03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3423 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera fjölorður um þetta mál. Það var einungis út af síðustu orðum hæstv. forsrh., sem ég stend hér upp. Mér finnst illt til þess að vita, að þegar það hendir, að menn úr stjórnarandstöðunni koma með sjónarmíð, sem samkv. eðli málsins hljóta að vera mjög vafasöm, svo að ekki sé meira sagt, þá skuli hæstv. forsrh. taka undir það, en það skuli sjaldan bera við, þegar stjórnarandstaðan hefur rökstudda gagnrýni fram að bera.

Ég er algjörlega ósammála því sjónarmiði, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykn., að Byggðasjóður hafi á einhvern hátt misgert í framkvæmdum sínum með því að mismuna hinum einstöku byggðarlögum í landinu. Ég held, að það sé einmitt grundvallarsjónarmið, sem verður að hafa í buga, að Byggðasjóður er stofnaður og hann er starfræktur, ekki sem almennur fjárfestingar- eða lánasjóður, heldur í þeim sérstaka tilgangi að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er allt of mikið komið af því, að menn þykjast vilja þjóna þessum tilgangi, en jafnframt í hvert sinn, sem á reynir, skuli þeir tala eins og þeir vilji gera allt fyrir alla og þar með eyðileggja tilgang þessa sjóðs, sem er fyrst og fremst hugsaður og stofnaður til þess að efla jafnvægi í byggð landsins. Ég held, að hin merkilega tilraun, sem gerð var á sínum tíma með stofnun Atvinnujöfnunarsjóðsins, renni algjörlega út í sandinn, ef stjórnvöld landsins skilja það ekki, að þessi sjóður hefur sama tilgang eftir nafnbreytingu núv. ríkisstj., þó að hann sé nú kallaður Byggðasjóður. Ef menn hafa ekki í huga hinn raunverulega tilgang þessa sjóðs, eru þeir að eyðileggja starfsemi hans.

Það er enginn á móti því, að það sé lánað til framkvæmda, hvar sem er á landinu. Framkvæmdir þurfa að eiga sér stað, hvar sem er á landinu, og til þess eru hinir almennu fjárfestingar- og lánasjóðir og bankakerfið að sinna þeim verkefnum. En ef það á að stofna einn sjóð til þess að hafa það sérstaka verkefni að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þá mega menn ekki eyðileggja þann tilgang með því að ætla að reka þennan sjóð og starfrækja, sem almenna lánastofnun fyrir landsbyggðina, hvar sem er.

Ég get ekki orða bundist út af orðum hæstv. forsrh. um þetta efni. Ég vil ekki láta því ómótmælt, að stjórnvöld landsins og sjálfur forsrh. fari svo villtir vega í þessu efni, vegna þess að ég vil ekki trúa því, að hann sé í raun og sannleika andstæður því, að það séu gerðar tilraunir til þess að efla jafnvægi í byggð landsins. En ef hann er þessarar skoðunar, þá verður hann að vera sjálfum sér samkvæmur. Hann verður að stuðla að því, að Byggðasjóður sé rétt notaður og rétt starfræktur, en ekki að taka undir misskilning, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Reykn.