29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

8. mál, skólakerfi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er í tilefni af ræðu hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, 4. landsk., þar sem hún gerir að umtalsefni störf menntmn. og vísar á bug þeim aths., sem ég gerði varðandi störf n. Ég sagði áðan, að frv., sem hér er til umr., þ.e.a.s. frv. til l. um skólakerfi, hefði verið tekið Fyrir í n. sem nánast formsatriði á einum fundi, og við þetta stend ég, og ég vænti þess, að aðrir nm. geti staðfest, að þetta er rétt. Eftir að vera búinn að sitja á rúmum 20 fundum og fjalla um grunnskólafrv. mjög rækilega, þá var þetta frv. um skólakerfi tekið fyrir, og ég held, að við séum öll sammála, sem höfum setið í n., hv. 4. landsk. og hv. 3. þm. Vestf., sammála um það — (gripið fram í.) Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson sé fullfær um það að svara fyrir sjálfan sig, án þess að vera að kalla fram í fyrir mér hér, og ég geri ráð fyrir því, að forseti muni leyfa honum að taka til máls hér aftur, ef hann óskar þess. Ég vil fá að ljúka máli mínu og gefa mínar skýringar á vinnubrögðunum.

Með tilliti til þess, hvernig n. vann, var ég að segja það áðan, að ég hefði talið eðlilegt, að grunnskólafrv. kæmi fyrst til meðferðar hér, vegna þess að þar er tekin efnisleg afstaða til ýmissa ákvæða, meginatriða. Þegar ég var búinn að lýsa skoðunum mínum í n., þegar hún fjallaði um grunnskólafrv., m.a. skoðunum um lengingu skólaskyldunnar, þá taldi ég það í sjálfu sér vera óþarfa að vera að tíunda það frekar, þegar við fórum yfir frv. um skólakerfi, vegna þess að öllum nm. væri ljóst, hver mín afstaða væri. Þar af leiðandi var ég ekki að gera grein fyrir því, að ég hygðist bera fram sérstaka brtt. við þetta frv., vegna þess að ég gerði einfaldlega ráð fyrir því, að þá væri d. búin að taka afstöðu til þess atriðis, þ.e.a.s. lengingar skólaskyldunnar, við meðferðina á grunnskólafrv. og þá hefði ég vitaskuld ekki hugsað mér að vera að taka þá till. upp aftur, eftir að d. væri búin að tjá sig um það með eða móti. Ég hins vegar tók fram og ég geri ráð fyrir, að form. n. geti staðfest það, að ég skrifaði undir nál. um skólakerfi með fyrirvara og ítrekaði það, að að sjálfsögðu skrifuðu menn undir með eðlilegum og venjulegum fyrirvara, eins og þeir gerðu varðandi grunnskólafrv. Ég var að fara fram á það allra náðarsamlegast hér áðan, að form. beitti sér fyrir því, að nál. yrði breytt og tekið yrði fram, að nm. skrifuðu undir með venjulegum fyrirvara. Ég verð að biðja formanninn um það. (Gripið fram í.) Má ég biðja hæstv. forseta um það að þagga niður í þessum hv. þm., þegar ég er að tala. Hann er þingreyndari en ég og ætti að vita það, að menn eiga að fá að tala í friði.

Þetta var afstaða mín til þessara vinnubragða, og ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna n., síður en svo. Ég var alls ekki að gagnrýna n., þegar allt kemur til alls. Ég var að gagnrýna vinnubrögðin í d. sjálfri og þá ákvörðun — væntanlega forseta d. — að taka þetta mál fyrir á undan, sjálfsagt samkv. beiðni hæstv. ráðh. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga. En ég var að gera mína aths. og geri það áfram, hvort sem þeir segja eitt eða annað í því máli, og ég hef mínar skoðanir á því. Ég held, að það sé óþarfi að vera að snúa út úr því, sem maður segir hér, og gera það að meira máli en efni standa til.

Ég vík þá að því meginmáli, sem kemur fram m.a. í bókun minni við upphaf nefndarstarfa, sem kom fram í ræðum sjálfstæðismanna hér við 1. umr. málsins í haust og þeirri alkunnu staðreynd, sem fram kom í þessum málflutningi okkar sjálfstæðismanna, að við vorum ekki að mæla beinlínis gegn þessu frv. eða þeim fjölmörgu nýmælum og úrbótum, sem í því felast, heldur vorum við einfaldlega að segja, að það væru skynsamlegri vinnubrögð að taka tillit til þeirra gagngeru endurskoðunar, sem fram fer á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, vegna þess að við teljum, að fræðslumálin heyri þar undir. Ég held, að allir geti verið sammála um það, að fræðslumálin eru eitt stærsta málið, sem snertir samskipti ríkis og sveitarfélaga, og okkur finnst vera lítið samræmi í því hjá stjórnvöldum að vera að tala um breyt. á verkaskiptingunni, vera búin að skipa n. til þess að endurskoða hana með það meginmarkmið í huga að auka sjálfsforræði sveitarfélaga, en á sama tíma að keyra í gegnum þingið frv., sem stefnir í þveröfuga átt. Það er litið samræmi í þessum vinnubrögðum. Ef það er raunverulegur vilji af hálfu núv. stjórnvalda að auka sjálfsforræði sveitarfélaga og dreifa valdinu, gefa þeim aukið tækifæri til þess að hafa forustu og frumkvæði í ýmsum málum, þ. á m. fræðslumálum, þá eiga þau vitaskuld að slá þessu máli þannig á frest, að það sé hægt að taka mið af þessum grundvallaratriðum, þegar fræðslulöggjöf er ákveðin. Við erum ekki hér með neitt smámál. Það er verið að ákveða heildarfræðslulöggjöf fyrri alla þjóðina, sem væntanlega varir um árabil, og henni er ekki breytt í einu vetfangi. Við erum hér að laga fræðslukerfið að þeim kröfum, sem nú eru uppi í þjóðfélaginu, og þeirri þróun, sem á sér stað. Ég held því, að það sé óhjákvæmilegt að taka mið af þeim sjónarmiðum, sem virðast vera ríkjandi hjá öllum stjórnmálaflokkum, að auka sjálfsforræði sveitarfélaga. Það er alls ekki gert í þessu frv. Stjórnvöld þau, sem leggja fyrir þetta frv. um skólakerfi og grunnskóla og boða í hinu orðinu aukið sjálfsforræði sveitarfélaga, eru sjálfum sér ósamkvæm, mjög svo. Aukið sjálfsforræði sveitarfélaga lýtur sannarlega að þeirri stefnu, sem við sjálfstm. höfum boðað og tekið undir, dreifingu valdsins og auknu valdi heima í héraði. Og við teljum, að sú stefna eigi að koma fram í fræðslulöggjöfinni jafnframt og ekki síst. En þetta frv. gerir ekki ráð fyrir því. Ég hygg, að t.d. brtt. við grunnskólafrv., sem lagðar eru fram frá n. sýni einmitt ljóslega, — þær fjalla flestar um það, hvernig minnka megi það vald, sem rn. er falið samkv. upphaflegu frv. — að tilhneigingin hjá n. er að draga úr þessu valdi í þessa átt, að auka frumkvæði og ábyrgð sveitarfélaganna, og því er ég hlynntur. En það mætti ganga miklu lengra.

