03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

281. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. alþm. Eðvarði Sigurðssyni, fór ég þess á leit við hv. iðnn., að hún flytti þetta frv., án þess að n. væri bundin af efni þess, og ég þakka n. fyrir góðar undirtektir við þá beiðni.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, á sér langan aðdraganda og nákvæma undirbúningsvinnu, eins og rakið er í grg. Meginefni þess er, eins og hv. form. n. tók fram, að sameina Rannsóknastofnun iðnaðarins, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðnþróunarstofnun í eina heildarstofnun og styrkja jafnframt til muna þá þjónustustarfsemi, sem þessar stofnanir hafa veitt. Jafnframt er ætlunin að tengja opinbera tækniþjónustu sem best við einstök iðnfyrirtæki, einstakar atvinnugreinar í iðnaði sem heild. Þá er frv. ætlað að tryggja nauðsynlega samhæfingu og samvinnu hinna ýmsu þátta þjónustunnar, til þess að fjármunir, starfskraftar og tæknibúnaður nýtist sem best. Enn er reynt að tryggja nokkuð áhrif starfsmanna á stjórnun stofnunarinnar og einstakra eininga innan hennar. Reynt er að tryggja Iðntæknistofnun öruggan og sjálfstæðan fjárhag ásamt sveigjanleika í starfsmannahaldi.

Áður en ég vík nánar að frv. sjálfu, vil ég nota tækifærið til þess að fjalla nokkuð um iðnaðinn almennt og sérstaklega þau verkefni, sem unnið hefur verið að innan iðnrn. til þess að tryggja framgang þeirrar iðnþróunaráætlunar, sem gerð hefur verið með tilstyrk Sameinuðu þjóðanna, en frv. er þáttur í því starfi. Hefur nokkuð verið að því spurt, hvernig sé staðið að þeim verkefnum, og m.a. flutti hv. þm. Pétur Pétursson þáltill. nýlega um framkvæmd iðnþróunaráætlunar. Hafði ég hugsað mér að greina nokkuð frá þessum störfum rn., þegar sú till. kom til umr., en gat það því miður ekki, vegna þess að ég var bundinn á mikilvægum fundi. Vil ég því nota þetta tækifæri til þess að fjalla einnig nokkuð um þau mál.

Verksmiðjuiðnaður á Íslandi er, sem kunnugt er, ungur atvinnuvegur. Fyrstu merki breytinga á handiðnaði í verksmiðjuiðnað er hægt að rekja til árabilsins milli 1920 og 1930, en það var ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld, að verksmiðjuiðnaður verður stærsti atvinnuvegur landsmanna, ef miðað er við mannafla. Óþarfi er að geta þess, að hér á landi hefur skort svo til öll hefðbundin hráefni til iðnaðar önnur en landbúnaðar- og sjávarafurðir. Vatnsorkan mun þó á komandi árum vega mjög upp á móti þessu, og hugsanlega reynast gosefni og efni úr hafinu og söltum jarðhitalegi nytsöm hráefni til stóriðnaðar á næstunni.

Þróunarstig íslensks iðnaðar er mjög misjafnt. Handverksiðnaður er enn mjög sterkur. Hér munu vera yfir 60 iðnaðarmannafélög í landinu. Skilin á milli handverksiðnaðar og verksmiðjuiðnaðar eru enn nokkuð óljós, og þarf á komandi árum að endurskoða núv. laga- og réttindaskipan.

Allt frá upphafi hafa margar greinar iðnaðar búið við mikla tollvernd og jafnvel innflutningshöft. Í slíku umhverfi getur verið óeðlilega auðvelt að stofna iðnfyrirtæki og tryggja þeim rekstrarskilyrði. Þessi mikla tollvernd var e.t.v. meginorsök afskiptaleysis opinberrar stjórnsýslu af aðbúnaði iðnaðarins. Það er ekki fyrr en eftir kollsteypuna 1967–1968, að stjórnvöld fara alvarlega að hugsa um iðnþróun. Síðla árs 1970 hófust samskipti við UNDP, sem er iðnþróunarstofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, en þau leiddu síðan til þess, að hafist var handa um gerð iðnþróunaráætlunar fyrir Ísland, sem nú liggur fyrir. — En það er ekki nægilegt að hafa þykkar bækur handa á milli um iðnþróun, ef á skortir þann almenna skilning í landinu, sem er forsenda framkvæmda. Fólkið verður að skilja, að í nánd eru meiri hlutverkaskipti milli atvinnuvega okkar. Auk þess er nauðsynlegt að afla sér þeirra verkfæra og stofnana, sem verða burðarás vaxandi iðnaðar, en Iðntæknistofnunin er einn af hornsteinum þess skipulags, sem koma þarf á.

Á þessu ári hófst afnám þeirrar tollverndar, sem iðnaðurinn býr nú við, síðan má smátt og smátt búast við stóraukinni samkeppni erlendis frá. Vegna lágrar framleiðni og lélegra afkasta verður íslenskur iðnaður ekki fær um að standast samkeppni erlends iðnaðarvarnings, nema til komi róttækar ráðstafanir í tíma. Skv. viðskiptasamningi milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu verður komin fríverslun með iðnaðarvörur milli þeirra 1. júlí 1977.

Allan 7. áratuginn var vöxtur iðnaðarins lítill. Til þess kunna að liggja ýmsar ástæður. Ein ástæðan er eflaust lítill heimamarkaður, sem bættist við takmarkaða samkeppni erlendis frá. Forsendur fyrir útflutningi voru ekki fyrir hendi. Viðhorf iðnrekenda mótuðust af innhverfum sjónarmiðum og verndarhugsunarhætti. Sú hugsun var lengi ríkjandi, að nægilegt væri að girða landið tollmúrum og sjá svo til , hvað gerðist. Vissulega er tollvernd afar mikilvæg uppvaxandi iðnaði, en hún ein er ekki nægileg. Þegar tollverndin er farin að hafa lamandi áhrif á athafnir og ákvarðanir, gegnir hún ekki þjóðhagslegum tilgangi.

Önnur ástæða kann að liggja í framleiðsluaðferðinni sjálfri, sem í reynd hefur ekki aðlagað sig eðli verksmiðjuiðnaðar. Í mörgum iðnfyrirtækjum er enn framleitt skv. sérstökum pöntunum í stað þess að framleiða vörur á lager, en á þessu er allur munur, þegar tekið er tillit til skipulags framleiðslunnar og hagræðingar hennar.

