03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3444 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

295. mál, vegalög

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., er stjórnarfrv. um breyt. á vegalögum, nr. 80 frá 10. júlí 1973. Frv. felur í sér nokkrar breyt. á fyrrnefndum lögum. Megintilgangur þess er að mæta rökstuddum óskum og kröfum um verulega eflingu sýsluvegasjóðanna, auka möguleika fámennari þéttbýlisstaða til varanlegrar gatnagerðar og ná betra samhengi við samgöngukerfið. Þá gerir frv. ráð fyrir þeirri formbreytingu, að XIV, kafli gildandi vegalaga falli brott, en í stað hans verði sett sérstök löggjöf um fjáröflun til vegagerðar, og er frv. til l. um það efni flutt samhliða þessu frv. og er hér næsta mál á dagskrá þessa fundar. Nokkrar breyt. um einstök atriði koma og hér við sögu, sem ég mun víkja að síðar.

Skal ég nú tíunda helstu efnisatriði frv. og er þá í fyrsta lagi að telja breyt., sem varða gildissvið vegáætlana. Í gildandi vegal., 10 gr., segir, að gerð skuli vegáætlun fyrir þjóðvegi, aðalfjallvegi og aðra fjallvegi til fjögurra ára í senn til leiðbeiningar um skiptingu þess fjár, sem til ráðstöfunar er hverju sinni til vegagerðar. Með ákvæðum 1. og 11. gr. þessa frv. er lagt til, að þessum ákvæðum verði breytt á þann veg, að vegáætlun taki einnig til þjóðgarðsvega og vega að fjölsóttum ferðamannastöðum, svo sem verið hefur um aðalfjallvegi. Ekki hefur verið heimilt að taka slíka vegi með í vegáætlun, en vaxandi álag á þessa vegi og náttúruverndarsjónarmið gera þá aukningu á gildissviði vegáætlana nauðsynlega. Að nokkru er svo breyt., sem lögð er til í 2, gr. frv., að gerð verði á 12. gr. l., þessu skyld, en þar er lagt til. að í tölu landsbrauta komi auk þeirra vega, sem þar er nú heimilt að telja, vegir að orkuverum og vegir að flugvöllum utan kaupstaða, þar sem reglubundið áætlunarflug hefur verið starfrækt í eitt ár eða lengur. Rök fyrir þessari breyt, eru m.a. auknar og vaxandi framkvæmdir í óbyggðum með byggingu orkuvera. Virðist eðlilegt, að framkvæmdum og varanlegri búsetu fólks á slíkum stöðum sé ekki gert lægra undir höfði en t.d. vegi, sem aðeins nær til þriggja býla. Þá er sú breyt. er vegi að flugvöllum varðar til þess fallin að tengja betur en ella vegagerð og flugmál, en sú breyt., sem hér er gert ráð fyrir, mun einnig létta, þótt ekki sé í stóru, skyldu sýsluvegasjóða, en á því er síst vanþörf.

Þá er í öðru lagi um að ræða aukin verkefni sýsluvegasjóða og aukningu á tekjumöguleikum þeirra. Með frv. er gert ráð fyrir nokkurri aukningu annars vegar á verkefnum sýsluvegasjóða og hins vegar tekjumöguleikum þeirra. Verkefnaaukningin, sem frv. gerir ráð fyrir, er þessi:

1. Heimilt er að veita í sýsluvegaáætlun fé til vega að sjúkraflugvöllum.

2. Heimilað er, að sýsluvegasjóðir styrki lagningu og viðhald vega í sumarbústaðahverfum, enda náist samkomulag um mótframlag af hálfu eigenda og um afnot vegarins.

