06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

351. mál, geðdeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Á þskj. 30 hef ég leyft mér að bera fram, svo hljóðandi fsp. til hæstv. heilbrrh.:

„1) Hefur áætlun um rúmafjölda væntanlegrar geðdeildar verið breytt á þessu ári?

2) Hvenær má ætla, að deildin verði tekin í notkun?

3) Verður bætt úr rúmaskorti geðsjúkra með bráðabirgðaráðstöfunum uns deildin tekur til starfa?“

Nýlega var þess getið í blöðum, að senn yrði bygging geðdeildar við Landsspítalann boðin út. Þetta eru miklar gleðifregnir. Undanfarin ár hefur aðstaða geðsjúkra gjarnan verið umræðuefni fjölmiðla og stjórnmálamanna vegna þess örðuga ástands, sem ríkt hefur. Ástæðan fyrir 1. lið fsp. er hins vegar sú, að á s. l. ári upphófust harðvítugar deilur um stærð og gerð deildarinnar. Ýmsir læknar, bæði íslenskir læknar í útlöndum og læknar við Landsspítalann, töldu deildina óhæfilega stóra og reista á skökkum stað. Og þótt ég geti ekki fallist á þau sjónarmið, finnst mér fróðlegt að fá nú upplýst, u. þ. b. sem framkvæmdir eru að hefjast, hvort rúmafjöldi og gerð deildarinnar eru hin sömu og fyrirhuguð var í fyrra.

2. liður fsp. minnar um það, hvenær deildin verði tekin í notkun, er nú augljóst áhugaefni. Rúmaskortur geðsjúkra er óhugnanlegur, og er því vonandi, að unnt verði að hafa hraðann á með byggingar, og þá fyrst má vænta viðunandi aðstöðu fyrir lækningar geðsjúkra, þegar þessi deild er fullbyggð. Þar er ekki eingöngu um byggingu sjúkrarýmis að ræða, heldur verður þarna glæsileg aðstaða til fyrirbyggjandi aðgerða, endurhæfingaraðstaða og ýmiss konar önnur aðstaða, sem nú er nálega óþekkt hér á landi.

Varðandi 3. lið fsp. minnar um það, hvort vænta mætti bráðabirgðaúrræða, meðan á byggingartímanum stendur, þá virðist næstum nauðsynlegt að leita slíkra úrræða, þar sem deildin hlýtur að vera nokkurn tíma í byggingu.