02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

9. mál, grunnskóli

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð út af þeim aths., sem hv. frsm. n., 3. þm. Vestf., hefur gert við ræðu mína hér áðan. Hann hóf máls á því, að spyrjast fyrir um það, hvenær hafi hafist háskinn af hinni löngu skólaskyldu og hvort þeir, sem nú telja, að lenging skólaskyldunnar um eitt ár fylgi mikill vandi og ókostir, hvort þeir hinir sömu telji þá ekki, að skólaskyldan sé of löng í dag. Ég get sagt þessum hv. þm. það, að ég tel, að skólaskyldan sé óþarflega löng í dag og vel mætti stytta hana. Ég tel, að enda þótt skólaskyldan væri stytt, mundi það ekki verða til þess að draga úr skólasókn að neinu marki. E.t.v. má segja, að því kynni að fylgja, að einstaka nemandi, sem í flestum tilvikum er óviðráðanlegur í skóla, mundi ekki sækja skóla að jafnaði. Þar yrði þó ekki nema um örfáa nemendur að ræða. Hins vegar hygg ég, að í heild mundi það vinnast upp í skólastarfinu vegna þess, hve þeir nemendur, sem sækja skóla af frjálsum vilja, en ekki eftir lagaboði, stunda námið betur. Þeir vita, að ef þeir brjóta af sér í skólastarfi, þá eiga þeir á hættu, að þeim sé vikið úr skóla. Það mundi því vinnast miklu meira með skólastarfinu, þannig að ávinningurinn fyrir þjóðina í heild og fyrir menntun æskufólksins mundi verða meiri, þrátt fyrir það þótt örfáir nemendur mundu ekki sækja skóla, sem gera það nú af skyldukvöð.

Ég skal ekki fara út í þessi efni mörgum orðum, en ég hef rætt það fyrr, að sú virðist skoðun skólamanna, að þau vandkvæði, sem við er að etja í skólastarfinu í efstu bekkjum skyldunáms, séu að verulegu leyti af því sprottin, að þessir nemendur finna, að þeir eru þar samkv. lagaboði, en ekki að eigin frumkvæði, og það hefur í för með sér mikla erfiðleika fyrir skólastjóra og kennara að halda uppi aga, þegar nemendur vita, að þeim er nálega óhætt að gera hvað sem er, þeim verður ekki vikið úr skóla, því að það er lögboðið, að þeir skuli vera þar. En agaspursmál í skólum er eitt hið mikilvægasta til þess, að árangur verði af skólastarfi, og það ætti hv. 3. þm. Vestf. að vita sem gamall skólastjóri.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta efni. En hv. þm. sagði það vera vilja n. að tryggja mannlegri meðferð á börnum og unglingum. Einn þátturinn í því að framfylgja þeirri skoðun hv. n. hefði átt að vera sá að ganga a.m.k. ekki lengra en gildandi lög gera ráð fyrir um lengd skólaskyldu og fremur stytta hana til þess að hafa þau bætandi uppeldisáhrif á æskulýðinn í landinu, að hann sé að sækja sitt nám af eigin hvötum til þess að afla sér menntunar, en sé ekki settur inn í skólana eftir lagaboði frá ríkiskerfinu. Þetta hefur afgerandi uppeldisáhrif á unga fólkið í dag, og ég hygg, að þessa sjái víða stað nú þegar, enda þótt ekki sé horfið að því að lengja skólaskylduna frá því, sem þegar er orðið.

