03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

295. mál, vegalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður að þessu sinni. Ég tek það fram strax, að ég er í meginatriðum sammála því, sem hér er lagt til í sambandi við hreytingu á vegalögunum. Það er þó ein grein þessa frv., sem ég ætla hér lítillega að staldra við, en það er sú gr., sem hv. síðasti ræðumaður talaði um, 10. gr., þar sem gert er ráð fyrir að hækka úr 10% í 20% heildarfjárframlagið, sem veitt er til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum samkvæmt 32. gr. vegalaga.

Forsaga þess, að ég stend hér upp nú, er, að í milliþn. í byggðamálum, sem kosin var á síðasta þingi og hefur starfað síðan, hefur þetta verið rætt og um þetta fjallað allítarlega. Í þessari nefnd eiga sæti fulltrúar allra flokka, og hafa menn þar orðið sammála um, að hér yrði að koma til veruleg hækkun í sambandi við breytingu á þessum lögum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eitt af meginvandamálum hinna smærri bæjar- og sveitarfélaga, eins og sakir standa nú og hafa raunar verið nokkur undanfarin ár, er varanleg gatnagerð á þessum smærri stöðum. Það er ekki við því að búast, meðan það ástand ríkir og helst, sem búið hefur verið við á undanförnum árum, að það sé gerlegt eða raunar hægt til þess að ætlast, að fólk almennt sjái sér fært að festa sig á þessum stöðum, og er því alveg augljóst mál, að hér verður og það með snöggum hætti að gera á bragarbót og gera þessum fámennari bæjar- og sveitarfélögum kleift að ráðast í þær framkvæmdir, sem alls staðar er beðið eftir. Nú er það út af fyrir sig góðra gjalda vert, að þarna er um tvöföldun á þessu að ræða, og síst skal það vanmetið. Ég held þó, að ef á að snúast við þessum vanda af fullri einurð og það eigi að bera þann árangur, sem til er ætlast, þá verði að gera hér enn betur, og ég held, að ég megi segja það hér, að við fulltrúar flokkanna í þessari þn. munum bera fram brtt. við þessa gr., þar sem það mun verða fært upp í a.m.k. 30% í stað 20% eins og nú er gert ráð fyrir í frvgr.

Ég vildi gera grein fyrir þessu nú strax, þannig að sú hv. þn., sem málið fær til meðferðar, vildi hugleiða þetta, og best af öllu væri auðvitað, að hún tæki það upp við meðferð málsins hjá nefndinni. En ég vildi sem sagt, að þetta kæmi fram nú strax við 1. umr., að vænta mætti brtt. að því er þetta varðar.