01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3292 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. lýsti því, að samráð hefði verið haft við stjórnarandstöðuna um samningu þessa frv. Rétt er það, að ég og hv. þm. Pétur Pétursson fórum tvisvar eða þrisvar í viðskrn. og ræddum um þetta mál. En ég lýsti því þar, að Sjálfstfl. væri óbundinn af þeim ýmsu till., sem í þessu frv. felast, og áskildi mér rétt til þess að athuga það nánar. Hitt er rétt, að allir eru sammála um, að aðgerðir þurfi í þessu máli.

Það er nauðsynlegt að lækka olíu til húsakyndingar, til íbúðarhúsakyndingar og til lækkunar á hitunarkostnaði atvinnuhúsnæðis, ef mögulegt er. Ég vil minna á, að Sjálfstfl. skrifaði hæstv, ríkisstj. á s.l. hausti, eftir að olíuverðið hækkaði, og minnti á, að nauðsyn bæri til að gera aðgerðir í þessum málum. Í bréfi Sjálfstfl. er ekki aðeins talað um íbúðarhúsnæði, heldur einnig atvinnuhúsnæði. En hv. stjórnvöldum finnst það sennilega ekki ómaksins vert að vera að tala um atvinnuhúsnæði eða atvinnurekstur. En öllum er áreiðanlega ljóst eigi að siður, að atvinnureksturinn úfi á landi býr við versnandi kjör og meiri mismun í kostnaði en áður var, ef hann þarf að borga olíuna á þessu háa verði, þegar aðrir, sem betri aðstöðu hafa, geta notað hitaveitu. Það má þess vegna segja, að olíukostnaðurinn sé einn stór pinkill til viðbótar, sem hengdur er á atvinnureksturinn, svo illa sem allur atvinnurekstur er nú kominn í verðbólgunni undir núv. stjórnarfari.

En það er sjálfsagt að vekja athygli á því, að það fjármagn, sem er til ráðstöfunar, er vitanlega takmarkað. Hæstv. ríkisstj. var að tala um það, eftir að hún fékk bréfið frá Sjálfstfl., að það væri möguleiki á að afla fjár með ýmsu móti, t.d. að leggja 10% ofan á útsvörin, þannig að álögð útsvör væru ekki 10% af brúttótekjum, heldur 11%. Mér virðist, að sumir hæstv. ráðh. væru nokkuð ákveðnir í því, að þetta væri eðlilegasta fjáröflunarleiðin. Aðrir hæstv. ráðh. töluðu um, að eðlilegt væri að skattleggja hitaveitur, og töluðu um það með mikilli alvöru, að þar væri fjáröflunarleið, sem væri sanngjörn. Einn ráðh. hafði orð á því, að e.t.v. mætti hækka fasteignagjöld. En að athuguðu máli í n., sem var undir forustu hæstv. forseta Sþ., Eysteins Jónssonar, varð samkomulag um að fara þá leið, sem nú hefur verið lögfest, þ.e. að nota eitt söluskattsstig, — annað söluskattsstigið, sem áður gekk í Viðlagasjóð, — til þessarar fjáröflunar.

Það hefur verið talað um, að þetta söluskattsstig gæti gefið 800 millj. á ári, og í umr. í viðskn. var talað um þessa upphæð. En síðan eru nú líklega bráðum 3 vikur, og nú skeður margt á þremur vikum eða jafnvel skemmri tíma í verðlagsmálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er eðlilegt, að minna á, að í des. s.l. var talið, að söluskattsstigið gæfi 609 millj. Þegar komið er fram undir febrúarlok, var talið af sérfræðingum ríkisstj., að söluskattsstigið gæfi 800 millj. Nú eru komin marslok og aprílmánuður byrjaður. Ég hringdi í einn sérfræðinginn í morgun. Við töluðum um þetta og rökræddum, hvað líklegt væri, að söluskattsstigið gæfi til jafnaðar á þessu ári. Það' er alveg öruggt, sagði sérfræðingurinn, að þetta verður einn milljarður á ári, nema sérstakar og róttækar aðgerðir stjórnvalda komi til. Það er þá ekki fjarri lagi að reikna með 900 millj. og hugsa sér það, að olíusjóðurinn hafi 900 millj. til ráðstöfunar, en það er sú upphæð, sem ég hef reiknað með. Ég vil leyfa mér að draga nokkrar ályktanir út frá því, ef 900 millj. kæmu í olíusjóðinn á þeim tíma, sem nýsamþykkt lög gilda um.

