02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

282. mál, kjarabætur til handa láglaunafólki

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hlaut láglaunafólk mestar kjarabætur við nýgerða kjarasamninga, eins og ríkisstj. og ASÍ töldu höfuðnauðsyn á?“ í öðru lagi: „Hver varð hækkun á taxta Dagsbrúnar í samanburði við kauphækkun annarra vinnustétta innan ASÍ, mæld í kr. og hundraðshlutum?“

Í raun og veru hefur hv. fyrirspyrjandi svarað sjálfur og veit greinilega um svarið við fyrri spurningunni, en að svo miklu leyti sem ég reyni að svara henni, þá tel ég, að svarið sé að finna sameiginlega við báðum fsp. í því plaggi, sem ég mun nú lesa og hefur að ósk minni verið tekið saman í hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar og með aðstoð kjararannsóknarnefndar, en þetta eru þeir aðilar, sem hér ættu gerst um að vita. Þetta plagg er svohljóðandi:

„Að mati. kjararannsóknarnefndar var niðurstaða rammasamnings ASÍ og vinnuveitenda fyrir verkafólk, iðnaðarmenn og verslunarfólk nálægt 20% meðalhækkun grunntaxta við undirritun samninga og síðan 3% grunnlaunahækkun 1 des. 1974 og 3% hækkun 1975.

Hinum almennu launahækkunum samkv. samningum má yfirleitt skipta í tvo meginþætti. Annars vegar eru taxtatilfærslur og sérstök láglaunahækkun, þar sem m.a. tveir lægstu taxtar Dagsbrúnar voru felldir niður, og að auki kom bein láglaunahækkun, sem var á bilinu 21/2–4% hjá Dagsbrún. Samanlögð áhrif taxtatilfærslu og láglaunahækkunar jafngiltu um 51/2 % launahækkun að meðaltali hjá Dagsbrúnarmönnum. Til samræmis við þetta fengu félög iðnaðarmanna rúmlega 4% hækkun taxta. Var þetta svipuð hækkun og gilti fyrir 8. taxta Dagsbrúnar eða hæsta taxta. Til viðbótar þessum sérstöku hækkunum kom síðan almenn 8% hækkun launa, þ.e. launa eftir taxtatilfærslu og láglaunahækkun, að viðbættum 1200 kr. á mánuði. Á laun yfir 35.000 kr. nam hækkunin þó aðeins 4000 kr. Ákvæðin um 1200 kr. og hámarkshækkun 4000 kr. valda því, að hlutfallsleg hækkun verður minni, eftir því sem laun eru hærri. Nú ber þess að gæta, að allmargir kauptaxtar eru ákveðnir þannig, að prósentuálagi er bætt ofan á ákveðinn grunntaxta. Þar sem reglurnar um slík prósentuálög og 4000 kr. rákust á, þá réð álagið.

Séu aðeins taldar beinar kauphækkanir samkv. rammasamningi og hækkanir á kaupi í reikningstölu ákvæðisvinnumanna, en öllum sérákvæðum í hinum ýmsu samningum sleppt, er talið, að meðalhækkun grunntaxta í fyrsta áfanga samninganna hafi verið eftirfarandi fyrir hinar ýmsu starfsdeildir, þ.e.a.s. hækkun á kaupi 1. mars án vísitöluhækkunarinnar, sem þá gekk í gildi: Dagsbrúnarmenn 19,1%, verkakonur í Framsókn 21,7%, Iðjufólk 18,7%, verslunar- og skrifstofufólk 23,7%, iðnaðarmenn, almenn .vinna, 19–20%, iðnaðarmenn, ákvæðisvinna, trésmiðir, rafvirkjar og pípulagningamenn nálægt 17%, múrarar 23% og málarar nær 29%.

Eins og áður sagði, er mati á sérákvæðum hér yfirleitt sleppt, nema þar sem reglum um starfsaldurshækkanir á launin var breytt, en mjög mörg félög innan ASÍ fengu slíkar hækkanir. Mörg sérákvæðanna í hinum ýmsu samningum skipta nokkru máli, er meta skal kauphækkanir. Hins vegar er fjöldi slíkra sérákvæða mjög mikill og eðlismunur á þeim mjög verulegur. Í mörgum tilfellum er um skipti á beinum kauphækkunum og fyrri hlunnindum að ræða, t.d. afnám svokallaðrar flutningalínu fyrir beina hækkun launa, en óeðlilegt er að líta á þessi skipti sem beina kauphækkun. Í öðrum tilfellum er um að ræða álag á kaup við sérstaka vinnu T.d. fengu járniðnaðarmenn 10% álag á viðgerðir og vinnu við þunga hluti. Fyrir þá járniðnaðarmenn, sem njóta þessa álags, verður heildarhækkun launa rúmlega 30%.

