02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3325 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. taldi fram tvær ástæður fyrir synjun á því að hlutast til um, að fram færu umr. um varnarmálin í Sþ. Hvorug þessara ástæðna er í rauninni frambærileg. Önnur er sú, að við getum snúið okkur til hæstv. forseta Sþ. og beðið hann um að taka málið á dagskrá, eftir að ríkisstj. hefur synjað um það. Hvaða hv. þm. dettur í hug, að hæstv. forseti Sþ. mundi verða við ósk minni hl., þegar ríkisstj. er á móti því? Önnur ástæðan er sú, að þar sem utanrrh. sé farinn úr landi, sé ekki hægt að ræða málið að honum fjarstöddum. Hæstv. utanrrh. fór úr landi í morgun, sem sagt rúmri viku eftir að þessi áskorun var borin fram, og það var í lófa lagið að hafa þessar umr. í s.l. viku. Hvorug þessara ástæðna stenst því. Það eru allt aðrar ástæður fyrir því, að hæstv. ríkisstj. óskar ekki að fá umr. um þetta mál. Hún vill ekki, að í opinberum umr. á Alþ. geti komið í ljós vilji þm., sem ég held að sé óhætt að fullyrða að sé á þá leið, að þingfylgi er ekki fyrir till. stjórnarinnar í þessu máli. Það kemur líka í ljós í því, að ríkisstj. hefur ekki þrátt fyrir áskoranir og ábendingar í þá átt treyst sér til að leita samþykkis Alþingis á þessari stefnu sinni.

Hæstv. forsrh. segir nú: Þetta stendur í stefnuskrá okkar, í málefnasamningnum. — Nú hefur honum að vísu láðst á sínum tíma að fá þennan málefnasamning lögfestan hér á Alþingi í einu og öllu, og það var mjög hyggilega gert að gera það ekki, vegna þess að þá hefði þurft svo ákaflega oft að flytja ný frv. um breytingar á málefnasamningnum, þegar hefur þurft að víkja frá öllum mögulegum loforðum, eins og reynslan sýnir.

Varðandi þetta atriði sérstaklega, varnarmálin, hefur það mál aldrei verið borið undir atkv. á Alþingi, síðan ríkisstj. tók við, og ég efast um, að allir stuðningsmenn ríkisstj. hafi lýst sig samþykka þessu atriði. Þvert á móti, nokkrir stuðningsmenn ríkisstj., hafa opinberlega lýst því yfir, að þeir séu ekki samþykkir þessu atriði í málefnasamningi ríkisstj. Þetta liggur fyrir opinberlega frá nokkrum þm.

Það, sem er aðalatriði þessa máls, er, að ríkisstj. skuli leyfa sér að hefja viðræður um þetta mikilvæga mál. fjöregg þjóðarinnar, varnar- og öryggismál hennar, án þess að vita, hvort hún hafi stuðning meiri hl. Alþingis í þessu máli. Og það, sem meira er, ef eitthvað má ráða af líkum og ummælum manna, þá bendir flest til þess, að bæði meiri hl. íslensku þjóðarinnar og meiri hl. Alþingis sé andvígur stefnu stjórnarinnar í þessu máli. Þrátt fyrir þessar fullyrðingar og þrátt fyrir þann vafa, sem er innra með hæstv. forsrh. sjálfum um stöðu sína í þessu máli, vill hann ekki leita atkv. á Alþingi og ekki einu sinni verða við áskorun okkar um, að almennar umr. fari fram á Alþingi.

Hann segir, að ég hafi ekki þurft að taka það fram, að Sjálfstfl. væri á móti þessum samningsdrögum stjórnarinnar. Ég nefndi það sérstaklega, að þm. Sjálfstfl. og Alþfl., sem eru samtals 28 að tölu, hafa lýst sig andvíga, auk þess einn þm. í þessum umr. úr stjórnarliðinu, það eru 29, svo eru nokkrir, sem hæstv. forsrh. veit ekki um.

Það, sem mér finnst alvarlegast í þessu máli, er, að í slíku stórmáli eins og þessu, skuli ríkisstj. ætla sér að hefja mikilvægar viðræður án þess að hafa hugmynd um það, hvort meiri hl. Alþingis styður stefnu hennar eða ekki. Ég býst við, að hæstv. forsrh. viti það eins vel og ég og við flestir í þessum sal, að stefna hans og stjórnarinnar í þessu máli hefur ekki stuðning meiri hl. Alþingis.