Þriðja ástæðan og ekki sú lítilvægasta liggur í þeirri staðreynd, að opinber efnahagsstefna hefur ekki haft iðnþróun og eflingu verksmiðjuiðnaðar að markmiði. Hefur það m.a. komið fram í breytingu gengisins miðað við þarfir sjávarútvegsins einhliða svo og sjálfvirku lánakerfi í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar, án þess að iðnaðurinn hafi fengið þar sambærilega aðstoð. Sem dæmi um ástandið á því sviði má nefna, að um síðustu áramót námu endurkaup Seðlabankans af viðskiptabönkunum vegna atvinnuveganna 1890 millj. kr. í landbúnaði, 502 millj. kr. í sjávarútvegi, en aðeins 425 millj. kr. í iðnaði. Hér verður að verða á alger breyting og hefur Alþingi á vissan hátt skuldbundið sig til þess, þegar aðildin að EFTA var samþykkt.

Mörg fleiri atriði mætti telja hér til, sem eru m.a. afleiðing þeirra þriggja meginástæðna, sem að framan getur. Þar að auki koma til frekari vandkvæði vegna skorts á tækniþjónustu, sem iðnaðurinn býr við. En þetta frv. á að bæta þar um. Stjórnunarmál fyrirtækja, þ.e.a.s. rekstrar. stjórnun og framleiðslustjórnun, eru í miklum molum, og er það sérstakt áhyggjuefni, hvernig þau mál verði leyst.

Til þess að geta staðist aukna samkeppni þarf að tvöfalda framleiðni á mann í iðnaðinum fram til 1980, og er það eitt meginviðfangsefni þeirrar iðnþróunaráætlunar, sem ég hef áður kynnt. Framleiðni íslensks iðnaðar er lítil, og afköst hans nema svo sem tveimur þriðju af afköstum þróaðs verksmiðjuiðnaðar og á sumum sviðum aðeins helmingi. Orsök þessa liggur fyrst og fremst í fjölbreytni framleiðslutegunda fyrirtækja og ófullkomnum stjórnunaraðferðum innan fyrirtækja.

Við stöndum einnig frammi fyrir þeirri alvarlegu staðreynd að þurfa að tryggja ört vaxandi þjóð næga og örugga atvinnu. Skv. áætlun er gert ráð fyrir, að mannaflinn muni vaxa um 1700–1800 manns árlega á tímabilinu 1970–1980. Iðnþróunaráætlunin er samin í því skyni að styrkja hvort tveggja, stöðugleika atvinnulífsins og næga atvinnu í landinu. Stöðugleiki atvinnulífsins verður ekki tryggður, nema fjölbreytnin aukist og tekjumyndun atvinnuveganna verði jafnari. Ofan á þessa mannaflaaukningu bætist sá fjöldi fólks, sem losnar hjá þeim fyrirtækjum, sem ekki munu standast aukna samkeppni erlendis frá og kunna að verða að hætta rekstri sinum. Vinnuaflsnotkun í landbúnaði er þegar í hámarki, og sjávarútvegurinn mun ekki geta tryggt miklu meiri atvinnumöguleika en nú er, þótt sóknin verði aukin. Efling iðnaðar er því lífshagsmunamál þjóðarinnar, og framtíð hennar er undir því komin, hvort takast muni að greiða iðninni að kjarna atvinnulífsins á tiltölulega skömmum tíma. Þetta atriði kann að reynast alvarlegra mál við lok þess áratugs en núverandi ástand á vinnumarkaði bendir til, ef ekki er nú þegar farið að undirbúa ný atvinnufyrirtæki.

Hefðbundin viðhorf til atvinnugreina eiga ekki lengur við, og verður að breyta fjárfestingarstefnunni í samræmi við það. Útreikningar hafa sýnt, að hver fjárfest króna í landbúnaði var á árabilinu 1951–1960 rúm 11 ár að skila sér í auknum tekjum. Sami árangur var 21/2 ár í fiskiðnaði, en 31/2 ár í verksmiðjuiðnaði, en það þykir gott hlutfall á alþjóðlegan mælikvarða. Þrátt fyrir þetta var fjárfesting í landbúnaði 115 þús. kr. á mann á ári, en aðeins 6 þús. kr. í verksmiðjuiðnaði, öðrum en fiskiðnaði. Þessi mismunur heldur áfram, eins og best sést á fjármögnunaráætlunum fjárfestingarsjóða.

Ef dregin eru saman þau meginvandamál. sem iðnaðurinn á við að stríða, er það almennt séð skortur á samkeppnishæfni við erlenda framleiðslu og óheppilegt starfsandrúmsloft, sem mótast hefur af tollverndarsjónarmiðum og ójafnri aðstöðu um opinbera fyrirgreiðslu í samanburði við sjávarútveg og landbúnað.

Þegar lög um inngöngu Íslands í EFTA voru samþykkt, var ljóst, að gera þurfti sérstakar ráðstafanir til þess að styðja íslenskan iðnað til að standast vaxandi samkeppni við tollfrjálsan innflutning og jafnframt vinna markvisst að því að hagnýta þau tækifæri, sem stærri markaðssvæði opnuðu íslenskum iðnaði. Var EFTA-aðildin einmitt réttlætt á þeim forsendum. Hét þáv, ríkisstj. samtökum iðnaðarins því að taka ýmis aðstöðumál iðnaðarins til endurskoðunar og gera ráðstafanir, sem verða mættu honum til eflingar. Meðal þeirra ráðstafana var að leita til Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP, og óska eftir tæknilegri aðstoð við skipulag og uppbyggingu iðnaðarmála á Íslandi. Í nóv. 1970 kom svo sendinefnd frá UNDP svo og fulltrúar þeirra undirstofnana innan Sameinuðu þjóðanna, sem sjá um iðnþróunarmál, þ.e. UNIDO, annars vegar og viðskipta- og verslunarmál hins vegar. Sendinefnd þessi setti síðan á laggirnar tvö samhliða tækniaðstoðarverkefni. Annað þeirra miðaði að gerð iðnþróunaráætlunar og skipulagi tækniþjónustu, en hitt fjallaði um eflingu útflutnings og sölustarfsemi fyrir iðnaðarvörur. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa nú starfað hér á landi allt frá því síðla árs 1971. Skýrslur þeirra og till. liggja nú fyrir, og hefur framkvæmd margra tillagna, sem þar koma fram, verið hafin, enda hefur ekki verið beðið sérstaklega eftir skýrslum þeirra til að hefja störf að mörgum mikilvægum viðfangsefnum. Skýrslur þessara sérfræðinga eru hin gagnmerkustu rit, og er vissulega mikill fengur í þeim til að leiðbeina ríkisvaldi, stofnunum, samtökum iðnaðarins og einstökum iðngreinum um nauðsynlegar aðgerðir. Hafa þeir einstaklingar, sem unnu að þessum verkefnum, starfað af mikilli kostgæfni og samviskusemi og sýnt næman skilning á íslenskum aðstæðum og vandamálum.

