02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3338 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

421. mál, nám ökukennara

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. skýr og ítarleg svör við fsp. minni. Það kom fram eins og mig reyndar grunaði, að hér á landi þarf nú enga beina fræðslu eða námsskilyrði til þess að ganga undir próf í ökukennslu. Það hlýtur að vera óvenjulegt, svo að ekki sé meira sagt, að fast nám sé ekki skilyrði til prófs, og það þykir mér því allt of tilviljanakennt, alveg sérstaklega þegar það er staðreynd, að flest ríki í V.- Evrópu eru annað tveggja komin með námskeið eða fastan ökukennaraskóla. Ég fagna því mjög, ef á þessu eru að verða breytingar á einhvern þann hátt, sem hæstv. ráðh. minntist á hér áðan, og þær komi sem allra fyrst til framkvæmda. Menntun ökukennara er nefnilega forsenda fyrir öllum hugsanlegum breytingum á ökukennslunni sjálfri. Umferðin krefst þess blátt áfram, að það sé betur gert. Og bað kemur fleira hér inn í. Umferðin krefst þess einnig, hin síaukna umferð, að mönnum séu ekki veitt réttindi til að aka bifreið, nema þeir séu til þess rækilega undirbúnir og einnig við sem ólíkastar og erfiðastar aðstæður.

Ég bendi aðeins á það, að nám að sumarlagi og vetrarlagi og bílpróf á þeim misjafna tíma er sitthvað. Ég bendi einnig á það aftur, að akstur í Reykjavík eða akstur austur á Fljótsdalshéraði er einnig sitthvað. Þetta þarf allt að taka til athugunar. En ég legg áherslu á, að frumforsenda góðrar ökukennslu er einmitt það, að menntun og hæfni ökukennaranna sé sem allra best, og því fagna ég því, að það gæti orðið sem allra fyrst, að þeir nytu góðs náms og beinnar fræðslu, áður en þeir gengju undir sitt próf.