06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

345. mál, störf Alþingis

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós nokkra undrun á þeim drætti, sem orðið hefur á svari við þessari fsp. minni, en ég mælti fyrir henni fyrir hálfum mánuði, og mér virðist vel fara á því, að forseti biðji mig afsökunar á þessum vinnubrögðum.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessi svör. Ég hygg, að við báðir og raunar þingheimur allur geti verið sammála um það, að hlutur Alþ., eins og nú háttar í stjórnkerfi þjóðarinnar, er lítill og fer stöðugt minnkandi. Það segir sig sjálft, að þegar þingið starfar ekki 6 mánuði á ári, þá færist valdið yfir á framkvæmdavaldið og embættismennina, og það er því miður orðið þannig, að Alþ. er að verða einhvers konar afgreiðslustofnun. Ég tel, að þingheimur allur þurfi að fara að gera upp við sig, hvort ekki sé orðin þörf á að auka dálítið veg Alþ., finna til þess leiðir. Ég er ekki að segja, að forsenda þess sé að lengja starfstíma Alþingis. Það má kannske finna aðrar leiðir, t. d. að auka vald þm. En ég hygg, að það hljóti að vera kominn tími til þess, þannig að valdið sé ekki stöðugt fært til annarra aðila, sem taka því báðum höndum til þess að þurfa ekki að leita til Alþ. eða a. m. k. komast hjá því. Tilgangurinn var ein mitt með þessum fsp. að vekja athygli á þessu, hvort ekki væri unnt, — og ég vil nú beina því sérstaklega til hæstv. forsrh., því að ég treysti honum vel í þessu efni, — hvort ekki væri athugandi að finna leiðir til þess að gera hlut Alþ. meiri en nú háttar í dag.