03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3421 í B-deild Alþingistíðinda. (3060)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, um Þjóðhagsstofnun ríkisins, er þess eðlis, að við sjálfstæðismenn hljótum að fylgja því. Ég get ekki látið hjá líða að rifja það upp, að eitt af fyrstu verkum núv. hæstv. ríkisstj. var að flytja mikið lagafrv. um Framkvæmdastofnun ríkisins, en eitt ákvæðið í þeim l. var að flytja hagrannsóknir, sem áður höfðu farið fram hjá Efnahagsstofnuninni, er var undir yfirumsjón forsrh., yfir til hagrannsóknadeildar, er skyldi vera ein deild í hinni nýju, miklu stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins. Í upphafi var gert ráð fyrir, að í Framkvæmdastofnun ríkisins væri, að því er hagrannsóknir snerti, tvöföld pólitísk stjórn, en í meðförum þingsins var því breytt þannig, að hagrannsóknadeildin sjálf laut, eins og hagrannsóknir áður innan veggja Efnahagsstofnunarinnar, beint undir forsrh. og ríkisstj. Þannig hafði gagnrýni okkar sjálfstæðismanna þessi áhrif við meðferð frv. um Framkvæmdastofnunina á sínum tíma. En við bentum á, að æskilegra væri að halda upprunalegu fyrirkomulagi, þannig að hagrannsóknir ættu eingöngu að lúta forræði ríkisstj. og helst Alþ.

Með því frv., sem nú er hér til 1. umr., eru þessi sjónarmið viðurkennd, að því er hagrannsóknir snertir, og hljótum við að fagna því, að hæstv. forsrh. hefur nú, þótt nokkur tími hafi liðið, fallist á þessi sjónarmið okkar.

Um leið og ég læt þessa getið, vil ég taka það fram, að við teljum mikla þörf á því, að löggjöfin um Framkvæmdastofnun ríkisins sé tekin til endurskoðunar, en viljum ekki að svo stöddu blanda þeirri endurskoðun inn í þetta mál og þetta frv., sem við munum fylgja.