06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

352. mál, hitaveita á Suðurnesjum

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir fróðlega skýrslu og mikilvægar upplýsingar. Það kemur sannarlega í ljós, að þessir þýðingarmiklu framleiðslustaðir við Reykjanesið hafa næga möguleika til þess að afla sér upphitunar í sín hús með jarðvarma, og spursmálið verður því héðan í frá, hvenær rannsóknum verði lokið og einkum þá hvenær fáist niðurstaða um, hvernig millihitun sé hagkvæmust, og í þriðja lagi, hvernig fyrirtækið verði fjármagnað. Ég skal viðurkenna, að mér datt það í hug, þegar ég fór að hugsa um þessi mál, að það kynni að vera hagkvæmt að leita eftir því vatni, sem vitað er um í kaupstöðunum sjálfum. Hins vegar getur það, eins og segir í skýrslu Orkustofnunar, verið framtíðarmál, og enda þótt lögnin frá Svartsengi til Keflavíkur kosti nokkur hundruð millj. kr., er ekki vafi á því, að þetta er mjög hagstæð leið til öflunar á heitu vatni fyrir þessa kaupstaði, einkum í Grindavík, sem er aðeins í 5 km fjarlægð. Það er von mín, að allt verði gert til þess að hraða svo sem unnt er þeim rannsóknum, sem nú eru í gangi, og í öðru lagi, að þeir aðilar, sem þar um fjalla, aðstoði þessi byggðarlög í hvívetna með öflun fjár til þessara mjög nauðsynlegu mannvirkja, ekki síst þegar litið er til bæði síhækkandi verðlags á orku í heiminum og jafnvel umtals um alvarlegan orkuskort.