01.04.1974
Neðri deild: 96. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3312 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það virðist rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan í ræðustól, að það virðist vera kominn nýr meiri hl. í fjh: og viðskn. fyrir því máli, sem hér er til umr. Það var ekki annað vitað, þegar málið var endanlega afgreitt í n., heldur en n. væri þríklofin í afstöðu til málsins. Síðan hefur það gerst, að hinir tveir minni hl. hafa náð saman, og kannske út af fyrir sig ekki nema gott eitt um það að segja, þannig að eins og málin standa í dag, þá virðist vera kominn meiri hl. fyrir því að afgreiða það frv., sem hér er til meðferðar, svo til óbreytt. Í reynd eru þær brtt., sem fluttar eru við frv. ekki nema staðfesting á því, sem hefur veríð í framkvæmd og innt hefur verið af hendi hjá þessari stofnun.

Ein af meginröksemdum fyrir lagasetningunni um Framkvæmdastofnun ríkisins var sú sameining stofnana, sem þar átti að eiga sér stað, þ.e. sameining Efnahagsstofnunarinnar Framkvæmdasjóðs og Atvinnujöfnunarsjóðs. Í kjölfar slíkrar sameiningar hlutu að koma stórbætt vinnubrögð og hagræðing á ýmsum sviðum. Og sem dæmi um þá hagræðingu, sem sameining framangreindra stofnana hafði í för með sér, má nefna, að stjórnarmönnum fækkaði úr 19 í 7. En auk þess varð sú breyting á, að Alþingi fékk nú yfirstjórn stofnunarinnar, sem áður hafði verið í höndum embættismanna, og verður það eitt að teljast jákvæð breyting út af fyrir sig — breyting, sem hlýtur að skoðast í ljósi þess, og hafa ber í huga þau lýðræðislegu vinnubrögð og þá lýðræðislegu stjórnarfarssýslu, sem til kom með því. Efnahagsstofnunin hafði fyrir breytinguna aðallega sinnt margvíslegum hagrannsóknum fyrir ríkisstj., bæði almennum og sérstökum. Í samræmi við það fór meginhluti af starfsliði Efnahagsstofnunar til hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, og af ýmsum ástæðum urðu verkaskil milli hagrannsóknadeildar og áætlanadeildar óglögg og fylgdu fremur mönnum en eðlilegri verkaskiptingu milli deilda. Þurftu slík álitamál ekki að koma að sök, þar sem um var að ræða deildir innan einnar stofnunar og samstarf milli þeirra auðvelt og handhægt.

Í 1. gr. l. nr. 93 1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins, segir svo:

„Framkvæmdastofnun ríkisins er ríkisstj, til aðstoðar við stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum. Hún annast hagrannsóknir og áætlanagerð og hefur með höndum heildarstjórn fjárfestingarmála og lánveitingar samkv. l. þessum.“

Þegar í þessari gr. laganna er stofnuninni ákveðið aðalverksvið og tekið fram, hvernig að því skuli unnið: með hagrannsóknum, áætlanagerð og heildarstjórn fjárfestingarmála. Rökstuðning fyrir því, að þessi lagasetning var talin svo mikilvæg, að hún var tekin inn í málefnasamning núv. ríkisstj., er að finna í framsöguræðu forsrh., þegar hann mælti fyrir frv. hér á hv. Alþ. Í stuttu máli eru þessar röksemdir, sem hæstv, forsrh. flutti, þannig:

1. Að koma upp stofnun, sem hefði yfir að ráða sérfræðilega menntuðu og þjálfuðu starfsliði úr ýmsum greinum, sem gæti með tímanum vegna þekkingar á séríslenskum aðstæðum orðið traustari bakhjarl til ráðgjafar um vandamál þjóðarinnar en erlendir sérfræðingar, ókunnir landi og lýð, fengnir í skyndi og oftast í stuttan tíma.

2. Að þessi stofnun gæti almennt verið ríkisstj, á komandi tímum fræðilegur ráðgjafi og annast fyrir þær sérfræðilegar athuganir og undirbúning mikilvægra ákvarðana.

3. Að hún gæti annast gagnasöfnun og úrvinnslu við þá margvíslegu áætlanagerð, sem nútímaþjóðfélag þarfnast og krefst í auknum mæli.

