02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3321 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Fyrir rúmri viku, mánudaginn 25. mars, urðu umr. um varnarmál utan dagskrár í Nd. Tilefnið var samþykkt ríkisstj. 3 dögum áður um samningsgrundvöll undir viðræður við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um varnarmál. Í þessum umr. beindi ég áskorun til hæstv. forsrh. um, að ríkisstj. hlutaðist til um, að í Sþ. yrðu varnarmálin tekin til umr. sem sérstakur dagskrárliður, til þess að þingheimur gæti rætt þessi þýðingarmiklu mál. Sérstaklega taldi ég nauðsynlegt, að slíkt gerðist, áður en hæstv. utanrrh. færi utan til þessara viðræðna.

Nú hefur hæstv. ráðh. tjáð mér synjun á þessari málaleitun. Ríkisstj. vill ekki hlutast til um, að umr. fari fram á Alþingi, áður en viðræðurnar hefjast. Ég tel þetta mjög miður farið og í rauninni mjög alvarlegt mál. Með hinni umræddu samþykkt ríkisstj. lýsir hún stefnu sinni í varnarmálum, og þótt væntanlega verði ekki gengið frá samningum á þessum næstu viðræðufundum, þá er þessi stjórnaryfirlýsing sá grundvöllur, sem stjórnin vill byggja viðræðurnar á.

Þar sem ríkisstj. hefur hafnað áskorun um almennar umr. á þingi og þar sem utanrrh. fer með þetta veganesti, vil ég taka fram:

1) Sjálfstfl. er algerlega andvígur hinum svokallaða samningsgrundvelli ríkisstj. og telur hann óviðunandi og ófullnægjandi lausn á öryggis- og varnarmálum Íslendinga.

2) Allt bendir til þess, m.a. undirskriftasöfnun Varins lands, að meiri hl. íslensku þjóðarinnar sé andvígur stefnu ríkisstj.

3) Allar líkur eru til þess, að þingfylgi sé ekki fyrir stefnu stjórnarinnar í þessu máli. Þm. Sjálfstfl. og Alþfl. hafa lýst sig andvíga þessum umræðugrundvelli. Við umr. í fyrri viku lýsti einn af þm. Framsfl. sig andvígan. Það er vitað um fleiri. Hæstv. forsrh. sagði í umr., að hann vissi ekki, hvort meiri hl. væri á þingi fyrir því; a.m.k. hefur hæstv. ríkisstj. ekki talið ástæðu til þess eða ekki treyst sér til þess að leita samþykkis Alþingis fyrir þessari stefnu sinni.

Það er því mikill ábyrgðarhluti að fara til viðræðna um varnarmál þjóðarinnar með slíkt veganesti. Hæstv. utanrrh. gerir það á sína ábyrgð og þeirrar stjórnar, sem er sundurþykk og lítt starfhæf í hinum mikilvægustu málum, en reynir að nota öryggismál þjóðarinnar til að líma saman brotin, svo að hún geti hjarað enn um hríð. En hæstv. utanrrh. talar þar ekki í nafni íslensku þjóðarinnar og ekki í nafni Alþingis Íslendinga.