29.03.1974
Efri deild: 94. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3244 í B-deild Alþingistíðinda. (2928)

267. mál, aðstoð við kaupstaði eða kauptún vegna landakaupa

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Félmn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. til meðferðar, en það fjallar um breyt. á lögum frá 1963, um aðstoð ríkisins við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa. Höfuðbreytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að lánstími er styttur úr allt að 25 árum og niður í allt að 15 ár. Enn fremur eru vextir hækkaðir úr 5%, eins og verið hefur lengi, í það að vera 3% lægri en almennir útlánsvextir lánastofnana.

Það þarf ekki lengi að velta þessu máli fyrir sér, svo að auðsætt sé, að sú mikla breyting, sem hefur orðið á verðlagi í þjóðfélaginu síðustu árin, hefur að sjálfsögðu leitt til þess, að ráðstöfunarfé í þessu skyni hefur farið síminnkandi og því verr sem árin hafa liðið verið hægt að fullnægja þeirri þörf, sem er á slíkum lánum og farið hefur vaxandi.

Lánasjóður sveitarfélaga hefur haft með höndum afgreiðslu lána af þessu tagi undanfarið á vegum rn., og er vert að geta þess, að hin almennu lánakjör lánasjóðsins eru 10 ár og ársvextir 121/2%.

Þetta mál hefur verið sent til umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og er hún frv. með öllu samþykk. Félmn, mælir þannig með samþykkt frv., en í nál. er þess getið, að einstakir nm. hafi áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru þeir hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Páll Þorsteinsson.