4. Að stofnunin skyldi vinna að eflingu atvinnuveganna og sérstakri byggðaþróun með skipulögðum áætlanavinnubrögðum og í nánu samstarfi við aðila atvinnulífs og landshlutasamtaka.

5. Að innan stofnunarinnar væru tengdar saman með allnánum hætti beinar hagrannsóknir, áætlanagerð og fjármögnun þeirra framkvæmda, sem ráðgerðar eru eða ákveðnar væru á hverjum tíma af ríkisvaldi eða öðrum ákvörðunaraðilum.

6. Að stjórnarandstöðu væri tryggð full aðstaða til að fylgjast með öllum upplýsingum og hafa eðlileg áhrif á framvindu og þróun mála, enda var á því fullur skilningur hjá núv, stjórnarflokkum, að í þjóðfélagi, þar sem meiri háttar stefnubreytingar gerast að jafnaði með stjórnarskiptum, gæti verið beinlínis hættulegt fyrir þjóðina, ef stjórnarandstöðuflokki í flóknu nútímaþjóðfélagi væri meinaður aðgangur að heimildum, sem lagðar eru til grundvallar við töku ákvarðana.

Enn fremur segir þar svo: „Framkvæmdastofnun ríkisins er hugsuð sem vísinda og rannsóknastofnun til þjónustu við stjórnvöld og til aðstoðar og leiðbeiningar fyrir framkvæmdaaðila með margvíslegri áætlanagerð og þekkingarmiðlun, en er einnig ætlað að efla samráð lánastofnana, svo að straumar takmarkaðs fjármagns þjóðarinnar séu virkjaðir með hreyfiafli þjóðarbúsins, en verði ekki látnir renna í ýmsar áttir af handahófi.“

Þetta voru í stuttu máli þær röksemdir, sem hæstv. forsrh. hafði hér fram að færa, þegar hann mælti fyrir frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins hér á Alþ. fyrir röskum tveimur árum.

Sá stutti tími, sem liðinn er, frá því að Framkvæmdastofnunin komst saman á einn stað, hefur að dómi flestra sannað réttmæti þess að setja lög um Framkvæmdastofnun ríkisins á þann veg, sem gert var. Hins vegar er ekki vitað, að neitt það hafi að höndum borið, sem bendir til. að æskilegt væri að kljúfa stofnunina nú í tvær stofnanir, hvað þá að það bæri brýna nauðsyn til að gera slíkt nú.

Á hinn bóginn er auðvelt að benda á mörg atriði, sem mæla eindregið gegn því að kljúfa Framkvæmdastofnunina í tvær sjálfstæðar stofnanir eftir aðeins tveggja ára starfstíma. Þau helstu eru þessi:

Það fer varla hjá því, að ýmsar alþjóðastofnanir, sem við þurfum og verðum að eiga margvísleg samskipti við, vantreysti stjórnmálamönnum í því efni að geta hagnýtt sér þá sérfræðilegu þekkingu, sem þjóðfélagið hefur þó varið ærnum fjármunum til að afla, ef hver ríkisstjórnarskipti þurfa að hafa það í för með sér, að stofnanir, sem reynt hafa að byggja upp sérfræðiþekkingu, eru lagðar niður eða umbylt eftir pólitískum duttlungum. Þó tekur steininn úr í þessu efni, þegar ekki er talið fært að lofa stofnun, sem sett var á laggirnar í upphafi kjörtímabils, að lifa út allt kjörtímabilið og það þó að engin stjórnarskipti hafi átt sér stað í landinu. Þegar þannig er um hnúta búið, er ljóst, að erfitt hlýtur að vera fyrir hið opinbera að tryggja sér hina hæfustu starfskrafta, þar sem þeir munu tregir til að sleppa góðum atvinnutækifærum annars staðar, ef ekki er annað í boði hjá ríkinu en öryggisleysi um starf og líf þeirra stofnana, sem þeir eiga að starfa hjá.

Ef nú yrði t.d. brugðið á það ráð að líftryggja hagrannsóknadeild með sérstakri löggjöf sem sérstaka stofnun, ráðuneyti eða hluta úr rn., yrði varla litið á það öðruvísi af sérfræðingum en með því væri verið að undirbúa jarðveginn fyrir næstu ríkisstj. til þess að leggja það niður, sem eftir yrði undir nafninu Framkvæmdastofnun ríkisins.