Hv. þm. gerði lítið úr því, sem ég hafði talið til foráttu þessu frv., að aukið væri stjórnunarkerfi innan skólakerfisins og fjölgað þeim þrepum, sem þarf að ganga frá grunni til þess að ná fram ákvörðun um hin lítilfjörlegustu efni í skólum og ráðningu manna eða þess háttar í skólakerfinu. Hv. þm. taldi það ekki vera neitt til trafala fyrir skólastjóra og engin ofstjórn því samfara, að milli skólastjóra og ráðh., sem er æðsti yfirmaður þessara mála, skuli settir fjórir æðri valdaaðilar í þjóðfélaginu. Þó er þarna fjölgað um tvö þrep. Í gildandi l. segir, að skólastjóri skuli stjórna öllu starfi skóla samkv. lögum og reglugerðum og bera ábyrgð gagnvart fræðslumálastjórn og skólanefnd. Um þetta efni er fjallað í 20. gr. þessa frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skólastjóri og fastir kennarar stjórna starfi grunnskóla undir yfirstjórn menntmrn., fræðsluráðs, fræðslustjóra og skólanefndar, eftir því sem nánar segir í lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkv. þeim. Skylt er öllum föstum kennurum skólans að sækja kennarafundi þá mánuði, er skóli starfar, ef fundurinn fer fram á daglegum starfstíma skóla.“

Í þessari frvgr. er sem sé sagt, að skólastjórinn skuli stjórna skóla sínum undir yfirstjórn fjögurra aðila, og er ekki lengur talað um það, að hann sé ábyrgur um stjórn skóla gagnvart neinum aðilum, eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Hér er því um að ræða skerðingu á valdi skólastjórans og það er aukið mjög á þá yfirstjórn, sem honum ber að hlíta. Ég heyrði hv. frsm. n. halda því fram í sjónvarpi, að skipstjóri þyrfti að vera einn og það þyrfti að búa svo um hnútana, að skólastjóri réði sínum skóla. En þrátt fyrir þessar upplýsingar hv. þm. kemur frv. úr n. úr hans höndum með þeim hætti, sem hér hefur verið lýst, með stórkostlega skertum völdum og niðurfellingu ábyrgðar skólastjóra gagnvart sínum skóla og því starfi, sem þar fer fram. Þetta tel ég miður vera.

Um það, að ég sé með þessum orðum að mótmæla því, að nokkuð af starfi fræðsluyfirvalda fari út í héruðin, þá er það allt annað mál og kemur þessu ekki beint við. Ég tók það þó fram, að í mörgum tilvikum er hér um að ræða eins konar selstöðu ríkisvaldsins, og það kalla ég selstöðu ríkisvaldsins, þegar settar eru niður slíkar skrifstofur úti á landsbyggðinni, skrifstofur, þar sem kerfið er flækt og fjölgað þrepum, sem þarf að ganga til ákvörðunar, og ákvörðunin er eftir sem áður í höndum æðstu yfirstjórnar, menntmrn. Það má fletta ýmsum gr. frv. til þess að komast að raun um, hvernig þetta er, en með tilliti til þess, að komið er fram yfir miðnætti, skal ég ekki fara út í það nákvæmlega. Hér segir þó t.d. í 33. gr., með leyfi hæstv, forseta:

„Þegar skólastjóra- eða kennarastaða losnar í skólahverfi, ber skólanefnd að tilkynna fræðslustjóra það tafarlaust. Fræðslustjóri sendir tilkynninguna til menntmrn., sem auglýsir stöðuna. Skólanefnd veitir viðtöku umsóknum um skólastjóra- og kennarastöður og sendir fræðslustjóra till. sínar og umsagnir. Skylt er skólanefnd að leita álits skólastjóra um umsækjendur, ef velja á kennara, en fræðslustjóra, ef velja skal skólastjóra. Verði ágreiningur um umsækjendur milli skólastjóra og skólanefndar, gerir hvor aðili um sig till. til fræðslustjóra. Fræðslustjóri sendir till. og umsagnir um stöðuveitingar til menntmrn. ásamt umsögn sinni. Þegar skólastjóri eða kennari lætur af störfum sakir aldurs eða að eigin ósk, skal hann tilkynna það skriflega til skólanefndar og næsta yfirmanns síns, fræðslustjóra eða skólastjóra, fyrir 1. febrúar. Stefnt skal að því, að skipun og setning í skólastjóra- og kennarastöður fari fram eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Þurfi að ráða skólastjóra eða kennara fyrirvaralítið, getur menntmrn. sett mann í starfið án undangenginnar auglýsingar, en auglýsa skal slíka stöðu svo fljótt sem unnt er.“

