18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er fróðlegt að rifja upp og bera saman þær þrjár stefnuræður, sem forsrh. hefur flutt fyrir hönd ríkisstj. sinnar, frá því að hún var mynduð.

Fyrsta stefnuræðan einkenndist af loforðalista og lýðskrumi, sem fólst í málefnasamningi ríkisstj. Þar heyrðist bergmál frá kosningabaráttu stjórnarflokkanna. Þá var viðkvæðið: Ef þú veitir mér atkv., þitt, skal ég gera allt fyrir þig og það mun ekki kosta þig neitt.

Önnur stefnuræðan hófst á orðunum. Stefnan er óbreytt. — Þar var einnig um nokkrar eftirhreytur loforðanna að ræða, en timburmennirnir voru farnir að gera vart við sig og undirbúið var, að senda þyrfti reikning til kjósenda. Sérfræðinganefnd átti reyndar að bjarga vandanum með þeim árangri, að örlög stjórnarinnar urðu þau, að það, sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. S. l. ári lauk með því, að gengið var fellt, sem þó var úrræði, sem aldrei skyldi gripið til, að því er málefnasamningurinn sagði.

Nú höfum við hlýtt á þriðju stefnuræðu forsætisrh., og ekki er lengur talað um, að stefnan sé óbreytt. Loforðalistinn er horfinn. Eftir viðskilnað viðreisnarstjórnar var talinn grundvöllur til mikilla kjarabóta. Það bar vitni um, að núv. stjórn settist í blómlegt bú. Nú, eftir rúmlega tveggja ára stjórnarferil, þegar útflutningsverðlag hefur hækkað meira en dæmi eru til, þá er ekki talinn grundvöllur fyrir neinum kjarabótum. Ekkert dæmi sýnir betur dóm stjórnarsinna sjálfra um ásigkomulag þjóðarbúsins annars vegar við viðskilnað viðreisnarstjórnar og hins vegar eftir tveggja ára stjórnarferil þeirra sjálfra.

Það fer ekki milli mála, að Alþ. það, sem nú hefur störf, hefur mörg og mikilvæg verkefni með höndum. Landhelgismálið er á mjög örlagaríku stigi, og skiptir miklu máli, að vel verði fram úr málum ráðið. Enn er sá samkomulagsgrundvöllur, sem fram hefur komið í viðræðum forsrh. Íslands og Bretlands, á umræðustigi innan ríkisstj., utanrmn. og þingflokkanna sem trúnaðarmál. Á fundi utanrmn. í gær skýrði forsrh. þennan samkomulagsgrundvöll og tók það sérstaklega fram, að á ríkisstjórnarfundi fyrr um daginn hefði verið ákveðið að með það skyldi farið sem trúnaðarmál og kynnt á þann veg í n. og þingflokkum. Þingflokkum skyldi gefa nægilegt svigrúm til þess að kynna sér málin vel og síðan skyldu menn aftur bera saman ráð sín í ríkisstj. og n. og leitast eftir að ná sem mestri samstöðu um afstöðu til samkomulagsgrundvallarins. En í morgun getur að líta í Þjóðviljanum, að kommúnistar hafi algerlega brotið trúnað, sem þeir höfðu heitið forsrh., og engu skeytt samráði við aðra stjórnmátaflokka um afstöðu til þess samkomulagsgrundvallar, sem forsætisráðherrarnir komu sér saman um að leggja fyrir ríkisstjórnir sínar. Það kemur fram í Þjóðviljanum, að fundur hafi verið haldinn í þingflokki alþb., áður en fundur utanrmn. hófst, og þar tekin afstaða til málsins. Sú afstaða var ekki tilkynnt á fundi utanrmn., enda sýna þessi vinnubrögð ekki eingöngu freklegt trúnaðarbrot, heldur og slíkt virðingarleysi gagnvart forsrh. í stjórn, sem Alþb. sjálft á þátt í, að forsrh. ætti að vera ofboðið og gera sínar gagnráðstafanir.