Nokkur áherslumunur er á tillögugerð þessara aðila, þar sem þeir sérfræðingar, sem fjalla um viðskipta- og verslunarmál, gera ráð fyrir, að markmið iðnþróunar sé fyrst og fremst aukning þjóðarframleiðslu og þjóðarauðs og öflug útflutningsstarfsemi í iðnaði sé burðarás iðnþróunar. Samkvæmt því leggja þeir megináherslu á aðgerðir til að efla útflutningsiðnað, markaðsleit og sölustarfsemi. Til þess að ná árangri í útflutningi og gera hann arðbæran telja sérfræðingarnir hins vegar, að auka þurfi mjög framleiðni í iðnaði með breytingum á rekstrarstjórnun, skipulagi og framleiðslutækni í fyrirtækjunum og þurfi því sérstakar ráðstafanir til að efla tækniþjónustu á því sviði. Í skýrslu sérfræðings þess, er stjórnaði starfi iðnþróunardeildarinnar, er hins vegar lögð megináhersla á, að hætta verði á atvinnuleysi við síðari hluta þessa áratugs, þegar samkeppni við innflutning vegna tollalækkana tekur að gæta verulega og þegar hinir stóru árgangar fólks, sem nú eru á framhaldsskólastigi koma á vinnumarkaðinn. Er það álit hans, að tryggja þurfi allt að 10 000 ný starfstækifæri í iðnaði fyrir árið 1980. Telur sérfræðingurinn, að gera þurfi víðtækar ráðstafanir af hálfu hins opinbera til þess að efla atvinnulíf og forða frá atvinnuleysi á þessum tíma. Þróun hefðbundinna atvinnuvega: landbúnaðar, fiskveiða og fiskiðnaðar, sé öll í þá átt að auka framleiðni og jafnvel fækka fólki þrátt fyrir aukningu framleiðslu og þrátt fyrir full yfirráð yfir landgrunninu. Munu þau 17–18 þús. manns, sem koma til starfa fram til 1980, því í verulegum mæli leita til annarra atvinnuvega og séu mestir möguleikar til atvinnusköpunar í iðnaði. Telur sérfræðingurinn, að aðgerðir stjórnvalda hljóti því að mótast að verulegu leyti af þessum samkvæmt hans áliti fyrirséða vanda og þurfi að koma til jafnvel enn stórfelldari fjárfestingarátök en nú eiga sér stað við stóraukningu togaraflotans og endurnýjun fiskvinnslustöðvanna. Bendir hann á, að annars staðar á Norðurlöndum hafi hið opinbera veitt iðnaðinum viðtæka aðstoð til að aðlaga sig nýjum samkeppnisaðstæðum. Þrátt fyrir það hafi orðið miklir erfiðleikar í einstökum greinum og atvinnuskortur að undanförnu verið verulegt vandamál í Svíþjóð, þrátt fyrir háþróaðan iðnað þar í landi. Vandi Íslands mun jafnvel verða enn meiri vegna vanþróunar í iðnaði hérlendis og vegna hins sveiflukennda ástands efnahagslífsins hér á landi, sem veldur miklum erfiðleikum fyrir rekstraraðstöðu iðnaðar. Hann bendir jafnframt á nauðsyn þess að tvöfalda framleiðni í iðnaði til að tryggja samkeppnishæfni yfir innflutning og verði það gert án þess að hefja útflutning í sama mæli. Muni það valda fækkun atvinnutækifæra í iðnaði, sem auki hættuna á atvinnuleysi vegna fólksfjölgunar.

Alvöruorð sérfræðingsins kunna að virðast fjarstæð um þessar mundir, þótt margir minnist enn ástandsins á árunum 1968 og 1969. Ekki er þó hægt að ganga fram hjá slíkum aðvörunum, og vinnur því áætlanadeild Framkvæmdastofnunar að nánari athugun mannafla, spáð fyrir atvinnulífið í heild fram til 1980, og jafnframt að könnun á stöðu og möguleikum einstakra greina iðnaðar. Útkoman úr þeim athugunum hlýtur að móta að verulegu leyti umsvif opinberra aðgerða til stuðnings iðnaði. Í sambandi við mótun slíkra aðgerða er þó ljóst, að jafnframt verður að gæta þess, að kappið við að tryggja atvinnu verði ekki til þess að stuðla að láglaunaiðnaði, sem hvorki getur staðist við hlið háframleiðandi sjávarútvegs og fiskiðnaðar né heldur staðist tollfrjálsa samkeppni við erlendan iðnað til lengdar.

Ljóst er, að gerð iðnþróunaráætlunar einnar án hliðstæðra áætlana fyrir aðrar greinar atvinnulífsins hefur í för með sér ákveðin vandamál að því er varðar heildaryfirsýn og hættu á einstrengingslegum deilusjónarmiðum í þágu eins atvinnuvegar, og verður við það að viðurkenna það, sem er, að deilusjónarmíða hefur oft og tíðum gætt verulega í opinberri stjórnsýslu á umliðnum árum, en iðnaður venjulega þá orðið afskiptur. Enda þótt iðnþróunaráætluninni sé ekki ætlað að söðla hér algerlega um og gera iðnað að sérstöku eftirlætisbarni, sýnir hún fram á, að iðnaður hlýtur í vaxandi mæli að verða undirstaða aukinnar verðmætasköpunar og atvinnuaukningar, og jafnframt, að á næstu 5–6 árum verðum við að gera sérstakt átak til að leggja grundvöllinn að þeirri þróun, ef við eigum ekki að lenda í meiri háttar erfiðleikum á næstunni. Eitt af frumskilyrðum fyrir þeirri þróun er, að iðnaðurinn njóti jafnréttis um opinbera fyrirgreiðslu og starfsaðstöðu á við aðra atvinnuvegi og hætt verði mismunun milli þeirra.

Í till. beggja aðila sérfræðingahópa Sameinuðu þjóðanna er lagt til, að sett verði á stofn sérstök nefnd eða stofnun, er séð geti að verulegu leyti um framkvæmd iðnþróunaráætlunar og haft heildaryfirsýn yfir starfið. Að athuguðu máli hefur iðnrn. skipað n. og falið henni umsjón með máli þessu fyrir sína hönd. Í nefndarskipun þessari, sem ekki byggist á tilnefningu hagsmunaaðila, er reynt að gæta tengsla við þær stofnanir og þau samtök, sem helst þarf að sameina um störf að iðnþróunaráætluninni, ef árangur á að nást. Í n. eiga sæti Bjarni Bragi Jónsson forstöðumaður áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Davíð Scheving Thorsteinsson framkvæmdastjóri, Sigurður Markússon framkvæmdastjóri hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, Sigurgeir Jónsson aðstoðarbankastjóri í Seðlabankanum, Þröstur Ólafsson hagfræðingur í iðnrn. Dr. Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur er formaður, og ritari n. er Guðmundur Ágústsson hagfræðingur. Formaður og ritari eru í fullu starfi fyrir n. Í einstökum atriðum eru verkefni n. eftirfarandi:

1) Endurskoðun till. um iðnþróun á Íslandi, sem unnar hafa verið á vegum UNDP.