3. Með ákvæðum 3. gr. frv. er heimilað að lengja sýsluvegi að býlum þannig, að lágmarkslengd, sem býliseigandi eða ábúandi kostar sjálfur, styttist úr 200 m í 50 m, þegar um er að ræða býli, sem ekki hafa beint samband við þjóðvegi. Slíkir vegir eru þó ekki fremur en samkv. gildandi l. teknir í sýsluvegatölu, ef þeir eru styttri en 200 m. Ef gildandi ákvæði væru óbreytt varðandi sýsluvegi að býlum, getur verið um að ræða, að bóndi þurfi einn og sjálfur að kosta veg og viðhald allt að 400 m. Til svo fjárfrekra framkvæmda munu fáir bændur hafa bolmagn, a.m.k. ef um er að ræða veg, sem verulegar kröfur eru gerðar til. Gamla ákvæðið gat e.t.v. staðist, meðan hverjum bónda var í sjálfsvald sett gerð og ástand vega, en í þeim efnum hafa viðhorf mjög breyst hin síðari árin. Kemur þar sérstaklega til ný tækni í mjólkurflutningum með tankbilum, sem nú er að ryðja sér til rúms og verður sennilega algild innan fárra ára, svo sem hún nú er orðin að mestu eða öllu leyti á suðvesturhluta landsins. Þessi framkvæmd gerir stórfelldar kröfur til vegabóta og vegagerðar í sveitum landsins, og mæðir þar sérstaklega á sýsluvegasjóðunum, mjólkursamlögum bænda og bændum sjálfum, en sums staðar, einnig á þjóðvegakerfinu, sem því miður er ekki alls staðar viðbúið að þjóna sæmilega þessari nýju og vafalaust nauðsynlegu tækni í flutningum bænda á mjólkurframleiðslu sinni.

Lengi hafa verið uppi sterkar kröfur og óskir um auknar tekjur sýsluvegasjóðanna, og er með flutningi þessa frv. leitast við að koma til móts við þær eða a.m.k. að stíga nokkur spor í þá átt. Almenn þensla í atvinnu- og efnahagsmálum og mikil fjárþörf þjóðvegakerfisins sker þó hér sem víða annars staðar stakkinn. Vil ég því ætla, að þær umbætur í þessu efni, sem frv. gerir ráð fyrir, þyki nokkurs verðar, þótt ljóst sé, að þær leysi ekki allan þann vanda, sem hér er við að kljást. Rétt þykir líka að benda á, að hér eiga hin ýmsu byggðarlög ekki að öllu samleið hvað fjárþarfir vegasjóðs snertir. Taka sum frv.- ákvæði mið af þeim mikla mun, sem hér er á um óunnin knýjandi verkefni. Ég skal geta þess hér, að sú breyt., sem hér um ræðir á tekjum sýsluvegasjóða, mun á næstu tveimur árum nema a.m.k. um 50 millj. kr. í útgjöldum ríkissjóðs, auk tilsvarandi heimaframlags samkv. vegalögum. Þá er í frv. um að ræða auknar tekjur fyrir sýsluvegasjóði. Frv. gerir ráð fyrir eftirfarandi breyt. til aukningar á framkvæmdamöguleikum sýsluvegasjóðanna. Í 5. gr. frv. er svo kveðið á, að hvert einstakt hreppsfélag geti ákveðið að greiða til sýsluvegasjóðs upphæð allt að tvöfalt hærri en þá, sem gildandi lög skylda þau til, þ.e.a.s. sem svarar til þess, sem 6 klst. kaup sé í almennri verkamannavinnu hjá Vegagerð ríkisins 1. des. næstliðið ár, áður en gjald er lagt á. Þetta gjald miðast við hvern íbúa viðkomandi hrepps. Ákveði hreppur að greiða slíkt umframgjald, á hann kröfu til mótframlags úr ríkissjóði, sem nemur tvöföldu framlagi hreppsfélagsins, sem renni ásamt því óskipt til vegaframkvæmda sýsluvegasjóðs í viðkomandi hreppi. Þetta ákvæði mun þýða verulega auknar tekjur sýsluvegasjóðanna á næstu árum, þ.e.a.s. innan einstakra hreppsfélaga, sem nota sér þau heimildarákvæði, sem hér er um að ræða.