Þessi framkoma sýnir, að kommúnistar hafa engan áhuga á samráði við aðra flokka eða þjóðareiningu um landhelgismálið. Framkoma þeirra ber vitni um, að kommúnistum er ekki fyrst og fremst í huga, að Íslendingar öðlist virk yfirráð yfir stækkaðri fiskveiðilögsögu sinni, heldur ætla þeir að nota landhelgismálið sem skálkaskjól í þeim tilgangi að ná öðrum stjórnmálalegum markmiðum, eins og t. d. þeim að slíta samstarfi Íslendinga og annarra vestrænna þjóða, svo að landið verði óvarið fyrir áhrifum og ásælni frá þeim löndum, þar sem stjórnmálastefna kommúnista ríkir með óvæginni valdbeitingu. Það er von mín, að aðrir stjórnmálaflokkar og landsmenn allir sjái, hvert kommúnistar eru að fara, og geri þeim ljóst, að þeir ráða ekki ferð mála á Íslandi, þar sem lýðræði ríkir.

Sjálfstfl. hefur enn samkomulagsgrundvöllinn til athugunar og mun taka efnislega afstöðu til hans að fengnum ýmsum frekari upplýsingum frá forsrh. Sjálfstfl. leggur áherslu á samráð og sem víðtækasta samstöðu í þessu máli. Þegar við tökum afstöðu til samkomulagsgrundvallarins, kemur til álita, hvort við munum með því samkomulagi, sem unnt er að ná, öðlast meiri yfirráð yfir fiskimiðunum umhverfis landið en án slíks samkomulags, hvort meiri fiskafla er að vænta í friði eða hvort við eigum einskis annars úrkostar en áframhaldandi ófrið og hættuástand á miðunum til þess að ná markmiðum okkar. Að öðru leyti skal ég ekki efnislega ræða þennan samkomulagsgrundvöll hér í kvöld, það er ekki tímabært. Sjálfstfl. mun ekki gerast sekur um trúnaðarbrot.

Á þessu þingi verður fjallað um öryggis- og varnarmál Íslands. Framtíð sjálfstæðis þjóðarinnar getur oltið á þeirri meðferð. Við viljum tryggja sjálfsákvörðunarrétt okkar í öllum málum út á við og inn á við. Við megum ekki setja okkur í þá aðstöðu, að unnt sé að beita okkur þvingun þrýstingi, ásælni eða árás. Getum við Íslendingar búist við því, að við einir allra sjálfstæðra þjóða þurfum engar ráðstafanir að gera til að vernda öryggi okkar og sjálfstæði? Er það okkur sæmandi sem þjóð að vilja ekkert á okkur leggja til þess að tryggja sjálfsákvörðunarréttokkar? Sjálfstfl. svarar þessum spurningum neitandi. Þess vegna hefur Sjálfstfl. beitt sér fyrir því, að við erum þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu, sem hefur náð þeim árangri að tryggja frið í okkar heimshluta frá stríðslokum. Í framhaldi af þeirri þátttöku var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður. Hér þurfa að vera fyrir hendi þær varnir, sem gera þeim aðila, sem kann að ásælast aðstöðu hér á landi, skiljanlegt, að slík ásælni eða árás merkir allsherjarstríð. Tilvist varna er því til þess fallin, að aldrei þurfi á þeim að halda með öðrum hætti, alveg eins og eldvarnir og slökkvilið eru til þess að eldur brjótist ekki út.

S. l. 10 ár hafa Sovétríkin tífaldað herstyrk sinn í Norður-Atlantshafi. Íslendingar geta ekki lokað augunum fyrir þeirri staðreynd, að hafsvæðið kringum Ísland er athafnasvæði þessa mikla herafla. Fyrrv. varnarmálaráðh. Noregs hefur bent á, að með athöfnum sínum á hafinu milli Íslands og Noregs hafa Sovétríkin í raun og veru komið því til leiðar, að Noregur er kominn á bak við fyrstu víglínu Sovétríkjanna á Norður-Atlantshafi. Við Íslendingar verðum að svara spurningunni: Viljum við einnig, að Ísland verði á bak við fyrstu víglínu Sovétríkjanna? Við skulum vona, að styrjöld Ísraels og Araba leiði ekki til stigmögnunar og útbreiðslu styrjaldarinnar. En styrjöldin sýnir í raun og veru, hve fljótt er að skipast veður í lofti og hve mikil ástæða er að vera við öllu búinn.

