03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3425 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að hefja umr. um þessi mál. Hv. síðasti ræðumaður var að tala um, hvað væri rökrétt og hvað ekki væri rökrétt í þessu tali okkar hér. Það getur verið álitamál, hvað er rökrétt. Það fer eftir því, út frá hverju menn hugsa, hvaða forsendu menn gefa sér. En það er náttúrlega alveg augljóst, að hv. 6. þm. Reykn. virðist ekki gera sér grein fyrir því eða vilja viðurkenna það, að það er eitt stærsta viðfangsefni og vandamál íslensks þjóðfélags í dag að vinna að jafnvægi í byggð landsins. Það verður ekki gert nema með því að mismuna. Það þýðir ekkert að vera með orðagjálfur um stuðning við jafnvægi í byggð landsins, ef menn vilja ekki gera meira fyrir þau byggðarlög, sem þarf að aðstoða og í vök eiga að verjast, en önnur. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að leysa þetta á annan hátt. (Grípið fram í.) Það er hörmulegt til þess að vita, hvernig komið er, þrátt fyrir það að með Vestfjarðaáætluninni var brotið blað í þessum málum, byggðajafnvægismálum, með gerð byggðaáætlunar, til þess að hægt væri að vinna markvisst í þessu efni. En misnotkun þeirrar hugmyndar er svo komið, að nú telur ekkert byggðarlag sig vera fullgilt í þessu þjóðfélagi, nema það hafi byggðaáætlun fyrir sig. Það er jafnvel svo komið, að sumir eru farnir að tala um, að það þurfi byggðaáætlun fyrir Reykjavík til þess að vinna að jafnvægi í byggð landsins. Hv. 5. þm. Reykn. er svo skilningslaus á þessi mál, að hann er að harma það, eða að þm. Reykv. gangi ekki betur fram til þess að efla sinn hlut í byggðajafnvægismálunum. En hv. þm. gerir sér ekki grein fyrir því, að það eru ekki allir jafnskilningssljóir á þessa þörf og hann sjálfur. Þm. Reykv. hljóta að gera sér grein fyrir því, að við eflum ekki byggðajafnvægi í landinu með því að efla lánastarfsemi til Reykjavíkur úr þeim sjóðum, sem ætlað er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Menn verða, eins og ég sagði áðan, að gera greinarmun á almennum framförum og uppbyggingu landsins í heild, sem á að ganga jafnt yfir alla og almennar stofnanir, almennir lánasjóðir og bankakerfið í heild sinni jafnt, hvar sem er, og þeim sjóði, sem sérstaklega á að efla jafnvægi í byggð landsins og á einungis að nota í því skyni.