Í gildandi vegal., 23. gr., er kveðið svo á m.a., að fasteignaeigandi, sem ekki er útsvarsskyldur í viðkomandi sveitarfélagi, skuli greiða vegskatt af eign sinni, enda sé ekki um að ræða jörð í fastri ábúð. Þetta gjald er nú aðeins 0.30/00 af fasteignamati mannvirkja, en 0.60/00 af verði landa og lóða, þ.e.a.s. svo lágt, að naumast eða ekki svarar innheimtukostnaði. Heildarinnheimta af þessu gjaldi mun hafa numið á undanförnum árum í kringum hálfri millj. til allra sýsluvegasjóða. Hér er því lagt til, að þetta gjald verði hækkað í 20/00 af mannvirkjum og í 30/00 af verði landa og lóða. Þykir þetta því réttlætanlegra, sem gæta má áðurnefndra ákvæða um heimild til að styrkja vegagerð að sumarbústaðahverfum.

Þá eru í fjórða lagi þau efnisatriði frv., sem lúta að lagningu varanlegra vega í þéttbýli. Í 32. gr. gildandi vegalaga er m.a. kveðið svo á, að 121/2% af heildartekjum vegamála, að undanskildu því fé, sem rennur til hraðbrauta, ef ráðh. ákveður svo, skuli renna til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, og ska1 féð skiptast eftir íbúafjölda. Með ákvæðum þessa frv. er íbúatala þeirra kauptúna, sem þessa njóta, lækkuð í 200, en það þýðir, að 6 kauptún bætast í þann hóp, sem hér er um að ræða. Þessir staðir eru: Búðardalur, Súðavík, Hofsós, Hrísey, Stöðvarfjörður og Vogar. Í sömu grein er ákvæði, að þegar lagningu þjóðvegar er lokið, sé fé þessu varið til annarra varanlegra gatnagerðaframkvæmda í byggðarlaginu. Þá er svo ákveðið í núgildandi vegalögum, að 10% af því heildarframlagi, sem varið er á þennan hátt, skuli ráðstafað eftir tillögu vegamálastjóra til að flýta framkvæmdum, þar sem sérstakar ástæður þykja til að ljúka ákveðnum áföngum, eða til að stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú síðari ár hefur áhugi manna sérstaklega í sjávarbyggðum úti um land, farið sívaxandi fyrir því að efla varanlega vegagerð í þéttbýli, ekki aðeins þjóðvegina, sem um þá staði liggja og flestir eru því miður enn í litlu eða ekki betra ástandi en okkar þjóðvegir eru yfirleitt, heldur einnig aðra vegi í byggðarlögunum. Hinir fámennari kaupstaðir og kauptún hafa í þessum efnum orðið mjög útundan og una ekki lengur sínum hlut, sem engin von er heldur til, þegar t.d. er borið saman við höfuðborgina og nokkra stærstu kaupstaðina. Nýjar og auknar kröfur til umhverfis og hreinlætis varðandi fiskiðnaðinn hafa einnig knúið hér á. Á s.l. sumri hófu sjávarplássin á Austfjörðum lofsvert og myndarlegt átak í þessum efnum með allsherjarsamstarfi og samvinnu, en fjárhagsgetu þeirra til slíkra framkvæmda er ákaflega þröngur stakkur skorinn, og verður þar úr að bæta, eftir því sem frekast er unnt.

10% sjóðnum var í upphafi ætlað það hlutverk að létta undir þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða, og tryggja til þeirra fjármagnsdreifingu, sem miðast við þarfir, en ekki eingöngu skiptingu eftir höfðatölureglunni. Þetta hefur þó hrokkið skammt, m.a. vegna þess, að framkvæmdir við þéttbýlisþjóðvegi, gegnum Kópavog og Selfoss hafa bundið þetta fé árum saman að mestu leyti. Nú er hins vegar veginum gegnum Selfoss lokið, og fyrirhugað er, að Hafnarfjarðarvegur um Kópavog verði tekinn í þjóðvegatölu, — það var raunar gert við síðustu áramót, — og losað jafnframt um framlag 10% sjóðsins til hans. Með tvöföldun þessa sérstaka þéttbýlisvegafjár og aukinni dreifingu til byggðarlaga, sem í engu eða litlu hafa notið þess til þessa, ætti að mega gera sér vonir um, að koma mætti verulega til móts við framtak heimabyggðanna, a.m.k. í ríkara mæli en áður, og stuðla þannig að æskilegri þróun varanlegrar vegagerðar víða um land, þó að það stórfellda verkefni, sem þar er um að ræða, muni auðsjáanlega taka sinn tíma.