2) Frumkvæði að breyt. á lögum og starfsháttum hins opinbera, sem snerta ytri aðstæður til iðnrekstrar.

3) Vinna að endurbótum innan iðnfyrirtækja.

4) Frumkvæði um samvinnu og samskipti iðngreina og iðnaðarhópa.

5) Að leggja áherslu á að efla sölu- og markaðsmál útflutningsiðnaðarins.

6) Láta til sín taka ný iðnaðarverkefni, m.a. í samvinnu við viðræðunefnd um orkufrekan iðnað.

7) Gera till. um ráðstöfun framlags Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNIDO. Nefnd þessi hóf störf í sept. í fyrrahaust, en áður starfaði hluti nm, í vinnuhópum að athugunum á skýrslum sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna. Í áliti vinnuhópsins, sem liggur til grundvallarstarfi iðnþróunarnefndar, eru markmið iðnþróunaráætlunar endurskoðuð og till. um aðgerðir gagnrýndar og metnar. Kemur þar fram, að nauðsynlegt sé að huga í ríkum mæli að ýmsum þáttum í löggjöf og starfsemi hins opinbera, er varða aðstöðumál iðnaðarins, jafnframt því sem unnið er að þeim tæknilegu viðfangsefnum, sem till. hinna erlendu sérfræðinga fjalla aðallega um. Hefur nefndin m.a. verið vettvangur umræðna um tollamál iðnaðarins, gengismál, fjallað um aðstoð við útflutningsiðnað vegna rekstrarerfiðleika á síðasta ári o.fl. Þá hefur tekist samvinna með n. við Iðnþróunarsjóð og Iðnrekstrarsjóð og samtök iðnaðarins um stuðning við einstök verkefni vegna iðnþróunaráætlunar, og er það framhald af því starfi, sem unnið hefur verið á vegum iðngreinanefnda þeirra, sem starfað hafa við úttekt á einstökum greinum iðnaðarins á vegum iðnrn. Í megindráttum lítur n. á starfssvið sitt sem aðstoð við iðnrn. um mótun hagstæðs iðnaðarandrúmslofts eða jarðvegs, sem öflugur iðnaður getur sprottið úr með því að verka sem hvati á stofnanir, sem vinna að málefnum iðnaðarins, og koma í framkvæmd verkefnum, sem ætla má, að iðnaðinum geti orðið til framdráttar bæði á grundvelli till. þeirra, sem frá sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna hafa komið, og annarra verkefna, sem mótast munu á næstunni.

Eitt af mikilvægustu viðfangsefnum iðnþróunaráætlunarinnar er efling iðntækniþjónustu, og frv. það, sem hér liggur fyrir, er einmitt framkvæmd á því atriði og gerir ráð fyrir sameiningu og eflingu þeirra þriggja rannsókna- og tæknistofnana, sem starfað hafa fyrir iðnaðinn. Með sameiningu og breytingum á innra skipulagi þessara stofnana binda flestir og ekki síst samtök iðnaðarins miklar vonir við þróttmeiri og markvissari starfsemi þessara stofnana en verið hefur og að jafnframt opnist tækifæri til að takast á við stærri viðfangsefni í þágu íslensks iðnaðar en áður hefur tíðkast. Hin góða reynsla á öðrum Norðurlöndum af starfi hliðstæðra iðntæknistofnana og þætti þeirra í að leysa aðlögunarvandamál iðnaðarins þar við inngöngu í markaðsbandalögin bendir til þess, að hér sé um afar mikið nauðsynjamál að ræða.

Með starfi svokallaðra iðngreinanefnda, sem efnt var til með samstarfi rn., Iðnþróunarsjóðs og samtaka iðnaðarins, voru gerðar kannanir á samkeppnisaðstöðu nokkurra iðngreina og mótaðar till. um aðgerðir til eflingar þeim. Í nokkrum tilvikum hefur þessu starfi verið fylgt eftir með aðgerðum til endurbóta á rekstrarstjórnun, skipulagi og framleiðsluaðferðum í einstökum fyrirtækjum eða hópum fyrirtækja. Hefur í mörgum greinum náðst umtalsverður árangur nú þegar, svo sem í nokkrum fyrirtækjum í prjóna- og fataiðnaði og í tréiðnaði, og nú eru á prjónunum viðtæk verkefni í þágu skipasmiða, trésmiðaiðnaðar og málmiðnaðar. Það hefur nokkuð háð þessu starfi, að fyrirtækin hafa reynst misjafnlega viðbúin að taka á móti slíkri starfsemi og jafnframt hefur verið erfiðleikum bundið að fá nægilegt vel menntað lið til að bera það starf uppi, og er efling og sameining tæknistofnana iðnaðarins ein meginforsenda þess, að þetta mikilvæga starf verði unnið af krafti.

Hinir miklu erfiðleikar útflutningsiðnaðarins, sem hlotist hafa af völdum gengisbreytinga og óhagstæðrar þróunar á afurðaverði, hækkana á hráefnum, launum og öðrum tilkostnaði, hafa valdið því, að útflutningur iðnaðarvara hefur ekki aukist eins mikið og æskilegt er að undanförnu, enda þótt um verulega aukningu hafi verið að ræða. Jafnframt hefur þensla innanlands og aukinn kaupmáttur valdið mikilli eftirspurn innanlands, og hefur dregið úr viðleitni fyrirtækja til útflutnings í bili. Þó verður að telja, að mikilla breytinga á viðhorfum iðnaðarframleiðenda verði vart, og í mótun eru samtök um útflutningsstarfsemi í húsgagnaiðnaði, meðal prjónafyrirtækja, gull- og silfursmiða o.fl., sem starfa í náinni samvinnu við útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Nokkur umræða hefur farið fram um það, í hvaða mæli Útflutningsmiðstöðin eigi sjálf að taka virkan þátt í sölustarfseminni í stað þess að vera fyrst og fremst hvetjandi og ráðgefandi. Hafa erlendir sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna lagt til, að stofnuð verði útflutningssamtök innan afmarkaðra sviða, er starfi í nánu sambandi við Útflutningsmiðstöðina, en án formlegra tengsla og ábyrgðar gagnvart henni. Hvort þetta form yrði það rétta, er enn ekki reynt, en fylgst verður náið með þróun þeirra hópa, sem nú eru komnir á fót.

