29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

100. mál, kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. frsm. n., að frv. hefur verið sent til umsagnar tveggja aðila. Ég hefði talið æskilegt og raunar algerlega sjálfsagt, að það hefði fyrst og fremst verið sent til umsagnar sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu. Það hefur ekki komið fram, og í grg. frv. er ekki að sjá, að sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu hafi um þetta mál fjallað. Með hliðsjón af því tel ég ákaflega vafasamt að afgreiða þetta mál og önnur þau mál, er fyrir Alþingi liggja um kaupstaðarréttindi einstakra kauptúna, nema áður hafi farið fram athugun á því, hverjum augum sýslunefndir hlutaðeigandi sýslna líta þessi mál.

Hér er um að ræða verulegar breyt. á umdæmaskipun í landinu. Nú er í gangi endurskoðun á sveitarstjórnarlögum. Þar með má vænta þess, að komi endurskoðun á umdæmaskipan sveitarstjórnarumdæmanna, og tel ég vafasamt að afgreiða öll þau frv. um kaupstaðarréttindi, sem fyrir Alþ. liggja, án þess að gera sér grein fyrir því, hvert framhald verður í þessum efnum.

Það er skoðun mín, að sýslurnar séu stofnanir í stjórnkerfinu, sem ekki eigi að kasta fyrir róða, það eigi að virða þær a.m.k. viðlits, þegar um það er fjallað að kljúfa þær og mynda ný lögsagnarumdæmi. Með hliðsjón af því mun ég, a.m.k. svo fremi að ekki berist gleggri upplýsingar um þetta mál en hér hafa komið fram, ekki treysta mér til að greiða frv. atkvæði.