03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3456 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

295. mál, vegalög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að taka undir ræðu hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar. Ég var honum að öllu leyti sammála. En ég kvaddi mér hljóðs til þess að undirstrika enn betur en hann gerði vanda sýsluveganna. Ég fagna þeirri breytingu, sem er gerð á 21. gr., en það nær allt of skammt. Eins og hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði áðan, liggja hér fyrir þinginu frv. um kaupstaðarréttindi, sum afgreidd og önnur verða afgreidd næstu daga. Það þýðir það, að þeir, sem greiða í sýsluvegasjóði, verða rúmlega 6 þús. færri en áður var. Ég hef ekki reiknað út, hvað sýsluvegirnir missa við þetta, en miðað við þær tölur, sem ég fékk hér í janúar, mundi þetta muna um töluvert mikið á fjórðu millj. Sýsluvegirnir lengjast líklega um 430–460 km við þessa breytingu, ef að lögum verður. Það er verið að tankvæða margar sýslur landsins, og því verður ekki hrundið í framkvæmd, nema gert sé mikið átak í þessum málum. Þetta frv. leysir ekki þennan vanda, og ég held, að það sé kominn tími til að skoða það, hvort á ekki að breyta til frá því, sem verið hefur í sambandi við fjármögnun sýsluveganna. Hvaða rök eru t.d. fyrir því, að þéttbýlisstaður, sem er talinn hreppur, en ekki kaupstaður, skuli borga þetta gjald, en um leið og hann fær kaupstaðarréttindi, losni hann við það? Ég held að sú nefnd, sem fær þetta frv. til skoðunar, ætti að athuga, með hvaða hætti þetta verður leyst og hvort það sé skynsamlegt að breyta til frá því, sem verið hefur.

Þó að ég fagni 5. gr., að það skuli vera leyfilegt að tvöfalda það gjald, sem hrepparnir greiða í sýsluvegasjóð, og að ríkið greiði á móti því gjaldi, sem ákveðið er á hverjum tíma, þá er þarna um viðbótargreiðslu að ræða frá þessum íbúum. Þetta frv. t.d. leggur til að stórhækka það hlutfall, sem fer til þéttbýlisveganna. Það er sjálfsagt full þörf á því, en það er líka full þörf á því að leysa þetta verkefni, sem er mjög brýnt einmitt nú.

Ég vil ekki tefja tímann, þó að freistandi væri að ræða þessi mál frekar að þessu sinni. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að þó að þetta frv. sé til mjög mikilla bóta frá því, sem gildandi lög ákveða, leysi það alls ekki þennan vanda, og þarf að athuga, hvernig hann verði leystur, þannig að það skapist ekki þarna enn meira misrétti en verið hefur.