Um leið og við hljótum auðvitað að kveða á um varnir Íslands og fyrirkomulag þeirra fyrst og fremst með tilliti til öryggis og hagsmuna okkar sjálfra, þá er því einnig svo varið, að við hljótum að taka nokkurt mið að því, hvað frændum okkar, t. d. á Norðurlöndum, kemur vel. Við getum ekki ætlast til þess að vera þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu til þess eins að njóta góðs af því, en án þess að leggja nokkuð af mörkum í þeim tilgangi, að það nái árangri. Fyrrnefndur varnarmálaráðherra Norðmanna sagði í ræðu í sept. s. l.:

„Það er almenn skoðun, að verulegur samdráttur í starfsemi varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli muni hafa víðtækar afleiðingar fyrir varnir Atlantshafssvæðisins og þá ekki síst í jaðarríkjunum. Slíkt mundi einnig hafa áhrif á öryggi Noregs“.

Ef slíkur samdráttur varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur áhrif á Noreg og jaðarríkin, þá er Ísland eitt af slíkum jaðarríkjum. Þess vegna erum við með slíkum samdrætti varnarstöðvarinnar að vinna gegn eigin hagsmunum. Við íslendingar ætlumst til stuðnings annarra ríkja í hagsmunamálum okkar eins og fiskveiðideilunni. Norðmenn hafa þar t. d. staðið sérstaklega vel við okkar hlið. Er ekki ástæða til þess, að við höfum samráð við Norðmenn og Dani í sambandi við varnarmálin og könnum, hvað sameiginlegum hagsmunum Norðurlanda er fyrir bestu? Vitað er einnig, að uggur er í brjóstum bæði Finna og Svía vegna stefnu núv. stjórnar á Íslandi í varnarmálum. Þessi ríki, þótt hlutlaus séu talin, óttast aukinn þrýsting og þunga frá nágrannanum í austri, ef hér verða engar varnir og víglína Sovétríkjanna flyst enn lengra vestur á bóginn.

Við sjálfstæðismenn höfum þá stefnu, að okkur beri að vera áfram í varnarsamtökum Atlantshafshandalagsins, hér sé nauðsynlegt að hafa varnir, eins og nú standa sakir, en við teljum sjálfsagt að endurskoða og við viljum taka þátt í að ákveða, með hvaða hætti slíkum vörnum skuli fyrir komið. Við teljum rétt að auka þátt Íslendinga í því starfi, sem tengt er þeim vörnum eins og mögulegt er, en teljum að svo komnu máli ekki tímabært, að allt varnarlið fari af landi brott.