Þá skal þess getið, að ríkisstj. hefur, eins og ég hef áður rakið hér á þingi, ákveðið að heimila endurgreiðslu áætlaðs hluta tolls og söluskatts af þáttum fjárfestingar og aðfanga í kostnaðarverði iðnaðarvarnings, sem seldur er til útflutnings. Er þessi hluti áætlaður 21/2% af söluverðmæti útflutningsafurða. Er vonast til, að þetta jafni aðstöðu íslensks iðnaðar gagnvart erlendum fyrirtækjum, sem ekki borga slík gjöld. Iðnrekstrarsjóði var komið á laggirnar ekki alls fyrir löngu og tók til starfa um leið og iðnþróunarnefnd og hefur tekist náið samstarf þar á milli. Iðnrekstrarsjóði er ætlað það hlutverk að efla sérstaklega útflutning iðnaðarvarnings, bæta skipulag og auka framleiðslu í iðnaði. Hefur sjóðurinn stutt við starfsemi hjá Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, m.a. með myndun útflutningshóps um prjónavörur. Þá styður sjóðurinn nokkur sérstök verkefni á sviði vöruþróunar og nýrra iðngreina, sem unnið er að á vegum gosefnanefndar, Raunvísindastofnunar háskólans og fleiri aðila. Hin aukna eftirspurn eftir stuðningi við ýmis iðnþróunarverkefni, sem komið hafa fram á sjónarsviðið á undanförnum vikum og mánuðum, gefur góðar vonir um öflugt starf á næstu árum og sýnir þörfina fyrir sjóð með sveigjanlegum starfsramma til þess að veita hagstæð lán og styrki til verkefna, sem ekki eru öll innan starfsramma venjulegra stofnlánasjóða eða hægt væri að endurheimta beint af tekjum í nýjum eða vaxandi rekstri. Iðnþróunarsjóður hinn norræni hefur vissulega orðið til mikillar hvatningar og unnið brautryðjandastarf í þessum efnum, og er sýnilega þörf á auknu innlendu fjármagni í sama skyni.

Verkefni þau, sem till. sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna fjalla um, svo og önnur verkefni í iðnaði munu þarfnast mjög mikils fjármagns á næstu árum. Verulegan hluta af þeirri fjárþörf yrði væntanlega að leysa með tilfærslum og lánsfjármagni hinna stærri fjárfestingasjóða, Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs o.fl., á hliðstæðan hátt og nú er gert vegna skipakaupa og uppbyggingar fiskvinnslustöðva, en hluta af fjárþörfinni mætti leysa með eflingu lánasjóða iðnaðarins sjálfs, t.d. með auknum framlögum úr iðnaði í formi hækkaðs iðnlánasjóðsgjalds, sem yrði tekið bæði af vörum, sem framleiddar eru hér innanlands, og innfluttum iðnaðarvörum, og auk þess mótframlögum frá hinu opinbera. Jafnframt er í athugun starfræn sameining þeirra sjóða, sem iðnaðinum þjóna, til þess að fá sem markvissasta nýtingu fjármagns og uppbyggingu samkeppnishæfra fyrirtækja. Munu á næstunni koma fram till. í þessum efnum, sem verða lagðar fyrir þing að sjálfsögðu.

Nýlega voru samþ. á Alþ. breyt. á tollskrá, þar sem tollar af vélum og tækjum iðnaðar voru flestir felldir niður, tollar af rekstrarvörum voru lækkaðir verulega og gerðar ýmsar leiðréttingar á tollflokkum og tollum einstakra vörutegunda til að greiða fyrir uppbyggingu og samkeppnisaðstöðu einstakra iðngreina. M.a. voru mikilvægar breyt. gerðar til að greiða fyrir rafeinda- og raftækjaiðnaði, en ýmsir tækjahlutar, sem nauðsynlegir eru í slíka framleiðslu, voru mjög hátt tollaðir. Má t.d. áætla, að þessi agnúi í tollflokkun hafi á sínum tíma staðið í vegi fyrir því, að fiskleitartæki yrðu smíðuð og þróuð hér innanlands, en í stað þess smíðuðu Norðmenn og fleiri tækin og reyndu þau síðan og prófuðu í íslenskum skipum að verulegu leyti.

Á móti þessum tollalækkunum, sem að framan greinir, kemur þó hækkun söluskatts, og er þá þáttur söluskatts af innflutningi fjárfestingarvöru og ýmissa aðfanga orðin langstærsti liðurinn, sem skekkir kostnaðarmynd íslensks iðnaðar í samkeppni við erlendan. Væntanlega verður þetta mál ekki leyst að fullu nema með tilkomu virðisaukaskattkerfis. Þær miklu sveiflur, sem stöðugt verða í afkomu sjávarútvegs, eru einn megináhrifavaldur á viðskiptastöðu okkar við útlönd og þar með gengi íslensku krónunnar, sem ætlað er að stjórna heildarafkomu eða kostnaðarhlutföllum atvinnulífsins gagnvart útlöndum.

Á hinn bóginn er afkoma iðnaðar og sjávarútvegs oft í litlu innbyrðis samræmi, og valda þá hin ráðandi áhrif sjávarútvegsins miklum sveiflum í iðnaði. Hefur því vaknað sú spurning, hvort unnt væri að finna aðferð til að jafna úr þessari sveiflu og misræmi milli þessara höfuðatvinnuvega, t.d. með öðru hagstjórnartæki, sem starfaði inn á við, til að jafna kostnaðar- og framleiðsluhlutföll atvinnuveganna innbyrðis. Sérstaklega er þetta mikilvægt, ef innlendur iðnaður í samkeppni við innflutning eða útflutningsiðnaður eiga að geta þrifist, t.d. á tímum velgengni í sjávarútvegi, þegar arðsemi hans, kaupgreiðslugeta og aðdráttarafl er sem mest. Í þessu sambandi varpaði ég fram í fyrra hugmynd um sérstakan jöfnunarsjóð, eins konar verðjöfnunarsjóð fyrir alla útflutningsframleiðsluna. Þar sem vandamál iðnaðar eru þó yfirleitt ekki af völdum verðþróunar á afurðum og eru jafnframt mismunandi eftir greinum, er erfitt að setja reglur um greiðslur í og úr slíkum sjóði fyrir iðnaðinn. Vafalaust yrði að hafa slíkan jöfnunarsjóð innan hverrar greinar. Hefur jafnvel komið fram sú hugmynd, að hugsanleg lausn þessa máls væri rýmkuð varasjóðsákvæði í skattalögum fyrir þau fyrirtæki, sem stunda útflutning, þannig að leyft yrði að leggja í sérstakan varasjóð eða verðjöfnunarsjóð ákveðið hlutfall af útflutningsverðmæti, þegar hagnaður verður. Þetta vandamál er að sjálfsögðu allflókið, en er til komið vegna sérkenna efnahagskerfis okkar, og ber að leita lausnar á því.

