02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3327 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

419. mál, flugvöllur í Grímsey

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Spurt er um það, hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar í sumar til þess að bæta úr því slæma ástandi, sem er á flugvellinum í Grímsey. Um þetta er það að segja, að flugbrautin í Grímsey er gerð árið 1953 og er 1200 m að lengd og 50 m á breidd. Þar sem ekki er að finna hentugt flugbrautarefni í Grímsey, er hér um að ræða grasbraut, sem að miklu leyti verður ófær í leysingum á vorin og þegar miklar bleytur verða á öðrum tímum árs einnig.

Um tíma var stundað áætlunarflug með DC-3 flugvélum milli Akureyrar og Grímseyjar, og var flugbrautarlengd og breidd miðuð við þarfir þeirra. Þær flugvélar, sem nú nota flugvöllinn, komast af með mun minni brautir, og gera áætlanir um styttingu flugbrautarinnar því ráð fyrir 740 m lengd og 18 m breidd. Tvær lausnir koma einkum til álita: Í fyrsta lagi flutningur efnis úr landi, t.d. frá Húsavík eða Dalvík. Miðað við lágmarksefnisfarm, sem yrði nálægt 6000 teningsmetrar, yrði kostnaður við þá framkvæmd um 9.5 millj. kr. Eins og hv. þm. er kunnugt, er ekki til fjárveiting fyrir svo hárri upphæð á þessu ári á fjárlögum. Hin lausnin er sú, að nota svonefnt flugbrautarjárn til styrkingar á brautinni. Töluvert magn af slíku járni er til á Akureyrarflugvelli og er ekki lengur notað, eftir að flugbrautin þar var malbikuð, en var notað þar áður með sæmilegum árangri. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir 1 millj. kr. fjárveitingu til endurbóta á Grímseyjarflugvelli, og telur flugmálastjóri, að sú upphæð muni duga til þess að koma umræddu flugbrautarjárni á flugbrautina, þ.e.a.s. á 740 m langa og 18 m breiða braut, og telur, að með þeirri aðgerð sé sæmilega ráðið úr þeim samgönguvanda, sem þarna hefur verið búið við og ég er algjörlega sammála hv. 2. þm. Norðurl. e., að verður að ráða bót á, því eins og hann tók réttilega fram, eru flugsamgöngurnar þær einu, sem Grímseyingar geta treyst á, og það hlýtur að vera stolt okkar að geta haldið uppi sæmilegum samgöngum við þessa nyrstu byggð í landinu. Af hálfu samgrn. mun allt verða gert, sem nauðsynlegt er, til þess að svo geti orðið.