Ég hef nú, herra forseti, gert nokkra grein fyrir helstu hreyt., sem lagt er til að gerðar verði á gildandi vegalögum, annarra en þeirrar formbreyt., að felldur er úr lögum XIV. kafli þeirra, þ.e.a.s. sá, sem um fáröflun til vega, gatnagerðar og þjóðvega fjallar. Hefur þótt eðlilegt, að um fjáröflunarákvæði giltu sérstök lög, og er því frv. til l. um fjáröflun til vegagerðar flutt samhliða þessu frv., eins og ég áður sagði. Þær nauðsynlegu breyt., sem það frv. felur í sér, eru m.a. þær, sem lúta að því að auka fjáröflun til vegagerðar í landinu og leitast þannig við að halda í horfinu, eftir því sem framast er unnt, með framkvæmdir, þótt í móti blási vegna gífurlegra hækkana framkvæmdakostnaðar, bæði vegna erlendra og innlendra verðlagsbreytinga.

Ég er í engum vafa um, að velflestir landsmenn eru þess sinnis að vilja nokkuð á sig leggja til þess að auðvelda og bæta samgöngur í okkar tiltölulega stóra og strjálbýla landi. Það er höfuðnauðsyn eðlilegrar framfarasóknar í atvinnumálum, æskilegrar byggðastefnu og alhliða þróunar þjóðlífsins á festum öðrum sviðum. Ég læt þess vegna í ljós þá von mína, að meðferð hv. Alþ. á þessum frv. báðum geti mótast af nauðsyn og réttmætum óskum þjóðarinnar um þessi efni og að um afgreiðslu þeirra geti ríkt eindrægni og samstarfsvilji, eins og oftast áður hefur verið um vegamálin, þegar þau hafa verið til meðferðar hér á hv. Alþingi.

Það er ljóst, að vandinn í sambandi við vegamálin er núna óvenjulega mikill, og virðist engin sjáanleg leið til þess, að hægt sé að halda fullkomlega við þá vegáætlun, sem í gildi er nú fyrir næstu 2 árin, og jafnframt að vinna upp þá töf, sem orðið hefur vegna verðhækkana á undanförnum 2 árum. Ég held þess vegna, að í því efni verði að fara bil beggja, það verði að reyna að afla fjár, eftir því sem frekast er kostur og aðstæður leyfa, það verði að fresta einhverjum framkvæmdum, sem nú eru á vegáætlun, því að hér kemur líka inn í að það er nauðsynlegt að taka inn nokkur ný verkefni, sem ekki voru knýjandi, þegar núgildandi vegáætlun var samin, og það þarf einnig að gera aðrar umbætur, eins og raunar Alþ. hefur þegar samþ. í þáltill., varðandi verk eins og snjómokstur, og fleira hefur borið hér á góma af því tagi í vetur, eins og t.d. bætur til bænda vegna girðingalaga o.fl. af því tagi, sem óhjákvæmilegt er að taka nýtt inn. Þessi vandi hins vegar allur er svo mikill, að hann verður ekki leystur að fullu og raunar ekki nema að tiltölulega litlu leyti með fjáröflun og hann verður ekki heldur leystur á viðunandi hátt með frestun á öllu því, sem ekki er unnt að koma í framkvæmd á tilskildum tíma samkv. gildandi vegalögum, þó að þá leið verði að mínu viti að fara að einhverju leyti. Hér verður einnig að koma til einhver veruleg lánsfjárúthlutun, en fyrir því mun verða gerð grein, bæði af hæstv. fjmrh., þegar hann mælir hér á eftir fyrir frv. til l. um fjáröflun til vegagerðar, og e.t.v. enn frekar, þegar till. til þál. um vegáætlun verður lögð fram, en ég vona, að það verði unnt að gera innan örfárra daga.