Af öðrum ákvæðum má nefna 10% námskeiðsálag hjá trésmíðum, sem sækja sérstakt námskeið á samningstímabilinu, og 5% erfiðisálag hjá múrurum. Fyrir þá hópa iðnaðarmanna, sem njóta þessara eða hliðstæðra sérákvæða, er kauphækkun talsvert meiri en hún er að meðaltali hjá verkamönnum.

Þeim almennu launahækkunum til félaga innan ASÍ, sem fram fengust í kjarasamningum, sem undirritaðir voru hinn 26. febr., má yfirleitt skipta í tvennt:

a) Taxtatilfærslur eða prósentuhækkun í þeirra stað. Með þessum fyrri áfanga samningsgerðarinnar var samið um mjög verulegar tilfærslur innan launataxtanna. Að þeim tilfærslum loknum höfðu tveir lægstu taxtar Dagsbrúnar verið skornir af, og jafnframt fékkst bein launahækkun, sem var á bilinu 2,5–4,2%, til Dagsbrúnarmanna. Samanlögð launahækkun og taxtatilfærslur í þessum áfanga eru metnar á um það bil 5,6% að meðaltali, og er þá miðað við Dagsbrún. Félög iðnaðarmanna fengu til samræmis við þetta 4,25% hækkun á sína taxta og var jafnmikil hækkun og Dagsbrúnarmenn fengu á 8. taxta, eins og áður sagði.

b. Í öðrum áfanga samninganna varð samkomulag á þann veg, að þau mánaðarlaun, sem um var samið í fyrsta áfanga, skyldu hækka um 8%, að viðbættum 1200 kr. Voru launin þá yfir 35 000 kr. á mánuði, yrði hækkunin í þessum síðari áfanga þó aðeins 4000 kr. á mánuði. Síðar á samningstímanum skyldu öll laun hækka um 3% og þau laun um önnur 3% enn síðar.

Sú stefna ASÍ, að láglaunafólk skyldi fá mestar hlutfallslegar kjarabætur, kemur fram í eftirfarandi m.a.:

Ófaglært verkafólk fékk hlutfallslega meiri hækkun í fyrri áfanganum en t.d. iðnaðarmenn. Í öðru lagi: Ákvæðið um 1200 kr. veldur því, að hlutfallsleg hækkun varð minni, eftir því sem launin voru hærri. Ákvæði um 4000 kr. á laun yfir 35000 kr. höfðu sömu áhrif. Þess skal getið, að allmargir kauptaxtar eru ákveðnir þannig, að prósentuálagi er bætt ofan á einhvern grunntaxta. Ef reglurnar um slíkt prósentuálag og 4000 kr. hækkun rákust á, réð álagið. Ýmis sérákvæði í hinum ýmsu samningum skipta verulegu máli, er meta skal kauphækkanirnar.“

Hér mun ég svo lesa á eftir skrá eða yfirlit um meðalhækkanir vegna nýgerðra kjarasamninga og tek fram, að þær eru án vísitölunnar, sem kom 1. mars, sem var 6.18%, og þetta lítur þá þannig út:

Dagsbrún 19.06%, Framsókn 21.68%, Iðja 18.73%, verslunarmenn 23.72%, trésmiðir, almenn vinna, 19.86%, trésmiðir, ákvæðisvinna, 17.13%, rafvirkjar, almenn vinna, 18.6%, rafvirkjar, ákvæðisvinna, 17.51%, járnsmiðir, blikksmiðir, bifvélavirkjar 18.92% plús 10% álag á viðgerðarvinnu o.fl., pípulagningamenn 10.04%. í ákvæðisvinnu 16.92°/, húsgagnasmiðir, almenn — vinna, 44.57%, málarar, almenn vinna, 20.28%, í ákvæðisvinnu 28.88%, múrarar, almenn vinna, 19.03%, múrarar, ákvæðisvinna 23.09%.

Hér eru, eins og ég áður sagði aðeins taldar beinar kauphækkanir og hækkanir á kauplið reikningstölu ákvæðisvinnu.

Tími minn vinnst ekki til þess að fara nánar út í þetta, þó að ég hafi hér tiltæka sundurliðun á hverjum lið fyrir sig. En ég held, að heildaryfirlitið, sem ég hef gefið, gefi nokkuð rétta mynd af því, sem hér hefur gerst, þó að hins vegar sé fullkomlega rétt að játa það, að ýmislegum sérákvæðum er hér sleppt, enda stundum verulegur vafi á því, hvað hægt er af því að meta til beins kaups eða ekki.

Ég ætla svo ekki, herra forseti, að — (Forseti hringir.) Ég hlíti því, en það er ágæt afstaða hjá hæstv. forseta að gangast fyrir því að mæla með fsp., en takmarka síðan tíma til þess að svara þeim.