06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

349. mál, áætlun um hafrannsóknir o.fl.

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Ég heyri, að þetta er byrjað að mjakast, og tel það mikinn ávinning. Ég vil aðeins í sambandi við það minna á þau orð þáltill., að „þessi áætlun sé gerð af Hafrannsóknastofnuninni í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna.“ Vil ég nú biðja hæstv. ráðh. að ganga í það, að haft verði samráð við samtök sjómanna og útvegsmanna um þessi mál, áður en sérfræðingar stofnunarinnar festa sig á einhverjum uppástungum. Hér er sem sé m. a. um það að ræða, hvaða þjónustu skuli ráðgera við fiskiflotann, og þá er vitaskuld ákaflega þýðingarmikið, að sjómenn og útvegsmenn fái að koma fram með sín sjónarmið í tæka tíð. Heldur vildi ég fá þessa áætlun einum eða tveimur mánuðum síðar og fá hana vandlega skoðaða með samtökum sjómanna og útvegsmanna en hún yrði þannig, að einvörðungu fjölluðu um hana sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar, þó að þeir séu ágætir og ég treysti þeim fyllilega í sínu fagi. Það er gert sterklega ráð fyrir því í ályktuninni, að höfð séu náin samráð við þessi samtök. Mér finnst persónulega, að það hefði þurft að gefa þessum samtökum, eins og LÍÚ, eins og Farmanna- og fiskimannasambandinu og Sjómannasambandinu og e. t. v. fleiri slíkum félögum, beinlínis kost á því að tilnefna sérstaka fulltrúa, sem skoðuðu þau drög, sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar eru að vinna að, áður en á álitið kemur nokkurt verulegt sköpulag. Það er að mínu viti afar þýðingarmikið, að það séu strax hæfilega snemma í málinu höfð samráð við þessi samtök.