03.04.1974
Neðri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3457 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

295. mál, vegalög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, býst ég ekki við því, að um þetta frv. verði miklar deilur hér á hv. Alþingi, enda þótt mönnum kunni að sýnast nokkuð sitt hverjum um einstök atriði þess. Sum atriði frv. eru tvímælalaust til bóta frá gildandi lögum, og má þar nefna til dæmis, eins og segir í 1. gr., að taka upp í vegáætlun vegi að fjölsóttum ferðamannastöðum, taka upp vegi að orkuverum o.fl. og einnig um fjáröflun til sýsluvegasjóða.

Það, sem ég hafði ætlað mér að minnast hér á, var aðeins eitt atriði, sem snertir sýsluvegasjóðina, og það atriði kom einmitt hv. 3. þm. Norðurl. e. inn á í sinni ræðu. Ég tel. að það sé mjög tímabært að taka það til skoðunar, og þá þætti mér æskilegt, að sú n., sem um þetta mál fjallar, gefi því atriði rækilegan gaum, hvort ekki sé tímabært að fella niður gjöld til sýsluvegasjóðs úr þéttbýlissveitarfélögum og þá jafnt þó að þau séu hreppsfélög, eins og gerist sjálfkrafa, ef þessi sveitarfélög verða með lögum gerð að kaupstað. Þessu mundi að sjálfsögðu fylgja veruleg skerðing á tekjum sýsluvegasjóðs, — skerðing, sem yrði að bera uppi af Vegasjóði með auknum framlögum hans. Með sömu röksemdarfærslu mætti benda á, að greiðslur Vegasjóðs til þéttbýlisvega gætu minnkað nokkuð, vegna þess að það fé, sem þéttbýlisstaðirnir leggja nú af mörkum til sýsluvegasjóðs, gæti að skaðlausu gengið til lagningar gatna í því sveitarfélagi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á yfirstandandi Alþ. hafa verið flutt allmörg frv. um kaupstaðarréttindi einstakra kauptúna, og eru horfur á, ef svo gengur fram, að slíkum frv. fjölgi mjög á komandi árum. Ein meginorsök þess, að slík frv. eru flutt, er sú tregða, sem verður vart við í þessum þéttbýlisstöðum að greiða fé til sýsluvegasjóðs, og þessi sveitarfélög vilja losna við þessar greiðslur með því að gerast löggiltir kaupstaðir. Það er augljóst mál, að hægt er að leysa vanda sýsluvegasjóðs á annan hátt en þann, sem gert er í gildandi lögum og fyrirhugað er í þessu frv., og ég tel að það sé fásinna að láta atriði sem þetta verða til þess að sundra lögsagnarumdæmum landsins í stórauknum mæli frá því, sem nú er.

Þetta er meginefni þess, sem ég vildi láta koma fram við 1. umr. þessa frv. Ég hef ekki með neinum hætti slegið mati á það, hvað hér er um mikið fé að ræða, sem hyrfi frá sýsluvegasjóðunum, og hvað vegasjóður þyrfti að greiða, til þess að það yrði unnið upp. En eins og ég benti á, gæti vegasjóður með rökréttum hætti losnað víð nokkrar greiðslur til þéttbýlisvega í kjölfar slíkrar breytingar, svo að hann stæði að verulegu leyti jafnréttur eftir sem áður. Vil ég vonast til þess, að hv. samgn. taki þessa breytingu til athugunar, þegar hún fjallar um þetta frv.

Ég vil enn fremur taka undir það, sem fram kom hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að það er ærinn vandi á höndum fjölmargra þéttbýlissveitarfélaga úti um land í sambandi við framkvæmdir við gatnagerð, og enda þótt þarna sé um nokkra hækkun á þéttbýlisvegafé að ræða, tel ég ástæðu til að gefa því gaum, hvort ekki sé unnt að setja reglur, sem tryggja, að hlutfallslega meira af þéttbýlisvegafénu gangi til þeirra þéttbýlissveitarfélaga, sem sannarlega eiga flest eða öll sín verkefni óunnin á sviði gatnagerðar. Ég teldi mjög mikilvægt, ef unnt væri að setja slíkar reglur og stuðla þannig að því, að auðveldara yrði að leysa þennan vanda, sem við blasir í flestum þéttbýlissveitarfélögum úti um land, en varanleg gatnagerð er í flestum þeirra það mál, sem einna brýnast er og mikilvægast frá mjög margvíslegu sjónarmiði.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vildi láta þessar ábendingar mínar koma hér fram. Ég ætla ekki að ræða um tekjuöflunarfrv. það, sem liggur fyrir Alþingi, og þann vanda, sem þar er við að etja. Ég vil þó nota þetta tækifæri, úr því að ég kom hér upp í ræðustólinn, til þess að ítreka þá áskorun, sem hér hefur komið fram til hæstv. samgrh., að hann hlutist til um það, að vegáætlun verði tekin til afgreiðslu hið allra fyrsta, því að það er mjög mikilvægt, ekki einasta fyrir Alþ., sem þarf að fjalla um það mál og gefa sér nokkurn tíma, heldur einnig að unnt sé fyrir vegagerðaraðila að fá vitneskju um það, hvaða verk á að vinna á komandi sumri og hver ekki. Enn fremur vil ég beina því til hæstv. ráðh., að samkvæmt vegalögum á að leggja fram á hverju Alþ. skýrslu um framkvæmd vegáætlunar fyrir síðasta ár. Þetta hefur ekki verið gert enn, og vænti ég þess, að skýrsla þessi verði lögð fram hið allra fyrsta.