02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3335 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

421. mál, nám ökukennara

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Svör mín eru þessi:

Ákvæði um löggildingu ökukennara er að finna í 31. gr. umferðarlaga, nr. 40 1968, og nokkru fyllri ákvæði eru í reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 57 1960. Segir þar, að rétt til þess að hafa á hendi kennslu undir almennt próf í akstri og meðferð bifreiða hafi þeir einir, sem til þess hafi fengið löggildingu dómsmrh. Engum má veita ökukennararéttindi, nema hann í fyrsta lagi sé orðinn 25 ára gamall, í öðru lagi hafi óflekkað mannorð og í þriðja lagi hafi eigi gerst sekur um alvarleg eða ítrekuð brot á umferðarlögum eða alvarleg brot á áfengislögum, í fjórða lagi hafi réttindi til að aka leigubifreið til mannflutninga og hafi stundað akstur að staðaldri eigi skemur en 2 ár eftir að hann öðlaðist þau réttindi, í fimmta lagi, að hann hafi staðist sérstakt ökukennarapróf.

Prófgreinar við ökukennarapróf eru þessar: í fyrsta lagi umferðarlög og reglugerðir settar skv. þeim. Í öðru lagi ökukennsla. Í þriðja lagi þau efni, sem kennd eru á námskeiði fyrir bifreiðastjóra á leigubifreiðum til mannflutninga. Prófefni skv. þessum lið skal valið af prófnefnd og því gerð skil í ritgerð, sem rituð skal undir eftirliti prófnefndar. Til samningar ritgerðar skal próftaki fá 2 klst. og eigi afnot hjálpargagna.

Próf skulu haldin eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Við prófið skal gefa einkunnirnar frá 0–10. Til þess að standast próf þarf próftaki að fá minnst 6 fyrir hverja prófgrein. Standist próftaki ekki prófið, skal a.m.k. eitt ár líða, þangað til hann fær að þreyta próf að nýju. Ökukennararéttindi falla niður 5 árum eftir útgáfu leyfisbréfs, ef það hefur ekki verið endurnýjað. Dómsmrh. getur hvenær sem er svipt mann ökukennararéttindum, ef ástæða er til. Skal það ávallt gert, ef ökukennari missir skilyrði til að öðlast ökukennararéttindi, svo og ef veruleg brögð verða að því, að ökukennari veiti ökumannsefnum, sem eigi standast próf, vottorð um, að þeir séu hæfir að hans dómi til að taka próf.

Þrátt fyrir framangreind ákvæði skal veita ótímabundin ökukennararéttindi án gjalds þeim, sem lokið höfðu hinn 31. des. 1950 prófi til aksturs leigubifreiða til mannflutninga, ef þeir uppfylla skilyrði skv. 2, og 3. tölul. hér að framan. Ákvæði um sviptingu ökukennararéttinda gilda jafnt um þá, sem fá löggildingu án prófs.

Kennsla í akstri bifhjóla má aðeins fara fram undir stjórn og umsjón löggilts ökukennara. Rétt til þess að kenna á bifhjól hafa þeir einir, sem til þess hafa fengið löggildingu dómsmrh. Skulu þeir uppfylla skilyrði 1.–4. tölul., sem rakin voru hér að framan, auk þess að hafa staðist próf hjá bifreiðaeftirlitsmanni í ökukennslu og meðferð bifhjóla.

Hér hefur verið rakið það, sem segir um löggildingu ökukennara í umferðarlögum og reglugerð. Ökukennarapróf fara fram tvisvar á ári, í apríl og sept., í Reykjavík og á Akureyri. Lúta þan umsjón sérstakrar prófnefndar, sem dómsmrh. skipar, og er í prófnefnd einn lögfræðingur og tveir bifreiðaeftirlitsmenn. Tilhögun prófs er með þessum hætti:

Þegar prófnefnd hefur farið yfir umsóknir og vottorð umsækjenda, boðar hún umsækjendur saman á einn stað og gerir þeim sem gleggsta grein fyrir efni og tilhögun prófanna, en ekki er skipulagt neitt sérstakt námskeið fyrir væntanlega ökukennara. Eftir 7–10 daga mæta próftakar til prófs í umferðarlögum og reglugerðum settum skv. þeim. Prófið er tvíþætt, þannig að spurt er um bein ákvæði. Þeir próftakar, sem staðist hafa prófið í umferðarlögum og reglugerðum, mæta 7–10 dögum eftir það próf í próf um bílinn. Spurt er um vinnu og hirðingu bílsins, og miðast það próf við bókina „Bíllinn“. Jafnframt er spurt um, hvað próftaki hugsi sér að kenna væntanlegum nemendum. Sá hluti prófsins miðast við bókina „Akstur og umferð“. Þeir próftakar, sem staðist hafa prófið um „Bílinn“, fá sér venjulega æfingatíma hjá ökukennara og mæta síðan í aksturspróf. Akstursprófið er tvíþætt. Próftaki sýnir góðakstur í u.þ.b. 45 mín., síðan ekur einn prófnefndarmaður sem nemandi. Áður en seinni hluti prófsins hefst, er próftaka gerð grein fyrir því, að hann verði að stjórna akstrinum eins og hann sé með nemanda í kennslu. Honum er jafnframt gerð grein fyrir því, á hvaða stigi kennslunnar hugsaður nemandi er, og að hann geri villurnar nokkuð þéttar en venjulegur nemandi. Í akstursprófinu verður próftaki að gera grein fyrir akstri sínum og aksturstilsögn.