Í þessari gr. kemur það fram, að í fyrsta lagi auglýsingum, síðan umsóknum og umsögnum er flækt á milli aðila sitt á hvað, og að lokum er það auðvitað alltaf rn. og hæstv. menntmrh., sem tekur ákvörðun. Þetta kallar hv. 3. þm. Vestf. að flytja valdið heim í byggðirnar. Ja, sér er nú hvað!

Hv. þm. lét orð falla á þá lund, að ég hefði gert lítið úr þýðingu þess að fá sálfræðinga og sérkennara til sérkennslu að skólum úti um landið. Við það er þó það að athuga, að ég minntist ekki á sérkennslu einu orði, og skal það auðvitað fúslega fyrirgefið, þó að mér séu að svo litlu leyti gerð upp orð. En gagnvart sálfræðiþjónustu, þá hef ég heyrt ýmsar frásagnir, bæði skólastjóra og foreldra um hana, og slíkar frásagnir hafa ekki styrkt mig í þeirri trú, að það sé þýðingarmikið mál að setja upp mikinn fjölda slíkra gæðinga tvist og bast um landsbyggðina, — gæðinga, sem eigi að hafa það hlutverk að sinna nokkru af þeim störfum, sem skólamenn sjálfir hafa gegnt hingað til. Skólamenn, sem eru ábyrgir í því starfi, sem innt er af höndum innan skólakerfisins, standa ábyrgir fyrir því, að árangur náist í náminu. Þessir sérfræðingar bera enga ábyrgð. En þeir hafa vissulega nokkurt hlutverk, og má fletta því upp, vegna þess að hv. frsm. n., Hannibal Valdimarsson, einmitt ítrekaði það, að sú væri þó skoðun sín, að það væri mikið afturhvarf til hins verra, ef þessir menn ættu að taka við því starfi, sem skólastjórar og kennarar hafa hingað til gegnt, að sinna þörfum þeirra nemenda, sem eitthvað þyrfti sérstaklega að huga að. Hér tek ég þó fram, að ég á alls ekki við, þegar um afbrigðilega nemendur er að ræða, sem þarf að veita sérkennslu, enda er þar um annað mál að ræða. En í 69. gr. segir m, a. um hlutverk ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu: „Það er t.d. að vera ráðgefandi um umbætur í skólastarfi, sem verða mætti til að fyrirbyggja geðræn vandkvæði, að leiðbeina skólast,jórum, kennurum og foreldrum um kennslu, uppeldi og meðferð nemenda, sem rannsakaðir eru, að taka til meðferðar nemendur, sem sýna merki geðrænna erfiðleika, og leiðbeina foreldrum og kennurum um meðferð þeirra“ o.s.frv. Hér er sem sagt kveðið á um það, að þessir menn, sálfræðingar og svokallaðir félagsráðgjafar, eigi að veita kennurum, skólastjórum og foreldrum ýmsar leiðbeiningar um það, hvernig með skuli fara, ef t.d. einhver nemandi á við sérstaka erfiðleika að etja. Við skulum taka dæmi. Það kemur ungt barn í skóla, það fær grátköst, því leiðist og þess háttar. Þá á það ekki að vera kennarinn og skólastjórinn, sem talar við barnið, vinnur trúnað þess og reynir að verða til þess að bæta úr þeim annmörkum, sem hrjá barnið, fylla það trausti í garð starfsliðs skólans og vinna þannig að því, að árangur af skólastarfinu náist, heldur á að kalla til sérfræðing einhvers staðar úr fræðsluskrifstofu í næsta héraði eða þar næsta, sem á að leysa þetta mál allt á einni kvöldstund og gefa stjórnendum skólans ráðleggingu um það, hvernig þeir skuli haga sér.

