06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

354. mál, lánamál húsbyggjenda

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég var nú nýverið, aldrei þessu vant, að glugga í málefnasamning hæstv. ríkisstj., og mér hefur ekki fyrr orðið það ljóst og má teljast blátt áfram aðdáunarvert, hversu skamman tíma hæstv. ríkisstj. hefur þurft til þess að gera þetta kver að öfugmælapésa — með kannske einni undantekningu þó en það varðar landhelgismálið. Í 4. kapítula þessa rits, einu loforðaversinu, segir svo, með leyfi hæstv. forseta;

Ríkisstj. hefur sett sér það höfuðmarkmið í félags- og menningarmálum (m. a. þetta) : Að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings, m. a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og afnámi vísitölubindingar húsnæðislána.“

Nú skal það strax tekið fram, að við það var staðið að afnema vísitölubindingar á húsnæðislánum, en hvað hin atriðin snertir, þá hefur allt farið á aðra leið og heldur betur á aðra leið. Ég hygg, að það sé rétt, að vísitala byggingarkostnaðar hafi verið 538 stig, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Hinn 1. nóv. s. l. reyndist hún 913 stig. Þegar lög um Húsnæðismálastofnunina 1970 voru sett, var talið, að allvel væri fyrir tekjustofnum Byggingarsjóðs séð, og samkv. þeim l. var upphæð húsnæðislána 600 þús. kr. Síðan í maí 1970 hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 108%, þannig að ef hyggja á á grundvelli byggingarvísitölunnar, þyrftu húsnæðismálalánin að vera nú 1248 þús. kr. til þess að hafa sama framkvæmdaafl og 600 þús. kr., höfðu í maí 1970. Samkv. l. frá í fyrra voru lánin hækkuð úr 600 þús. kr. í 800 þús. kr., og allir fá séð, hversu því fer fjarri, að í dag séu þessi lán nokkuð sambærileg við það, sem ætla varð hæfilegt til húsbyggingar árið 1970, við setningu l. þá. Hvernig hefur svo verið að því unnið, að húsbyggjendur ættu kost á hagstæðari lánum? Ef við lítum á Byggingarsjóðinn sjálfan, þá má segja, að hagur hans hafi verið skertur í 4 atriðum:

1. Með afnámi vísitölubindingarinnar á húsnæðislánunum, og út af fyrir sig lasta ég það ekki, ég var því fylgjandi, en allt að einu bitnar það nokkuð á Byggingarsjóði.

2. Þá hefur verið tekið allvænt lán hjá lífeyrissjóðum með þeim kjörum, sem koma til með innan tíðar að stórskerða lánamöguleika Byggingarsjóðs vegna fullrar verðtryggingar, sem á þessum lánum er.

3. Þá var hækkað um 30 millj. það fjármagn, sem ætla varð til kaupa eldra húsnæðis, og út af fyrir sig er þetta góðra gjalda vert, en þó verður að geta þess, að grunur leikur á, að sér í lagi hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu hafi þetta fjármagn að mestu valdið því, að hækkuð hafi verið útborgun vegna kaupa á eldra húsnæði. Þar af leiðandi hefur þessi ráðstöfun haft þveröfug áhrif við það, sem henni var ætlað.

4. Þá var tekjustofn Byggingarsjóðs skertur um 45 millj. kr. eða þar um bil, að því áætlað er, vegna niðurfellingar launaskatts á sjávarútveginum við síðustu áramót.

Ég hef þá lokið máli mínu, en það er ekki að ófyrirsynju, að ég hef lagt fram fsp. á þskj. 34, sem þar má lesa.