til barna undir skólaaldri og 16 ára unglinga og auk þess til öryrkja, ellilífeyrisþega og vanfærra kvenna. Talið er mjög mikilsvert að vernda tannheilsu barna, unglinga og vanfærra kvenna, og njóta þessir hópar því forgangs hér, auk öryrkja og ellilífeyrisþega, sem eru tekjulitlir þjóðfélagshópar.

Frekari áætlun um fjölgun aldursflokka eða sérstakra hópa, sem eiga að fá rétt til 50% greiðslu vegna tannlækninga, er ekki sett fram í þessu frv., en áformað er, að ráðh. geti með reglugerð bætt við hópum, sem njóti réttar, þegar fé verður tiltækt og tryggt er, að allir, sem rétt öðlast, geti fengið þá þjónustu, sem greiða á að hluta til af almannafé.

Í 5. gr. frv. er fjallað um greiðslur einstaklinga á lyfjum, rannsóknum hjá sérfræðingum og röntgenskoðunum, sem framkvæmdar eru, án þess að sjúklingur sé lagður inn á sjúkrahús. Sjúkrasamlög greiða nú 3/4 af kostnaði fyrir rannsókn hjá sérfræðingi. Ætlunin er ekki að breyta því hlutfalli, þegar á heildina er litið, heldur aðeins að taka upp fastagjald, 150 kr., fyrir hverja komu til sérfræðings. Gjald það, sem sérfræðingar taka nú, er mishátt, en meðalgjald er sem næst 150 kr. Á sama hátt er ekki áformað að breyta heildargreiðslu sjúkrasamlaga vegna lyfja, en lagt er til, að sjúklingar greiði sinn hluta af jöfnunarverði, þó þannig, að fyrir lyf framleidd hér á landi greiðast 100 kr., en fyrir erlend lyf, sem yfirleitt eru mun dýrari, á að greiða 150 kr. Sé heildarverð íslensks lyfs undir 100 kr. eða erlends lyfs undir 150 kr., er ætlast til, að sjúklingur greiði það verð. Engin breyting verður hins vegar á því ákvæði, að sum lyf greiða sjúkrasamlög að fullu. Fyrir röntgenrannsóknir er einnig sett jöfnunargjald, 250 kr. fyrir hverja röntgengreiningu, en hér er einnig um að ræða aukna hlutdeild sjúkrasamlaga í kostnaðinum. Mjög tímabært er orðið að auka þessa niðurgreiðslu með hliðsjón af því, að sjúkratryggingar greiða röntgenrannsóknir að fullu, ef sjúklingur dvelst á sjúkrahúsi, meðan rannsókn fer fram. Einnig er hér oft um veruleg fjárútlát hjá fólki að ræða.

Þær greinar frv., sem ég hef fjallað um, 3., 5. og 6. gr., eru kjarni þess og sá þáttur frv., sem eykur útgjöld almannatrygginga. Til þess að mæta þeim kostnaðarauka, sem hér er um að ræða og er metinn á u.þ.b. 300 millj. kr. á ársgrundvelli, leggur heilbr.- og trmrn. til í 4. gr., að fjölskyldubætur verði skertar um sömu upphæð á þann hátt, að ekki verði greitt með fyrsta barni í fjölskyldu, ef brúttóárstekjur framfæranda eru yfir 700 þ:ís. kr. og börn ekki fleiri en 4. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á prentvillu, sem er á 3. síðu frv. Þar er neðst í aths. talan 600 þús., þar á að standa 700 þús.

Í sambandi við þetta atriði er vert að minna á það, að margir hafa lýst því sjónarmiði sínu, að fólk með sómasamlegar árstekjur eigi að geta séð fyrir einu barni, án þess að til þurfi að koma greiðslur frá almannatryggingakerfi. Þessu sjónarmiði hefur oft verið lýst, og það eru vissulega rök fyrir því, að fólk, sem komið er uppi ákveðið tekjustig, eigi að geta staðið undir kostnaði af einu barni á eðlilegan hátt. Í sambandi við þetta atriði er einnig ástæða til að minnast á það, að margir ræða nú um, að þetta kerfi okkar sé orðið á'kaflega kostnaðarsamt, og ég hygg, að það yrði andstaða við að auka þennan kostnað, eins og nú er komið. Það hefur orðið mjög verulega aukning á síðustu árum, og að sjálfsögðu eru takmörk fyrir því, hversu mikið fé er hægt að veita til þessara þarfa, þannig að hér er lagt til, að þessi vandamál verði leyst með tilfærslum innan kerfisins sjálfs á þennan hátt.

Í 11. gr. leggur rn. enn fremur til, að þessi ráðstöfun skuli ekki hafa áhrif á kaupgreiðsluvísitölu. Þar sem einungis er um að ræða tilfærslu á uppbæðum innan tryggingakerfisins, sem fyrst og fremst eru lágtekjufólki í hag, er ekki eðlilegt að láta þær valda breytingum á almennu kaupgjaldi í landinu. — Ég vil taka það fram, að endurskoðunarnefnd tryggingalaga, sem ég nefndi áðan, hefur ekki tekið afstöðu til þessara tveggja greina.

Aðrar gr. frv. eru smávægilegar lagfæringar. Í 1. gr. er verið að heimila að miða lögheimilistíma ekkju eða ekkils við lögheimilistíma látins maka.

Í 2. gr. er verið að staðfesta ákvæði úr brbl. frá 19. júlí 1971, en vegna mistaka hefur staðfestingin farist fyrir til þessa.

Skv. l., eins og þau eru nú, má greiða örorkulífeyrisþegum ekkju- eða ekkilsbætur eftir lát maka, en þessi heimild nær ekki til þeirra, sem aðeins njóta örorkustyrks, en ekki fulls örorkulífeyris. Þetta er mjög óeðlilegt, og í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir lagfæringu á þessu atriði.

Skv. 50. gr. l. á lífeyrisréttur að falla niður, þegar sjúklingur hefur dvalist lengur en 4 mánuði á 24 mánuðum á stofnunum, þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann. Rétt þykir að heimila tryggingaráði að víkja frá þessum mörkum í sérstökum tilvikum, eins og lagt er til í 8. gr. frv. Er þá ekki síst haft í huga fólk með lungasjúkdóma, sem títt þarf á skammtímavistun á sjúkrahúsum að halda, en þarf þó jafnframt að standa straum af eigin húsnæðiskostnaði.

Í 9. gr. er tekið tillit til þess, að fyrir kemur, að feður, sem halda heimili fyrir börn sín, eiga meðlagskröfur á hendur móður barnanna. Eðlilegt er, að þessir feður geti notið milligöngu Tryggingastofnunarinnar við innheimtu meðlags á sama hátt og fráskildar konur.

Og að lokum vil ég nefna 10. gr. frv., en hún er lögð fram til þess að auðvelda endurskoðun á samningi Norðurlanda um félagslegt öryggi, en að þeirri endurskoðun er nú unnið.

Ég vil láta í ljós þó ósk mína, að þm. vinni saman að því, að þessar breytingar geti orðið að lögum á þessu þingi. Ég tel, að í þessu frv. felist ýmis réttlætismál, sem ég hygg að ekki sé ágreiningur um meðal þm., og vænti þess vegna góðrar samvinnu um þetta mál.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og trn.