Það er nauðsynlegt í þessum hugleiðingum að gera sér grein fyrir því, hversu mikil olíunotkunin er. Það er talið, að til hitunar íbúðarhúsnæðis og annars húsnæðis fari 45.89% af olíunni, 27.52% til fiskiskipa, 3.91% til íslenskra flutningaskipa, 1.54% til erlendra skipa og frá söludælum 9.08%. Annað: raforka, landbúnaður, verklegar framkvæmdir o.fl., 12.06%. Olíumagnið var á s.l. ári 390 millj. 758 þús. lítrar. Er reiknað með, að það geti aukist á þessu ári um 15% og verði 450 millj. litrar. Ef gengið er út frá því, að það verði um 450 millj. lítrar á þessu ári og til húsahitunar þurfi 45.89% eru það 206.5 millj. lítrar, sem færu í húsahitunina.

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu og hugleiða, hvað unnt er að gera með því fé, sem við komum til með að hafa í olíusjóðnum. Ég hef ekki reiknað með því, að það kæmu fram till. um aukna fjáröflun, heldur eru hugleiðingar mínar aðeins um það, sem þetta eina söluskattsstig er líklegt að gefa. Það eru 206.5 millj. litrar til allrar húsakyndingar, en til íbúðarhúsnæðis eingöngu 154.9 millj. lítrar. Gert er ráð fyrir, að meðalverð á olíunni á árinu verði 12.33 kr. á lítra. Vitanlega er þetta ágiskun ein, þetta getur enginn fullyrt, en ég hygg, að þessi áætlun sé eins samviskusamlega gerð og unnt er og ekki hægt að segja, að þetta sé rangt eða einhver önnur upphæð réttari. Ef við göngum út frá því, að meðalolíuverð á þessu ári verði 12.33 aurar, þá er rétt að minna á, að í árslok 1973 var olíuverðið 7.70 kr., en 5.80 kr. lítrinn í nóvemberlok s.l. Sé miðað við 900 millj. kr. í tekjur í olíusjóðinn á ári og að 50 millj. renni til rafveitna vegna framleiðslu dísilstöðva á raforku, verða 850 millj. til niðurgreiðslu á olíu. En ráðuneytismenn töldu eðlilegt að ætla 50 millj. kr. til niðurgreiðslu á olíu, sem færi til raforkuframleiðslu, og nefndu þeir þessa upphæð eftir að hafa ráðfært sig við Rafmagnsveitur ríkisins og iðnrn. Sé miðað við alla húsahitun, 206.5 millj. lítra, er fjármagn til lækkunar á olíu kr. 4.10 pr. lítra. Olíuverð er áætlað kr. 12.33, eins og áður er sagt. Niðurgreitt olíuverð yrði því, sé miðað við alla húsahitun, 8.23 kr. pr. lítra. Ef aðeins er miðað við íbúðarhúsnæði eða 154.9 millj. lítra, er fjármagn til niðurgreiðslu 5.48 kr. pr. lítra. Olíuverð til hitunar íbúðarhúsnæðis yrði þá 6.85 kr. pr. lítra. Væri öll olía greidd niður, gæti verðið lækkað úr kr. 12.33 pr. lítra í 9.80 kr. pr. lítra. Miðað við þá útreikninga, sem hér hefur verið lýst, er reiknað með, að 850 millj. kr. verði til ráðstöfunar til lækkunar á olíuverði. Er þá miðað við, að söluskattsstigið gefi 900 millj. kr., en 50 millj. kr. renni til rafmagnsveitna vegna framleiðslu á raforku frá dísilstöðvum.