Í till. sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna eru miklar vonir bundnar við ýmis ný iðnaðarverkefni og stóriðjuverkefni tengd nýtingu innlendra auðlinda, sem talin eru hafa sérstakt gildi til að auka þjóðartekjur og verðmætasköpun og þar með hin efnahagslegu lífskjör í landinu, þótt þau veiti ekki mörgu fólki starf. Allmörg slík verkefni hafa verið til athugunar á vegum iðnrn. að undanförnu, og eru sum þeirra nú á því stigi að geta orðið að veruleika.

Fyrir skömmu hóf Þörungavinnslan framkvæmdir með stofnun rekstrarfyrirtækis, og eru pantanir hafnar á tækjum vegna hennar. Borist hafa mjög jákvæðar umsagnir um hagkvæmni og tæknilegan grundvöll saltverksmiðju á Reykja nesi. Er hafinu undirbúningur að lokahönnun og athugun á leiðum til að koma því fyrirtæki í framkvæmd. Skylt er að geta þess, að undirbúningur þessara tveggja mála var gerður á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, sem vísaði málunum til ríkisstj. haustið 1972.

Undanfarin tvö ár hefur starfað á vegum iðnrn. starfshópur um rannsóknir á hagnýtingu gosefna. Hefur þar verið lagður grundvöllur að mörgum hugsanlegum leiðum til framleiðslu iðnaðarafurða, og munu á næstunni gerðar hagkvæmnikannanir á framleiðslu gosullar, vinnslu perlusteins, og jafnframt mun fara fram tilraunaþensla á perlusteini, tilraunaframleiðsla á vikur og perlusteinsplötum. Þá eru að hefjast á vegum gosefnanefndar rannsóknir á framleiðslu og notkun trefja úr basalti til framleiðslu á plötum og öðrum einingum til margs konar nota í byggingariðnaði. UNIDO hefur veitt mikilvæga aðstoð við framgang gosefnarannsókna, við útvegun sérfræðinga til einstakra verkefna innan þeirrar starfsemi.

Málmblendibræðsla í Hvalfirði hefur verið undirbúin af viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, og hefur það mál verið kynnt öllum stjórnmálaflokkunum til þess að undirbúa afgreiðslu þess hér á þingi. Bygging iðnaðarhafnar í Hvalfirði í sambandi við slíka verksmiðju gæti hugsanlega haft nokkra þýðingu fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu, t.d. í sambandi við perlusteinsvinnslu.

Með sérfræðilegri aðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna var gerð byrjunarathugun á framleiðslu á títanoxýði og hrájárni úr títansandi frá Afríku. Voru niðurstöður mjög jákvæðar. Framhald málsins mun háð gagnkvæmum áhuga Íslands og þess lands, sem selja mundi hráefni og væntanlega yrði Gambía. Hefur verið undirrituð gagnkvæm viljayfirlýsing um málið milli Íslands og Gambíu, og er það til nánari athugunar. M.a. mun fljótlega fara íslenskur jarðfræðingur til Gambíu til frekari athugunar á þessu máli.

Súrálsframleiðsla er af sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna talin geta haft möguleika hérlendis, ef beitt yrði sérstökum varmafrekum framleiðsluaðferðum og unnið úr ákveðinni gerð hráefnis. Stendur til, að hagkvæmnikönnun á þessu máli verði gerð á næstunni.

Ýmis önnur ný iðnaðarverkefni koma til álita, og má sérstaklega benda á nauðsyn þess að efla tæknilega þekkingu og koma á fót fyrirtækjum, sem annast gætu ýmsa undirstöðuþætti í venjulegum framleiðsluiðnaði, eins og málmsteypu, mótasmiði og aðrar tegundir málmbreytingaraðgerða fyrir málmiðnað. Ýmsar tækninýjungar og iðnaðarafurðir, sem t.d. eru tengdar sjávarútvegi, gætu þróast hérlendis og komist á framleiðslustig, ef vel væri að slíku starfi búið, t.d. með öflugu starfi tæknistofnana í samvinnu við iðnfyrirtæki og með fjárhagslegum stuðningi hins opinbera og iðnaðarþjóðanna. Á þennan hátt hefur fiskkassagerð verið undirbúin, og liggur frv. fyrir þingi um stofnun undirbúningsfyrirtækis um málið, en það hefur því miður tafist furðulengi í hv. iðnn. Verkefni á sviði nýs iðnaðar þurfa yfirleitt mjög langan undirbúningstíma og eru dýr í þróun. Er því nauðsynlegt að byrja fljótt á undirbúningi viðfangsefna framtíðarinnar og legg,ja grundvöllinn að tækniþróun, sem e.t.v. leiðir ekki til ákvörðunar um framleiðslu fyrr en eftir 5–10 ár.

Af framansögðu ætti að vera ljóst, að framkvæmd iðnþróunar er ekki aðgerð, sem hefst þá fyrst, þegar fyrir liggur bók um till. erlendra sérfræðinga, né byggist hún á átaki ríkisstj. einnar, eins og margir virðast telja. Þetta er að sjálfsögðu þjóðhagsleg þróun, sem stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar verða að vera þátttakendur í. Í þjóðfélagi, sem stuðst hefur við fiskveiðar og landbúnað um langan aldur, er þróunin ekkert síður sálræn en tæknileg, og tekur því nokkurn tíma að koma henni fram. Ríkisvaldið verður að sjálfsögðu að hafa frumkvæði að því að tryggja aðstæður til þess, að þróunin geti orðið. Vilji þingsins kemur hins vegar skýrast og raunhæfast fram í undirtektum við þau frv., sem nú liggja fyrir eða lögð verða fram á næstunni og snerta iðnaðinn, og að einstakir þm. kynni sér málefni og vandamál iðnaðarins í meira mæli en verið hefur.