Ökukennarapróf voru fyrst tekin árið 1948, en fram til þessa höfðu allir þeir, sem heimild höfðu til aksturs leigubifreiða til mannflutninga og náð höfðu 25 ára aldri, réttindi til ökukennslu. Ökukennararéttindi að afloknu prófi hafa nú um 280 ökukennarar. En auk þess halda fjölmargir menn enn ökukennararéttindum skv. eldri reglum. Eru slíkir menn á skrá hjá dómsmrn. um 880. Ökukennslu stundar hins vegar eigi nema hluti þessa fjölda. Á árinu 1973 voru tekin hér á landi 5363 ökupróf, en ökukennarar þessa hóps voru 263. Skiptust nemendur þannig á kennara, að 74 kennarar höfðu 25 nemendur o.fl., 52 kennarar höfðu 12–24 nemendur, 39 kennarar 6–11 nemendur, 61 kennari var með 2–5 nemendur og 37 kennarar með 1 nemanda. Þannig kenndu 126 ökukennarar 12 nemendum eða fleiri, en 137 kennarar 11 nemendum eða færri.

Að því er víkur að seinni liðnum, er þetta að segja:

Endurskoðun ökukennslu hefur verið á verkefnaskrá Umferðarráðs. Einn þáttur í slíkri endurskoðun er um menntun ökukennara, sem á vissan hátt er forsenda annarra breytinga. Í nágrannalöndum okkar hafa á undanförnum árum orðið miklar breytingar á menntun ökukennara, þannig að væntanlegum ökukennurum er ætlað að sækja námskeið eða sérstaka ökukennaraskóla, áður en þeir þreyta ökukennarapróf. Á vegum Umferðarráðs var á síðasta ári tekin saman skýrsla, þar sem fjallað var um menntun ökukennara í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, Þýska sambandslýðveldinu og Noregi, en þar í landi hafa nýlega verið gerðar miklar breytingar á skipun ökukennslu og sérstaklega menntun ökukennara með stofnun sérstaks ökukennaraskóla. Skýrsla þessi var rædd á fundi Umferðarráðs 31. okt. s.l. og þá jafnframt tilhögun þessara mála hér á landi. Var framkvæmdanefnd falið að vinna að frekari athugun málsins í samráði við Bifreiðaeftirlit ríkisins og ökukennarafélag Íslands. Enn hafa ekki verið mótaðar endanlegar hugmyndir um skipun náms ökukennara hér á landi. Eru uppi um skipun náms ökukennaranema hér á landi hugmyndir um að áskilja, að þeir, sem ætla að þreyta ökukennarapróf, skuli fara á námskeið og hljóta þar sérstaka fræðslu fyrir próf. Í umr. um framkvæmd slíkrar fræðslu hefur einkum verið bent á eftirfarandi möguleika:

1) Stofnun sérstaks ökukennaraskóla að norskri fyrirmynd.

2) Sérstakt námskeið fyrir ökukennara, t.d. í tengslum við Kennaraháskóla Íslands, iðnskóla, lögregluskóla ríkisins eða sjálfstæð námskeið á vegum Bifreiðaeftirlits ríkisins og Umferðarráðs.

3) Námskeið á vegum Ökukennarafélags Íslands, sem lyki með prófi, sem dæmt yrði af sérstakri dómnefnd eins og nú er gert.

Enn hefur eigi verið tekin afstaða til þessara hugmynda, en ætla verður, að með þessu skóla- eða námskeiðsfyrirkomulagi fáist betri trygging fyrir því, að ökukennsla í landinu verði samræmd. En jafnframt því sem komið verður á breyttu fyrirkomulagi á námi ökukennaranema og ökukennaraprófi, er nauðsynlegt að huga að öðru atriði nátengdu, sem er endurmenntun ökukennara í starfinu.

Eins og áður greinir, er unnið að tillögugerð á þessu sviði hjá Umferðarráði í samráði við m.a. Bifreiðaeftirlitið, sem haft hefur með ökukennarapróf að gera, og Ökukennarafélag Íslands. Er þess að vænta, að till. Umferðarráðs um þetta efni geti legið fyrir síðar á þessu ári.