Í frv. því, sem hæstv. viðskrh. hefur lýst og hv. alþm. hafa lesið, er reiknað með, að tekjur af einu söluskattsstigi verði 800 millj. kr. eitt ár. Hvort réttara er að reikna með 800 millj. kr. eða 900 millj., geta menn að sjálfsögðu deilt um. En eins og ég áðan sagði, eru allar líkur til þess, að hærri talan sé nær því rétta heldur en sú lægri. Má minna á, að í des. s.l. þótti rétt að áætla, að söluskattsstigið gæfi 609 millj. kr., en fáum vikum síðar var talið öruggt, að það gæfi 800 millj. Með hækkun vöruverðs og þjónustu hækkar sá stofn, sem söluskattur reiknast af, og búast því margir við því, að söluskattsstigið gefi í tekjur á þessu ári 1000 millj. kr. En í frv. því, sem er til umr., er reiknað með, að 750 millj. kr. verði til ráðstöfunar í olíusjóðinn, eftir að 50 millj. kr. hafa verið dregnar frá vegna rafveitna. Sé miðað við aðeins 750 millj. kr., verður verð á niðurgreiddri olíu eins og hér greinir: Ef olía fyrir alla húsahitun verður lækkuð, fer verðið úr kr. 12.33 í 8.70 kr. pr. lítra. Ef miðað er við íbúðarhúsnæði, verður olíuverð pr. lítra 7.49 kr. Verði öll olían lækkuð, verður lítrinn 10.04 kr.

Segja má, að allt, sem hér er nefnt, sé á áætlunum byggt. Olíuverð á þessu ári veit enginn um með vissu, en líkur eru til þess, að verðið, sem hér er reiknað með, gæti verið nærri lagi.

Fjármagnið, sem fyrir hendi verður samkv. nýsamþykktum l. um tekjur af einu söluskattsstigi, rennur til lækkunar á olíu, og er byggt á áætlunum, sem menn eru ekki að öllu leyti sammála um. Alþ. hefur ákveðið, að lækkun olíuverðs skuli gerð samkv. sérstökum lögum. Í framhaldi af þeirri ákvörðun hefur ríkisstj. lagt fram frv. það, sem nú er rætt um.

Hæstv. viðskrh. lofaði, að samráð skyldi haft við stjórnarandstöðuna um framhald málsins. Það kom í minn hlut og hv. þm. Péturs Péturssonar að ræða við viðskrn. um málið. Kom strax í ljós, að viðskrh. og ráðunautar hans töldu ekki heppilegt að hafa annan hátt á um framkvæmd málsins á allan hátt en þann, sem skjalfestur er í frv. Talsmenn rn. töldu, að fé, sem til ráðstöfunar væri, nægði ekki til þess að greiða niður olíu nema til íbúðarhúsnæðis, fjármagnið, sem fyrir hendi er, væri ekki nægilegt til að hafa það víðtækara. En eins og ég áðan sagði, eru 2–3 vikur síðan rætt var um þessi mál í viðskrn., og stoðir renna því undir það, að fjármagnið verði meira til ráðstöfunar í þessu skyni heldur en áætlað var fyrr í vetur og í viðræðum í viðskrn. í s.l. mánuði.

Mér hefur skilist, að hv. þm. Pétur Pétursson væri sammála því að miða niðurgreiðsluna eingöngu við íbúðarhúsnæði og hann væri einnig sammála öðrum atriðum frv., hvað framkvæmd 1. snerti. Má því segja, að hæstv. ríkisstj. hafi öruggan meiri hl. fyrir þeim ráðstöfunum, sem í frv. felast. Þrátt fyrir það tel ég eðlilegt, að þetta mál verði skoðað að nýju, og veit ég, að hv. þm. Pétur Pétursson og fleiri hv. þm. eru fúsir til þess að athuga málið, ef ástæða er til að ætla, að fjármagn í sjóðnum verði meira en áður var talað um. Verði fjármagn í sjóðnum 900 millj. eða meira á árinu, er kominn möguleiki til þess að taka atvinnuhúsnæði með.

