06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

351. mál, geðdeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hans ágætu svör, og ég gleðst mikið yfir því að heyra, eins og hann orðaði það, að stærð og gerð geðdeildarinnar skuli ekki hafa verið breytt. Deilan um stærð geðdeildarinnar byggist m. a. mjög á því, að þar var allmikið rými ætlað, eins og hæstv. ráðh. tók fram, til endurhæfingaraðstöðu, til kennslu o. s. frv., og er sýnilegt, að fyrir þetta húsrými er mikil þörf einmitt nú. Ég hafði gert mér grein fyrir því, að rúmafjöldinn mundi koma í tveim byggingaráföngum, og vil leggja áherslu á, að reynt verði að koma því til leiðar, að bygging á 2. áfanga verði hafin þegar er 1. áfanga er lokið. Það er augljóst, að til þessa þarf mikið fjármagn, vafalaust ekki þær 350 millj., sem gerð var áætlun um í vor, heldur miklu frekar 400–500 millj., Þess vegna skora ég á þm. að skilja þörfina, skilja aðstöðuna, sem er í dag, og sjá nauðsynina á því að auka framlag til byggingar geðdeildarinnar.

Ég vona, að hægt verði að standa við þá áætlun að taka þessa deild í notkun á árinu 1976, og ég vil taka það fram, að enda þótt nokkuð hafi áunnist í öflun ýmis bráðabirgðahúsnæðis til lausnar á vandamálum geðsjúkra, fer verulegur hluti af þeim rúmafjölda einmitt til þess að geta lagt niður gamla Kleppspítalann.

Þetta var nú meginatriðið, að fá fram, hvernig horfir í þessum málum. Mér er ljóst, að það er komið undir fjármögnun, hvernig tekst með byggingu þessa og hvenær hægt verður að taka hana í notkun.