01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3286 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

239. mál, gjaldmiðill Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að heimilað verði að fella niður myntsláttu á tíeyringum og 50 aura peningum. Það er mjög ákveðin till. Seðlabankans, að að þessu ráði verði horfið, að það sé ekki ástæða til þess, eins og nú er komið, að halda við þessum smáu einingum og þó að okkar smærsta mynteining hér eftir verði 1 kr., sé það orðið mjög sambærilegt við verðgildi minnstu einingar, sem þekkist í nærliggjandi löndum. Hér er um hagkvæmnisatriði að ræða einnig, sérstaklega að sleppa 10 aura myntinni, sem ekki virðist eiga orðið neinn rétt á sér. Þetta mundi spara mörgum allmikla vinnu, auk þess sem það veldur nú allmiklum kostnaði að halda uppi þessari myntsláttu.

Frv. þetta hefur þegar verið afgr. í Ed., og hér er um tiltölulega litið mál að ræða. Ég vænti þess, að það geti gengið greiðlega í gegnum þessa hv. d., án þess að farið sé að blanda inn í það öðrum og miklu stærri málum, sem snerta jafnvel gerbreytingu á okkar mynteiningu almennt séð.

Herra forseti. Ég legg til. að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. til fyrirgreiðslu.