Ekki þarf að fara í grafgötur um það, að almenningur vantreystir með réttu eða röngu sérfræðistofnunum og sérfræðingum, sem eru í of litlum tengslum við lýðræðislega kjörna fulltrúa almennings, þm., stjórnarsinna jafnt sem stjórnarandstæðinga. Nægir að benda á orðspor Efnahagsstofnunar og Seðlabanka á tímum fyrri ríkisstj. Með eðlilegum tengslum allra stjórnmálaflokka við slíkar stofnanir dvínar eða eyðist þetta vantraust, eins og þegar hefur orðið vart um Framkvæmdastofnunina, þó að starfstími hennar sé enn of stuttur til, að um verði dæmt til fullnustu. Hitt ber að hafa í huga, að það er trúlega fátt einni þjóð jafnháskalegt og það, ef hún getur ekki notfært sér þann framleiðsluþáttinn, sem henni er verðmætastur, þekkinguna. vegna óæskilegrar skipulagningar þeirra stofnana, sem miðla eiga þekkingu og sérþekkingu út í hinar ýmsu greinar þjóðarbúskaparins.

Ekki er sýnilegt, að Hagrannsóknastofnunin, stofnun sú, sem lagt er til, að komið verði á fót, eigi að hafa yfir sér neina stjórn né að stjórnarandstöðu verði gefin kostur á að fylgjast með vinnu þar eða vinnuaðferðum. Er því ekki ótrúlegt, að sú tortryggni, sem að framan er drepið á, yrði með réttu eða röngu erfðavísir þeirrar stofnunar.

En hvað verður nú, að því er varðar stjórnunarþátt Framkvæmdastofnunar ríkisins, ef frv. það, sem hér um ræðir, verður samþykkt? Eins og nú er starfa þrjár deildir innan stofnunarinnar, þ.e. hagrannsóknadeild, áætlanadeild og lánadeild. Starfsfólk í þessum þremur deildum mun vera um 38 talsins, 16 í hagrannsóknadeild og 22 í hinum tveim deildunum. Sjö manna þingkjörin stjórn er yfir þessum 38 manna starfshóp og auk þess 3 framkvæmdaráðsmenn, þ.e. 10 manna stjórn yfir þessu 38 manna starfsliði. Ef frv. þetta verður samþykkt, verður eftir sem áður 10 manna yfirstjórn yfir Framkvæmdastofnuninni, en þá er ekki eftir innan hennar vébanda nema 22 manna starfslið, þ.e. tæplega einn stjórnarmaður á hverja tvo starfsmenn, en engin stjórn yfir Hagrannsóknastofnun, sem er þó með 16 manna starfslið. Ég spyr því: Er nokkurt samræmi í slíkum aðgerðum sem þessum? Ég held, að það sé ekki. Það hefði a.m.k. mátt til þess ætlast af hæstv. ríkisstj., sem þetta frv. leggur fram, að hún jafnhliða þessari breytingu, sem ég er andvígur, legði til skynsamlegar breytingar á stjórn þess, sem eftir er af stofnuninni. Ég tel a.m.k., að sé ekki þörf á sérstakri stjórn yfir Hagrannsóknastofnun með 16 manna starfsliði, þá sé um of íborið að hafa 10 manna yfirstjórn yfir þeim 22 starfsmönnum, sem eftir verða hjá Framkvæmdastofnun ríkisins. Slíkt sem þetta er auðvitað ekki samræmanlegt og í engu samhengi við það, sem í raun og veru ætti að vera.

Við, sem stöndum að áliti 2. minni hl. fjh.og viðskn. á þskj. 454, teljum, að enn séu í fullu gildi þau rök, sem hæstv. forsrh. viðhafði fyrir röskum tveim árum, þegar lög um Framkvæmdastofnun ríkisins voru sett, og ekkert hafi komið í ljós, sem kollvarpi þeirri röksemdafærslu, þvert á móti hafi reynslan staðfest, að þau rök áttu fullan rétt á sér, og ekkert réttlæti það nú að kljúfa stofnunina. Með hliðsjón af framansögðu leggjum við til, að frv. verði vísað til ríkisstj.