06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

345. mál, störf Alþingis

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er mín sök, að svör við þessum fsp. voru ekki flutt í beinu framhaldi af grg. hv. fyrirspyrjanda, en spurningarnar höfðu af einhverjum ástæðum farið fram hjá mér. Það er spurt:

„1. Telur forsrh. það í samræmi við stjórnskipun Íslands, að Alþingi sé frá störfum 6 mánuði á ári?

2. Telur forsrh., að Alþ. geti sinnt því eftirlitshlutverki, sem því er ætlað, með svo stuttu þinghaldi?“

Þarna er fyrst og fremst spurt um skoðanir mínar, og mér er að sjálfsögðu ljúft að láta uppi persónulegt álit mitt á þessum atriðum, en það er í sjálfu sér ekki meira virði en álit hvers annars þm.

Viðvíkjandi fyrri spurningunni er þetta að segja:

Í stjórnarskrá Íslands eru engin ákvæði um það, hversu lengi Alþ. skuli sitja ár hvert. Síðustu 2–3 áratugina, hygg ég, að starfstími Alþ. hafi verið frá 6 og upp í 8 mánuði ár hvert. Ég tel persónulega 7–8 mánuði hæfilegan tíma við venjulegar aðstæður. Ég get ekki séð, að það sé andstætt núgildandi stjórnarskrá, að Alþ. sitji aðeins 6 mánuði, ef það getur lokið störfum sínum á þeim tíma. Hins vegar, eins og ég sagði, geta menn að sjálfsögðu haft mismunandi persónulegar skoðanir á því, hver sé heppilegur starfstími Alþingis ár hvert.

Síðari spurningin hljóðar svona: „Telur forsrh., að Alþ. geti sinnt því eftirlitshlutverki, sem því er ætlað, með svo stuttu þinghaldi?“

Svar mitt við þessari spurningu er það, að ég persónulega tel, að Alþ. geti rækt það hlutverk á þeim tíma, sem ég taldi hæfilegan þingtíma, 7–8 mánuði, en tek um leið fram, að aðalhlutverk Alþ. er auðvitað löggjafarstarf. Annað aðalstarf þess er fjárveitingavaldið. Hið svonefnda eftirlitshlutverk, ef menn vilja kalla það svo, kemur fyrst í þriðja sæti að mínum dómi. Það birtist í ýmsum myndum, bæði beint og óbeint, en þó aðallega í ábyrgð ráðh. gagnvart Alþ. og í fyrirspurnarétti þm. og kjöri ýmissa stjórnsýslunefnda. Það, hvort Alþ. getur rækt þetta hlutverk er ekki að mínu viti undir því komið, nema þá að litlu leyti, hversu lengi Alþ. situr að störfum ár hvert.

Um báðar þessar fsp. gildir það annars, að það yrði allt of langt mál að fara út í þær fræðilegu hugleiðingar, sem þær gætu gefið tilefni til, og á ekki við í fsp. tíma á Alþ. En í reyndinni er það auðvitað sá meiri hl., sem stjórn styðst við á hverjum tíma, sem ræður því, hve Alþ. situr lengi ár hvert.