Ég mun þá víkja örlítið nánar að Iðntæknistofnuninni, sem þetta frv., sem hér er til umr., fjallar sérstaklega um. Eins og áður segir, er búið að semja iðnþróunaráætlun fyrir árin 1973.–1980, og hún er í tvennu lagi: Annars vegar áætlun um eflingu útflutningsiðnaðarins, hins vegar um útflutningsaflandi starfsemi. Einmitt meginverkefni þess hluta, sem snýr að útflutningsiðnaði, sem í reynd snertir allan almennan iðnað, eru breyttar ytri aðstæður til iðnaðarstarfsemi. En meginstoð allra þeirra miklu breytinga, sem gera þarf í iðnaðinum, ef ekki á að sigla honum í strand, er uppbygging Iðntæknistofnunar. Hún á síðar í nánu samstarfi við fyrirtæki og stjórnvöld að hafa frumkvæði að hvers konar æskilegum breytingum. Núv. stofnanir geta ekki að óbreyttu tekið að sér þau margvíslegu verkefni, sem Iðntæknistofnuninni er ætlað að leysa. Fyrirmynd þessarar stofnunar er það, sem á Norðurlöndum er kallað Teknologisk institut. Iðntæknistofnun Íslands er ætlað það hlutverk fremur öðrum að auka samkeppnishæfni þess iðnaðar, sem til er í landinu, og aðstoða við þróun nýrra iðngreina. Til þess að svo megi verða, er þörf gerbreytinga í rekstri fyrirtækja, bæði stjórnunarlega og á framleiðslusviðinu. Iðntæknistofnuninni er ætlað að veita fyrirtækjum og iðnaðinum í heild margs konar þjónustu, sem hann nú fær annaðhvort ekki eða í mjög litlum mæli. Þarfir iðnaðarins fyrir margs konar þjónustu og aðstöðu má styðja ýmsum rökum. Iðnfyrirtæki eru yfirleitt mjög lítil og geta ekki veitt sér sjálf þá sérhæfðu þjónustu, sem nútímaiðnaður þarf á að halda. Íslenskur iðnaður stendur á vegamótum í þróun sinni, bæði að því er varðar framleiðslu og markaðsaðstöðu. Iðntæknistofnuninni er ætlað að veita margs konar beina aðstoð til fyrirtækja, svo sem við bókhald, hönnun op framleiðsluval. Hagræna og tæknilega ráðgjafarþjónustu þarf að veita, standa að stuðningsaðgerðum og stunda rannsóknir, einnig standa að vöruþróun og þróun framleiðsluaðferða, t.d. í sambandi við innlend hráefni og orku.

Atvinnulýðræði er mikið til umr. um þessar mundir. Menn eru þó ekki á eitt sáttir um gildi þess, einkum að því er varðar aðild starfsmanna að stjórnun einkafyrirtækja. Þykir ýmsum sem slíkt sé yfirklór eitt, til þess fallið að dylja andstæðuna milli eigenda fyrirtækisins og launþega þess, fullkomið atvinnulýðræði verði ekki að veruleika, fyrr en einkaeign framleiðslutækja er úr sögunni. Hér er um að ræða grundvallaratriði í efnahagskerfi okkar og flestra annarra ríkja, sem ég ætla ekki að ræða í heild í þetta sinn, en þó mætti kannske víkja að því. Þarna er að finna eina meginástæðuna fyrir þeirri verðbólguþróun, sem barist er við, bæði hér á landi og annars staðar. En þegar einkafyrirtækjum sleppir og til koma stofnanir og fyrirtæki í félagslegri eign, virðist einsýnt, að hlíta beri þeirri kröfu tímans, að starfsmenn slíkra fyrirtækja taki þátt í stjórnun þeirra, ekki siður en aðrir aðilar, sem kunna að eiga hagsmuna að gæta. Þegar rétt er á haldið, hefur slík þátttaka margvísleg jákvæð áhrif á starfsemi stofnunarinnar, sem segja til sin bæði út á við og inn á við. Einnig má benda á hina starfrænu kosti, þ.e. skipulagningu starfs á grundvelli verkefna og með hópstarfi. Hefur það sýnt sig að auka sköpunarmátt starfsmanna og tryggja áhugavekjandi starfsviðhorf.

Í heilbr.- og trmrn. og í iðnrn. hefur þegar verið starfað nokkuð að því að auka áhrif starfsmanna á stjórnun þeirra stofnana, sem heyra undir þessi rn. Nægir þar að nefna sem dæmi reglugerð um ríkisspítala, sem sett var um síðustu áramót, og um iðnaðarfyrirtæki, svo sem um Sementsverksmiðju og Landssmiðju, þar sem slík samvinna er komin á tilraunastig. En raunar er þetta allt saman tilraunastarfsemi, og verður vafalaust margra breytinga þörf á því sviði, áður en vel er við það unandi. Það er í samræmi við þessa heildarstefnu, að í þessu frv. er gert ráð fyrir verulegum áhrifum almennra starfsmanna í öllum þrepum stjórnstiga hinna væntanlegu stofnana. Þannig eiga allir starfsmenn skorar sæti á skorarfundum með fullum réttindum og gera m.a. till. um val skorarformanns. Sameiginlegur fundur starfsmanna gefur umsögn um val forstöðumanns deildar. Forstöðumaður deildar skal gangast fyrir reglubundnum fundum allra skora deildar. Starfsfólk kýs einn fulltrúa í stjórn á sameiginlegum fundi, og stjórn skal halda fundi með starfsmönnum a.m.k. einu sinni á ári hverju.

Það hefur háð núverandi iðntækniþjónustu allmjög, að tengsl hennar við iðnaðinn sjálfan hafa ekki verið nægilega traust. Frv. er ætlað að tryggja verulegar úrbætur að þessu leyti. Þar er lögð aukin áhersla á ráðgjöf og fræðslu, upplýsingaþjónustu o.fl. Þar er gert ráð fyrir tilkomu sérstakra ráðunauta, sem starfi í sem nánustum tengslum víð iðnfyrirtækin sjálf, — tilkomu tengimanna frá iðnaðinum eða einstökum iðngreinum, sem fylgjast með starfi einstakra skora og vinna þannig með starfsmönnum stofnunarinnar, — tilkomu fræðsludeildar, sem hafði það sérstaka hlutverk að skipuleggja og hafa umsjón með fræðslustarfsemi Iðntæknistofnunar, aðild heildarsamtaka iðnaðarins að stjórn Iðntæknistofnunar, sem er raunar með svipuðum hætti og aðild að stjórn núv. stofnana. Hins ber þó að gæta, að stjórninni er ætlað mun mikilvægara hlutverk en nú tíðkast. Gert er ráð fyrir tengslum við iðnaðinn í sambandi við einstök verkefni, en ekki formbundna fulltrúaskipan til óskilgreindra starfa, eins og nú er. Nauðsynleg forsenda þess, að tengslin við iðnaðinn verði eins traust og að framan greinir, er sú, að stofnuninni geti haldist á hæfu starfsfólki til að annast þessa hlið starfseminnar, sem hvílir t.a.m. á væntanlegum ráðunautum. Slíkt starfsfólk yrði um leið ágætlega liðtækt til ýmissa annarra starfa, t.d. í iðnfyrirtækjunum sjálfum. Þess vegna er mjög líklegt, að aðrir aðilar í þjóðfélaginu muni sækjast eftir þessum starfskrafti.