Ég vitnaði hér áðan í ræðu hæstv. forsrh., sem hann kallaði stefnuræðu sinnar ríkisstj. og flutt var snemma í haust. Þar kemur hann inn á þetta atriði, sem ég minntist á, þ.e.a.s. nefnd, sem fjallar um endurskoðun verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga, og þar segir hann, að það megi búast við því, að frv. um þetta efni verði lagt fyrir þetta þing. Ég er hér með ræðuna, — ég gef mér ekki tíma til að leita að því nákvæmlega, hvað stendur í ræðunni, en þetta er efnislega það, sem hann segir, — og þess vegna er ekki um það að ræða að bíða um langan tíma, eins og hv. 4. landsk. er að gefa í skyn, síður en svo. Það mátti gera ráð fyrir því samkv. orðum hæstv. forsrh., að frv. um breyt. á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem gengi út á aukið sjálfsforræði sveitarfélaga, yrði lagt fyrir þetta þing samkv. hans eigin orðum. Og þá fannst okkur og mér miklu eðlilegra, að menntmn. Nd. legði fyrir hugmyndir sínar, ef hún væri sama sinnis, — hún legði sínar hugmyndir inn til þessarar n. og gæti tekið mið af því, hver vilji Alþ. væri, en ekki að við séum hér í menntmn. að starfa í eina átt og stjórnskipuð n. í aðra.

Við skulum segja, að þetta frv. yrði samþ., gengi hér í gegn og yrði að lögum, hvort sem brtt. ná fram að ganga eða ekki, og síðan, ef vilji stjórnvalda og hæstv. forsrh, nær fram að ganga, kemur frv. um endurskoðaða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem felur í sér grundvallarbreytingar á samskiptum ríkis og sveitarfélaga á fræðslusviðinu. Hvað yrði þá Alþ. að gera? Það yrði að breyta þessari löggjöf aftur innan nokkurra mánaða. Hvaða vit er í þessu? Það er hreint ekkert vit í þessu, og það er það, sem ég er að gagnrýna og við sjálfstm. að benda á, þ.e.a.s. samræmi í þessum vinnubrögðum.

Ég skal ekki lengja mál mitt meira að sinni. Þetta ætlaði ég að gera betur að umfalsefni, þegar komið væri að grunnskólafrv., og þar mun ég fjalla um ýmsar brtt., sem ég hef lagt fram, og önnur mál. sem lúta að fræðsluskyldu og hlutverki sveitarfélaga á sviði fræðslumála í einstökum atriðum. En ég taldi mér óhjákvæmilegt að bera fram brtt. varðandi lengingu skólaskyldunnar, vegna þess að um það er fjallað í skólakerfisfrv., sem hér er tekið fyrir fyrst, og gera grein fyrir þeim sjónamiðum, sem liggja að baki þeirri brtt.

Ég tek undir orð hv. 5. þm. Reykv. og 5. þm. Norðurl. v. varðandi afstöðu Sjálfstfl. og vísa á bug ummælum hæstv. menntmrh. í þá átt, að Sjálfstfl. hafi skipt um lit eða skipt um skoðun varðandi lengingu skólaskyldunnar. Auk þess má geta þess, að fyrir utan það, að við sjálfstm. þurfum ekki að gera hæstv. ráðh. grein fyrir því, hvernig við tökum ákvarðanir, þá náttúrlega má benda á, að hér er nýtt þing með nýjum þm., og enda þótt það séu skiptar skoðanir sjálfsagt meðal ýmissa sjálfstm., sem eru skólamenn, og annarra, sem ekki sitja á þingi, þá tökum við að sjálfsögðu hér í þingflokknum efnislega afstöðu og reynum að komast að einhverri niðurstöðu. Og ég efast um það, að nokkur þingflokkur hér, ekki einu sinni þingflokkur hæstv. menntmrh., hafi skoðað þessi frv. jafnrækilega og við þm. Sjálfstfl. höfum gert. Ég get ekki ímyndað mér það, að hæstv. ráðh. hafi á móti því, að þm. og heilir þingflokkar skoði frv. og kryfji þau til mergjar, jafnvel þó að þeir komist að annarri niðurstöðu en hæstv. ráðh.