04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

296. mál, loftferðir

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. um breyt. á l. um loftferðir, nr. 34 frá 21. mars 1964. Breyt., sem hér er um að ræða, er sú, að við 78. gr. l. bætast 2 nýjar mgr. hljóðandi eins og á þskj. Breyt. fela í sér í fyrsta lagi, að heimilt verði að heimta gjöld af eigendum eða notendum íslenskra og erlendra loftfara vegna ferða yfir Ísland, yfir íslensku yfirráðasvæði, svo og yfir úthafið og erlend yfirráðasvæði, allt vegna kostnaðar við gerð og rekstur annarra hjálpartækja flugöryggisþjónustu, en í viðkomandi lagagrein eru þau upp talin, er til boða standa viðkomandi aðilum. Gjaldskylda er háð því, að um hana hafi verið samið milli Íslands og viðkomandi erlends ríkis. Um gjaldskylduna að öðru leyti fer eftir reglum, sem settar verða af ráðh. flugmála.

Í öðru lagi er svo ákveðið í 2. mgr. 1. gr. frv., að flugmálaráðherra sé heimilt að semja við stjórnvöld annarra ríkja um, að þau taki að sér innheimtu á þessum gjöldum erlendis.

Forsaga þessa máls er mjög ítarlega rakin í þeim athugasemdum, sem frv. fylgja, og get ég því að mestu látið nægja að vísa til þeirra. Rétt þykir þó að vekja athygli á því, sem hér kemur mjög við sögu, að flugöryggisþjónusta, sem varðar ferðir loftfara milli landa, er þannig skipulögð, að einstök lönd annast hana á tilteknum svæðum eftir ákvörðun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO. Skv. ákvörðun hennar um flug yfir Norður-Atlantshaf hefur Ísland á undanförnum árum annast þessa þjónustu á svæði, sem nær suður að 61° N, austur að 0°, norður að 73° N og að Grænlandsströndum.

Þar sem þjónusta þessi er til nota fyrir öll loftför, sem leið eiga um svæðið, var árið 1956 gert samkomulag milli margra ríkja um, að 95% af kostnaði þessarar öryggisþjónustu skyldu endurgreidd íslenska ríkinu af öðrum þátttökuríkjum í því hlutfalli, sem loftför þeirra fljúga yfir N: Atlantshafið norðan við 40° N.

Í þessu samkomulagi frá 1956 var ráð fyrir því gert, að síðar kynni að verða talið réttara, að þeir aðilar greiddu fyrir þjónustuna, sem hennar nytu. Í samræmi við þetta ákvæði var svo að tilmælum Bretlands og Kanada haldin ICAO-ráðstefna í París í mars-apríl á s.l. ári. Þar var samþ., að þegar skyldu 40% af útgjöldum vegna þjónustu, sem talið er, að komi notendum til góða, greidd af notendunum sjálfum, en 60% yrðu áfram greidd af þátttökuríkjunum, en frá og með árinu 1976 yrði skiptingin sú, að 50% yrðu greidd af notendum, en 50% af þátttökuríkjunum. Í samræmi við þessa ályktun fundarins hefur ICAO óskað eftir því við ríkisstj. Íslands, að innheimtunni verði breytt í framangreint horf.

Nú er það svo, að mikill hluti loftfara, sem fara yfir N.-Atlantshaf og notfæra sér flugöryggisþjónustu á Íslandi, kemur ekki inn á íslenskt yfirráðasvæði, og þar sem 2. og 5. gr. loftferðalaga frá 1964 gilda aðeins um flugferðir á íslensku yfirráðasvæði og um íslensk loftför utan þess svæðis, er þar ekki fyrir hendi heimild til að krefja gjöld hjá erlendum aðilum vegna flugs utan íslenska yfirráðasvæðisins. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta 78. gr. l. frá 1964 á þann veg, sem lagt er til með fyrri mgr. 1. gr. frv.

2. mgr. frv. kveður svo á, að ráðh, sé heimilt að semja við stjórnvöld annarra ríkja um, að þau taki að sér innheimtu á þessum gjöldum erlendis. Þessi heimild er talin nauðsynleg til þess, að ekki þurfi til að koma kostnaðarsamt kerfi til innheimtu. Yrði innheimta gjaldsins væntanlega framkvæmd af breskum flugmálayfirvöldum, sem hafa komið á hjá sér slíku gjaldheimtukerfi, og mun ekkert því til fyrirstöðu, að samkomulag um þetta yrði gert með nótuskiptum milli landanna. Bretar koma einnig fram fyrir hönd Dana í þessu efni. Gert er ráð fyrir, að Bretum verði heimil innheimtuþóknun, sem nema mundi allt að 5% og yrði lögð á reikningsupphæð.

Eins og ég hef hér rakið og enn skýrar er frá greint í aths. með frv., er hér í rauninni aðeins um að ræða að gera þegar ákveðnar breyt. varðandi alþjóðlega samvinnu og öryggisþjónustu tæknilega og löglega framkvæmanlega. Vænti ég því, að þetta frv. fái greiðan framgang í hv. þd. og hv. Alþ. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að málið er nokkuð aðkallandi, vegna þess að það er hugmyndin, að í síðasta lagi um næstu mánaðamót gangi þetta nýja innheimtukerfi í gildi. Mér er kunnugt um, að Danir eru að ganga frá nauðsynlegum lagabreyt. í þessu sambandi þessa dagana, og samgrn. hefur skýrt frá því, að ekki muni verða fyrirstaða á því, að nauðsynlegar lagabreyt. hér hafi einnig tekið gildi fyrir næstu mánaðamót, þannig að ég býst ekki við, að hér verði um neitt deilumál að ræða. Vil ég vænta þess, að hv. samgn, bregðist fljótt við og afgreiði málið eins fljótt og við yrði komið.

Ég legg sem sagt til, herra forseti, að málinu verði nú vísað til 2. umr. og hv. samgn.