Um það að greiða þetta sem nokkurs konar styrk samkv. íbúafjölda sýnist mér vera nokkuð þungt í vöfum og gallað. Ég teldi, að það væri heppilegra að greiða lækkunina til olíufélaganna og fela þeim að sjá um framkvæmdina. Það mætti miða við ákveðið magn á íbúð, þannig að ekki væri verið að greiða niður ollu til upphitunar á lúxushúsnæði, óþarflega stóru húsnæði. Olíugeymir er við hvert hús, og ætti þess vegna að vera unnt að framkvæma þetta, án þess að misnotkun þyrfti að vera. En þetta væri auðveldast og þetta væri hægast. Ef allt húsnæði nyti niðurgreiðslu, væri framkvæmdin að sjálfsögðu enn þá auðveldari.

Ég hef farið nokkrum orðum um þetta mál og lýst því, að samkomulag hefur ekki enn orðið um framkvæmd málsins þrátt fyrir góðan vilja margra manna. Að samkomulag hefur ekki náðst, er einungis vegna þess, að menn hafa talið, að það fjármagn, sem sjóðurinn hefur til umráða, sé of litið til þess að fara út fyrir íbúðarbúsnæði og samkomulag hefur ekki náðst um framkvæmdina vegna þess, að hæstv. viðskrh. og ráðunautar hans telja, að það sé á allan hátt heppilegast að hafa þetta í styrkjaformi og miða við fjölskyldustærð. Það er þeirra sannfæring, og hafa þeir ekki látið af henni. Við því er ekkert að segja. En það er mín skoðun, að hitt væri auðveldara og heppilegra á allan hátt, að fela olíufélögunum þessa framkvæmd. Það væri unnt að komast hjá misnotkun með því að hafa skipulag, kvittanir og vottorð við útdeilingu olíunnar.

En þótt hæstv. viðskrh. telji sig hafa öruggan meiri hl. fyrir frv. óbreyttu, vil ég eindregið mælast til þess, bæði við hæstv. ráðh. og þá n., sem fær frv., að láta enn á ný fara fram athugun á því, hversu mikið fjármagn er líklegt að komi í olíusjóðinn. Hagfræðingurinn, sem ég talaði við í morgun, taldi engan vafa á, að það yrðu 900 millj., en nær sanni að reikna með 1000 millj. Og samkv. þeim dæmum, sem ég var með hér áðan, er hægt að taka allt búsnæði og ná réttu verði á olíunni, ef um 900 millj. er að ræða. Þegar ég segi réttu verði, þá hugsa ég til þess, að það verði ekki aukinn mismunur á kyndingarkostnaði frá því, sem hann áður var, milli olíukyndingar og hitaveitu. Hitaveitugjöld hafa verið hækkuð um 13% síðan um áramót, og ekki er talið ólíklegt, að hitaveitugjöld verði enn hækkuð á þessu ári. Það væri þess vegna ekki óeðlilegt að miða olíuverðið við það, sem það var í desember mánuði s.l. og miða lækkunina við það. Ef um 900 millj. kr. fjármagn er að ræða, þá er hægt að greiða alla olíu niður og ná því verði, sem var á olíu til húsakyndingar í desembermánuði.

Herra forseti, ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég veit, að það er góður vilji fyrir hendi hjá öllum, sem um þessi mál fást. Hæstv. ríkisstj. brá skjótt við, eftir að hún fékk bréfið frá Sjálfstfl., til þess að gera ráðstafanir í þessu máli. Það má segja, að þetta mál sé nokkuð erfitt viðfangs. Það er eðlilegt, að mönnum finnist orka tvímælis um framkvæmdina, en það er enn tími til þess að skoða málið og reyna að sameinast um það, sem er sanngjarnast og best að vel athuguðu máli.