Meginhluti stefnuræðu forsrh. fjallaði um efnahagsmálin. Forsrh. viðurkenndi, að það væri hin svarta hlið efnahagsmála, að ekki hefði tekist að halda verðbólgu í skefjum, sem stefnt var að í málefnasamningi stjórnarflokkanna. Verðbólgan átti ekki að vaxa meira en í viðskiptalöndum okkar. Samkv. upplýsingum hagrannsóknadeildarinnar hefur verðbólgan hér vaxið um 20–25% s. l. ár eða þrisvar sinnum meira en í öðrum líkindum. Stjórnarliðar sjálfir viðurkenna þessa staðreynd og gefa þá skýringu, að verðhækkunin sé af erlendum rótum runnin. Af skýrslunni kemur fram, að erlendar verðhækkanir eiga aðeins þátt í 4 stigum af þeim 20–25%, sem verðbólgan hefur vaxið, og þótt gengisbreytingar séu teknar með í reikninginn, þá er staðreyndin sú, að verðbólgan er heimatilbúin afleiðing af efnahagsmálastefnu ríkisstj. eða réttara sagt skorti á efnahagsstjórn af hennar hálfu. Ríkisstj. hefur haldið frá byrjun uppteknum hætti, bætt sífellt eldsneyti á verðbólgubálið með hækkun ríkisútgjalda, stórfelldri aukningu útlána úr sjóðum, án þess að tryggt væri fé nema með síauknum erlendum og innlendum lántökum. Afleiðingin er örari og meiri verðbólga en orðið hefur hér um áratuga skeið. En hins vegar fer ekki á milli mála, að afstaða sú til efnahagsmála, sem kemur fram hjá forsrh., felur í sér breytingu frá fyrri afstöðu. Hann segir: Árangursríkt andóf gegn verðbólgu hlýtur að byggjast á samstilltu átaki á sviði launa- og verðlagsmála, fjármála ríkisins og annarra opinberra aðila, gengis-, peninga- og lánamála. Það er ástæða til að benda á, að þetta er inntakið í þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstj. fylgdi. Þetta var einmitt sú stefna, sem núv, ríkisstj. varpaði fyrir róða með þeim afleiðingum, sem nú blasa við.

En það er ekki aðeins stefna fyrrv. ríkisstj. sem nú á að endurreisa, heldur eiga þær stofnanir, sem fyrrv. ríkisstj. kom á fót, einnig að rísa úr ösku. Vegur Seðlabankans hefur varla áður verið meiri en nú, og fyrsta frv., sem ríkisstj. flytur á þessu þingi, er frv. um Hagranasóknastofnun. Hér er komin gamla Efnahagsstofnunin. Með þessum hætti er Hagrannsóknastofnunin algerlega slitin úr tengslum við Framkvæmdastofnunina, eins og við stjórnarandstæðingar vildum. Þegar á það er litið og ekkert er vitað um afrek Framkvæmdastofnunar ríkisins í þeim verkefnum, sem henni voru í upphafi falin, eins og heildarstjórn fjárfestingarmála og frumkvæði í atvinnumálum eða áætlun til langs tíma, og iðnrh. hefur falið gerð iðnþróunaráætlunar nýrri stofnun, þá er vissulega tími til kominn að leggja þennan óskapnað, Framkvæmdastofnun ríkisins, niður.

Nú er útlit fyrir við afgreiðslu fjárl. 1974, að upphæð þeirra muni þrefaldast á þremur árum, og yfirlit skortir um fjármagnsþörf stofnfjársjóða umfram beint framlag ríkissjóðs, en fjárþörf þessa má ætla minnst 5 millj. kr. og óvíst, hvernig þeirrar upphæðar verður aflað, e. t. v. með verðtryggðum lánum, sem í raun bera nú 20–30% vexti, og endurlánað er með 6–7% vöxtum, eins og dæmi eru til nú. Það er ekki nema von, að sjóðirnir tæmist með slíkri ráðsmennsku.

Sjálfstfl. leggur áherslu á samræmda stjórn efnahagsmála, þar sem allir þættir þeirra eru teknir til meðferðar og yfirsýn yfir þá höfð.

Við viljum leggja sérstaka áherslu á í fyrsta lagi, að sveiflur íslensks efnahagslífs, sem eiga ekki síst rót sína að rekja til verðsveiflna og aflasveiflna í sjávarútvegi, verði eins og unnt er, jafnaðar með eflingu verðjöfnunarsjóðs sjávarafurða, sem stofnaður var í tíð viðreisnarstjórnarinnar, en núv. stjórn hefur rýrt þrátt fyrir síhækkandi afurðaverð sjávarafurða.

Í öðru lagi teljum við, að draga megi úr þessum sveiflum með því að renna fleiri stoðum undir atvinnuvegi okkar, efla útflutning iðnaðarvara og leggja áherslu á stóriðju og annan iðnað, sem fólginn er í því, að vatnsafl og varmaorka ásamt hugviti og vinnuhæfni Íslendinga sé nýtt til framleiðslu verðmætrar vöru.