Þetta er ein helsta ástæða þess, að frv. gerir ráð fyrir nokkuð sveigjanlegra starfsmannahaldi á Iðntæknistofnun en nú tíðkast hjá flestum ríkisstofnunum, sbr. 15. gr. og aths. við hana, en þar er gert ráð fyrir bæði fastri ráðningu, ráðningu til ákveðins tíma og lausráðningu. Rétt er þó að leggja áherslu á það, að hér er farið eins vægt í sakirnar og nokkur kostur er, ef markmiðið á að nást.

Upphafleg ákvæði 14. og 15. gr. ullu á sínum tíma nokkrum ágreiningi, þar eð fjmrn. var þeim andsnúið. En á hinn bóginn hafa allir aðrir málsaðilar, sem frv. hefur verið borið undir, lagt mikla áherslu á, að einmitt þessi ákvæði frv. nái fram að ganga. Með samráði við iðnaðinn hefur endanlegri gerð frv. verið breytt þannig, að sá sveigjanleiki í launakerfi, sem gert hafði verið ráð fyrir, hefur verið minnkaður. Þeirri hugmynd hefur verið hreyft, að leysa megi starfsmannavandann með því, að Iðntæknistofnun veiti verkefnum aðeins forstöðu eða taki frumkvæði að þeim, en aðrir aðilar taki að sér hita og þunga sjálfs verksins. Margs konar annað fyrirkomulag er hugsanlegt til að auka sveigjanleika kerfisins án þess að mynda almennt fordæmi fyrir ríkiskerfið í heild. Forstöðumenn stofnana hafa í reynd mun meira svigrúm í launaákvörðunum en oft er fullyrt, ekki síst eftir tilkomu Iðnrekstrarsjóðs, sem getur veitt styrki til stofnana til einstakra verkefna. Reyna verður til þrautar núv. kerfi, og er það trú mín, að það hindri ekki raunhæfa framkvæmd iðnþróunar.

Í 14. gr. frv. er að finna sérstök ákvæði um tekjur Iðntæknistofnunar, og miða þau að því að tryggja henni öruggan og sjálfstæðan fjárhag, án þess þó að óhæfilegur stirðleiki komi til. Er m.a. gert ráð fyrir heimild til að koma á fót sérstökum tekjustofnum vegna stofnunarinnar, eins og ég gat, um áðan, og gætu þeir raunar runnið saman við önnur gjöld, sem ná eru lögð á íslenskan iðnað. Margir og smáir svokallaðir markaðir tekjustofnar hafa að sjálfsögðu í för með sér ýmsa annmarka, t.a.m. getur þurft nokkuð nostur til að innheimta tekjurnar, og oft þróast þessir tekjustofnar þannig á nokkrum árum, að þeir verða í engu samræmi við þörfina, sem þeim var upphaflega ætlað að mæta. Draga má úr þessum síðari ágalla með því að tryggja sem nánust tengsl milli gjaldstofnsins, sem lagður er á, og útgjaldanna, sem á að mæta. Á hitt ber hins vegar einnig að líta, að helstu tekjustofnar ríkissjóðs virðast nú eiga vandi óvinsældum að fagna meðal ýmissa stjórnmálamanna og þeirra, sem trúa þeim, þannig að tekjustofnar, sem markaðir eru tilteknum verkefnum, ættu að geta tryggt aukin skilning á þessu atriði. Þó er rétt að leggja áherslu á það, að í frv. er ekki um að ræða markaðan tekjustofn í eiginlegum skilningi þess hug taks. Þetta er ekki tekjustofn, sem hægt er að byggja innheimtu á. Til þess þarf sérstaka ákvörðun Alþ. Lægri mörkin, 0.2%, eru nálægt því, sem nú er greitt til sömu stofnana, og er það raunar allt of lítið. Hækka þarf þessa fjárveitingu mjög verulega. í því sambandi er rétt að benda á, að samkv. athugunum Rannsóknaráðs ríkisins er jafngildi 0,16% af vinnsluvirði iðnaðar og byggingarstarfsemi varið til rannsóknar- og þróunarverkefna. Í landbúnaði er sama tala 1.16% en í sjávarútvegi 1.27%. Af því heildarfjármagni, sem rennur til rannsókna og þróunar í landinu, fara aðeins 4.7% til almenns iðnaðar og byggingarþjónustu, til sjávarútvegs fara 30.9%, en landbúnaður fær 18.7%. Á sama tíma er áætlað vinnsluvirði í iðnaði og byggingarstarfsemi yfir 14 milljarðar, en samanlagt í landbúnaði og sjávarútvegi aðeins rúmir 10 milljarðar. Það er því sýnt, að auka þarf framlagið til iðnaðar verulega, ef íslenskt atvinnulíf á ekki að staðna.

Ég hygg, að þess sé ekki þörf hér að fara náið í einstakar greinar frv., heldur vísa í þess stað til grg., sem er að minni hyggju skýr og ýtarleg.

Það er samdóma álit þeirra, sem um iðnaðarmál fjalla, að samþykkt þessa frv. sé alger forsenda frekari átaka í iðnaðarmálum. Síðan munu fylgja fleiri frv., m.a. um starfsemi og samhæfingu lánasjóða iðnaðarins, eins og ég gat um áðan.

Ég gat þess í upphafi, að ég hef beðið hv. iðnn. að flytja þetta mál. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. sú, að hér er komið upp illu heilli það andrúmsloft á þingi, að mál eru vegin og metin dálítið eftir því, hvort þau eru flutt af ríkisstj. eða ekki flutt af ríkisstj., og mönnum finnst, að það geti farið vel á því að reyna að koma höggi á ríkisstj. með því að torvelda frv., jafnvel þó að um þau sé ekki neinn verulegur efniságreiningur. Ég vildi mjög vænta þess, að þetta frv. verði skoðað málefnalega af öllum þingflokkum, og ég hygg, að það þurfi ekki að koma upp neinn verulegur ágreiningur um efni þess, en teldi það ákaflega æskilegt, ef þm. gætu afgreitt það á sem skemmstum tíma. Ég hafði þann hátt á, að ég sendi þetta frv. fyrir alllöngu til þingflokkanna, þeir hafa átt kost á því að kynna sér það um alllangt skeið, þannig að ég hygg, að menn séu orðnir allkunnugir því.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr., og að sjálfsögðu mun iðnn., sem flytur málið, halda áfram að fjalla um það.