29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

8. mál, skólakerfi

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Vegna ummæla, sem höfð voru eftir framkvstj. Sambands ísl. sveitarfélaga, vil aðeins segja örfá orð. Ég efast ekkert um, að þau eru rétt eftir höfð, að hann hafi sagt, að frá Sambandi ísl. sveitarfélaga hefðu aðeins komið lauslegar hugmyndir, en engar till. En hið sanna er, að eftir fulltrúaráðsfund sambandsins, sem haldinn var á Höfn í Hornafirði á s.l. hausti, voru settar fram ákveðnar till., en auk þess ýmsar hugmyndir. Ég vil aðeins, með leyfi hæstv. forseta, nefna hér nokkuð af því, sem sett hefur verið fram af hálfu sambandsins eftir þennan fund á Höfn í Hornafirði.

Það var í fyrsta lagi lagt til, að ríkið reki og kosti að öllu leyti skóla á háskólastigi, svo og sérskóla, sem þar eru taldir upp. Þá kosti ríkið a.m.k. fyrst um sinn skóla, sem eingöngu starfa sem menntaskólar, iðnskólar og húsmæðraskólar. Skólar á framhaldsskólastigi í beinum tengslum við skyldunámið, þ.e. gagnfræðaskólar og fjölbrautaskólar, verði á vegum sveitarfélaga eða samtaka þeirra, enda greiði ríkið kostnað af þeim, sem svarar til framhaldsskólastigs og sérskóla. Skólar á skyldunámsstigi verði reknir á vegum sveitarfélaganna með áþekkum hætti og nú er og ríkið greiði öll kennaralaun, enda væri kennslumagn ákveðið með líkum hætti og gert er ráð fyrir í frv. til l. um grunnskóla. Enn fremur segir: „Sjálfsagt þykir, að ríkið ákveði námsefni og hafi námseftirlit í skólum skyldunámsins sem öðrum skólum. Til að jafna aðstöðu milli sveitarfélaga er rétt, að ríkið greiði að mestu kostnað vegna aksturs nemenda og vegna heimavista.“

Þetta eru sem sagt beinar till., sem fram komu á þessum tilvitnaða fundi. En af þeim hugmundum, sem þarna komu auk þess fram, en ekki voru gerðar að beinum till. frá fundinum, vil ég nefna þetta: Hugmyndir um, að sveitarfélög tækju að sér að greiða allan rekstrarkostnað skóla nema kennaralaun og kostnað til að jafna aðstöðu, en þá þurfa að sjálfsögðu að koma til tekjustofnar til að mæta þessum kostnaði. Þá voru einnig uppi hugmyndir um, að sveitarfélögin eða landshlutasamtökin taki að sér fræðslumálin á skyldunámsstigi í miklu ríkara mæli en nú er. En það þótti ekki fært að gera um þetta beinar till., meðan landshlutasamtökin eru í mótun. — Þetta er það helsta, sem fram kom á þessum fundi. Jafnframt var hent á nauðsyn þess að einfalda þær reglur, sem nú gilda um kostnaðarsamskipti ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði.

Það má kannske deila um það, hvort fært sé eða nauðsynlegt að bíða eftir endurskoðun á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Ég held, að ég megi fullyrða, að á fundum Sambands ísl. sveitarfélaga hafi sú skoðun einmitt komið í ljós, að það ætti ekki fyrst að ákveða tekjustofnal. eða breytingar á þeim. Fyrst ætti að ákveða hina nýju verkaskiptingu og í samræmi við hana yrði síðan að sníða tekjustofnalögin. Þetta er hin eðlilega röð.

Varðandi það, að ekki sé hægt að fela landshlutasamtökum sveitarfélaga aukin verkefni á sviði skólamála, vegna þess að það sé álit sumra, eins og hv. 4. landsk, orðaði það hér áðan, „að trygging verði að fást fyrir því, að samtökin fái lýðræðislegri uppbyggingu, — ég held, að ég hafi það rétt eftir, — þá er okkur ágreiningur um það, með hvaða hætti eigi að kjósa til þeirra. Það hefur orðið ofan á sú skoðun meðal sveitarstjórnarmanna, að þetta geti ekki talist samtök sveitarfélaga, nema kosið verði til þeirra, eins og hefur verið gert í hinum frjálsu samtökum, þ.e.a.s. sveitarstjórnirnar sjálfar kjósi fulltrúa á þeirra þing, en það verði ekki beinar kosningar, eins og t.d. núna til sýslunefnda. Mér er ljóst, að um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir.

Þetta vildi ég aðeins, herra forseti, að kæmi hér fram, vegna þess að af orðum hv. 4. landsk. þm., sem hann hefur eftir framkvæmdastjóra sambandsins, mátti ætla, að engar till. hefðu verið mótaðar af hálfu fulltrúaráðsfundarins, sem haldinn var í Höfn í Hornafirði.