Í þriðja lagi ber auðvitað að beita gengisbreytingu til að jafna sveiflur í efnahagslífinu. En varast ber að hækka gengið, þótt verðlag sjávarafurða fari hækkandi, ef það er hinum unga útflutningsiðnaði til tjóns. Verður fremur að leggja áherslu á að efla verðjöfnunarsjóð sjávarafurða.

Í fjórða lagi verður að hafa stjórn á peningamálum og auka ekki peningamagnið í umferð með erlendum lántökum, sem kalla á aukið vinnuafl, vörur og þjónustu, sem ekki er fyrir hendi í þjóðfélaginu.

Í fimmta lagi verður að skera niður útgjöld ríkis og fjárstreymið, sem fer um hendur hins opinbera við gerð fjárlaga. Fjárlög verði þannig úr garði gerð, að hið opinbera takmarki umsvif sín og taki sem minnst af aflafé borgaranna. Ákveða skal, hve hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu eða þjóðartekjum hið opinbera hafi úr að spila, og fram úr því marki verði ekki farið.

Í sjötta lagi ber að stefna að því, að aðilar vinnumarkaðarins geti með frjálsum samningum breytt tilhögun kjarasamninga og komið sér saman um skipan mála. Í því sambandi er mikilvægt með frjálsum samningum að endurskoða vísitölufyrirkomulagið og tryggja hinum lægstlaunuðu sérstaklega kjarabætur. Vísitölukerfið er í höndum núv. stjórnar hreinn skrípaleikur og besta dæmið um það, hvernig ríkisstj. reynir að blekkja launþega með ýmsum hætti. Á þessu ári hefur fjórum sinnum verið breytt upphæðum niðurgreiðslna og fjölskyldubóta, ýmist til hækkunar eða lækkunar, eftir því, hvort um var að ræða, að vísitalan var óútreiknuð eða gengin í gildi. Slík svikamilla hentar hagsmunum launþega tæpast.

Þróun s. l. tveggja ára hefur leitt til þess, að miðstjórnarvaldið í landinu hefur eflst og þjappast saman í höndum ríkisstj. Þetta vald er dregið frá einstaklingum og staðaryfirvöldum, sveitarfélögum. Það er nauðsynlegt að snúa þessari þróun við. Það verður að færa valdið aftur heim til fólksins, þar sem það býr, til einstaklinganna, svo að þeir geti verið sinnar eigin gæfu smiðir, til sveitarstjórnanna, sem nákunnastir eru högum og horfum fólksins á staðnum. Það er þessi dreifing valdsins, þessi þróun til aukins lýðræðis, sem við sjálfstæðismenn biðjum um stuðning til að framkvæma. Tvennt er nauðsynlegt í þeim tilgangi, að endurskoða annars vegar löggjöf um verkaskiptingu og tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og endurskoða lög um tekjuskatt. Sjálfstæðismenn munu beita sér fyrir þessu hvoru tveggja á þessu þingi.

Þegar svo er komið, að 75% skattgreiðenda eru komnir í hæsta skattstiga og greiða meira en helming tekna sinna til hins opinbera, þá draga skattarnir úr vilja manna til að vinna og skapa verðmæti þjóðinni allri og sjálfum sér til handa.

Góðir tilheyrendur. Þegar Sjálfstfl. var stofnaður, voru meginstoðir stefnu hans tvær: sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði einstaklingsins. Þróun mála í tíð núv. vinstri stjórnar hefur dregið blikur á loft, bæði hvað snertir sjálfstæði þjóðarinnar og sjálfstæði einstaklingsins. Við heitum á landsmenn að styðja Sjálfstfl. í þeirri viðleitni hans að tryggja öryggi landsins út á við og sjálfstæði einstaklingsins inn á við. –Góða nótt.