Ég ætla ekki að rekja það, hvaða sagnir ég hef frá slíkum læknisaðgerðum sálfræðinga, sem reyndar hafa verið við einstaklinga hér og hvar í skólastarfi, það má liggja á milli hluta, en þær eru ekki allar traustvekjandi.

Hv. þm. sagði, að auðvitað væri hægt að fella umbætur þessa frv. inn í fræðslulögin frá 1946. Það breytti engu, en þó alls ekki verra og raunar miklu fallegra, fannst mér á honum, að afgreiða ný lög. En það er bara ekki þetta, sem ég átti við. Það, sem ég átti við, er, að þetta frv. er svo meingallað í mínum augum, að það á ekki rétt á sér að afgreiða það eins og það er. Og það væri hægt að flýta umbótum í skólakerfinu með því að taka það út úr þessu frv., sem allir eða a.m.k. flestir geta verið sammála um, að sé til bóta, fella það inn í gildandi lög og freista þess með auknu starfi enn einu sinni að sníða af fleiri ágalla þessa frv. en þegar hefur tekist í því skyni að setja löggjöf, sem fleiri væru sammála um, að yrði þeim, sem við eiga að búa, til heilla. Við heyrðum það úr þessum ræðustól áðan, að einn nm., hv. þm. Benedikt Gröndal, taldi, að á þessu frv. væru fjölmargir gallar enn, enda þótt hann liti svo á, að það yrði að kyngja þessum ókostum til þess að fá fram kostina. Þetta er sjónarmið, sem ég vil ekki viðurkenna, ekki í sambandi við þetta frv. eða mörg önnur, að það þurfi ævinlega að kyngja svo og svo mörgum vondum bitum til þess að geta etið einn eða tvo lostæta.

Hv. þm. Hannibal Valdimarsson taldi mig hafa farið með mikla fjarstæðu, þegar ég dró það í efa, að samþykkt þessa frv. fylgdi mikil jöfnun á námsaðstöðu fyrir skólafólk sírjálbýlisins. Það er alveg rétt, sem hann gat um, að í frv. til l. um skólakerfi er gert ráð fyrir því að bæta fjárhagsaðstöðu þeirra fjölskyldna, sem erfiðast eiga í sambandi við að senda börn sín til náms, og skal ekki gert lítið úr því. Það er og rétt, að það er kveðið svo á í því frv., að jafnaðar skuli gætt. Ég gat um áður í sambandi við það að koma upp aðstöðu fyrir skólastarf með skólamannvirkjum og öðru því, sem kostar peninga, að ekkert fjármagn myndast með því að samþ. slík lög sem þessi, og þessu atriði fór hv. frsm. n. vandlega fram hjá. Hann fór einnig algjörlega fram hjá því, sem ég gerði að nokkru atriði í minni fyrri ræðu, hver kostnaðaraukning hlytist af því að samþ. þetta frv. Hann gætti þess mjög vandlega að fara fram hjá því atriði, enda er líklegt, að það sé mála sannast, að hv. n. hafi litla rannsókn á því framkvæmt.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni. Ég þarf ekki að ítreka mína skoðun, hún hefur komið glögglega fram bæði nú og fyrr. Ég tel, að um svo mikilvægt mál sé að ræða, þar sem er að leggja grundvöll að undirstöðumenntun íslensku þjóðarinnar og gefa æskulýð hennar færi á að afla sér þeirrar menntunar, sem hugur stendur til, að það eigi ekki að hrapa svo að slíkri löggjöf, að mjög mikill hluti skólamanna og mjög stór hluti þjóðarinnar sé þeirrar skoðunar, að stórgallað mál sé á ferðinni, þar sem þetta frv. sé. Því ber ekki að afgreiða það nú í því formi, sem það er, heldur skoða það að nýju, taka inn þau atriði sem sannarlega eru til bóta, og fresta afgreiðslu þeirra, sem mest eru umdeild.