29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3267 í B-deild Alþingistíðinda. (2964)

8. mál, skólakerfi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því á þessum síðdegisfundi í hv. Nd., þar sem tvö mikilvæg mál, mjög stór mál, eru til umr., frv. um skólakerfi og frv. um grunnskóla, að þá skuli vera innan við þriðjungur hv. dm. viðstaddur. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að a.m.k. helmingur af þeim, sem viðstaddir hafa verið, sé úr stjórnarandstöðunni, ef ekki meira. Mér finnst þetta sýna lítinn áhuga hjá hv. stjórnarliði í þá átt að koma þessum málum fram með nokkrum sóma. Af þeirra hendi hefur litið komið fram við þessa umr, annað en að rekja efni málsins og ein einasta brtt. við frv. um skólakerfi, við 7. gr., sem er nánast út í hött, því að hún breytir alls engu um efni málsins. Mér finnst þetta ekki forsvaranleg frammistaða af hv. stjórnarliði. Hæstv. forseti Nd. er nýbúinn að rísa hér upp í sínum valdastóli og tilkynna, að þm. megi vera við því búnir á næstu dögum að mæta vel á fundum, meira að segja bæði föstudags- og laugardagsfundum og kvöld- og næturfundum jafnvel. En svona er frammistaða stjórnarliðsins, þegar verið er að ræða ein mikilvægustu mál, sem varða uppeldi og fræðslu þjóðarinnar. Ég vil því aðeins vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að það er ástæðulaust að skjóta því að sjálfstæðismönnum og láta í það skína, að þeir hafi öðrum fremur breytilegan áhuga á þessum málum eða láti þau sig minna varða. Ég er þess fullviss, að sjálfstæðismenn fylgjast vel með framgangi þessara mála, þó að þeir séu ekki frv. samþykkir í einu og öllu. Ég tel næstum því óforsvaranlegt að halda áfram umr. í d., hvað þá heldur að ljúka þeim um þessi mikilvægu mál, meðan svo fáir eru viðstaddir.