03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (3056)

172. mál, verndun Mývatns og Laxár

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Þegar gengið var frá samningi um lausn Laxárdeilunnar s.l. vor, var meðal samningsatriða fyrirheit ríkisstj, um, að hún mundi beita sér fyrir sérstakri löggjöf um verndun Mývatnsog Laxársvæðisins. Frv., sem hér er lagt fram, er öðrum þræði borið fram til að fullnægja því fyrirheiti. En þegar áður en sú sáttagerð og þau ákvæði, sem henni fylgdu, urðu til, hafði Náttúruverndarráð hið nýja, sem tók til starfa í ársbyrjun 1972 eftir nýjum náttúruverndarlögum, hafið athugun á fyrirkomulagi og þörf sérstakrar löggjafar um Mývatnssvæðið til verndunar því náttúrufari og því dýralífi, sem þar er að finna.

Ég tel óþarfa að rekja fyrir hv. dm., hversu sérstæð, stórbrotin, en viðkvæm náttúra Mývatnssveitar og næsta nágrennis er, enda er fjölbreytni og hinu flókna samhengi, sem ríkir í lífríkinu á þeim slóðum, ýtarlega lýst í grg. En frv. það, sem hér er komið frá Nd., miðar að því, eins og í 1. gr. segir, að stuðla að verndun Mývatns- og Laxársvæðis í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í 2. gr. er tekið fram, til hvaða svæðis lagaákvæðin ná, sem sé Skútustaðahrepps og Laxár með hólmum og kvíslum allt að árósi við Skjálfanda ásamt 200 metra breiðum bakka beggja vegna Laxár.

Í 3. gr. eru sett fram þau sérstöku verndunarákvæði, sem gilda á því svæði, sem skilgreint er í 2. gr. Á því er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt, nema leyfi Náttúruverndarráðs komi til. Þar eru sömuleiðis óheimilar breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna nema til verndunar þeirra og ræktunar, enda komi til sérstakt leyfi Náttúruverndarráðs. Tekið er fram, að heimila skuli þó framkvæmdir, sem eðlilegar og nauðsynlegar teljast til búskapar á lögbýlum, nema þær valdi spjöllum á náttúruverðmætum að dómi Náttúruverndarráðs. Þá eru heimilar án sérstaks leyfis Náttúruverndarráðs byggingar samkv. staðfestu skipulagi, en þá þarf Náttúruverndarráð að hafa fallist á þá skipulagsáætlun, sem byggt er samkv.

Í 4. gr. er kveðið á um stofnun og rekstur náttúrurannsóknastöðvar við Mývatn, og er þar um að ræða, að komið sé á fastan grundvöll starfsemi náttúrurannsóknastöðvar, sem þegar hafi verið lögð drög að á vegum Háskóla Íslands.

Í 5. gr. er ákveðið, að menntmrn. setji að fengnum till. heilbrrn. og Náttúruverndarráðs reglugerð um hvers konar varnir við mengun á því svæði, sem lögin taka til, þ.á m. sérstaklega um mengunarvarnir frá Kísiliðjunni.

Síðan er í 7. gr. ákvæði um, að kostvaður við framkvæmd laganna greiðist úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til á fjárl. Og í 8. gr. rætt um viðurlög við brotum á ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að eftir þessa umr, verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.