04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3466 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. til l. um skráningu og mat fasteigna var til 1. umr. hér í þessari hv. d., gerði ég nokkrar aths. við efni þess, mjög lítilvægar að vísu, og fagnaði því að öðru leyti, að hreyfing væri loksins komin á þetta mál. Ég þóttist því eygja það, að það mikla og verðmæta starf, sem unnið hafði verið við síðasta fasteignamat ríkisins, mundi ekki þurfa að falla niður og verða hálfónýtt. Ég sé að vísu, að þær brtt., sem gerðar eru hér af hv. n., lúta ekki að þeim atriðum, sem ég gerði að umtalsefni við 1. umr., og ég mun ekki gera neitt í því frekar. Ég tel, að þau atriði, sem ég þá kom inn á, hafi ekki verið stórvægileg, eins og ég áðan sagði, en ég vil þó minna á það, að í 2. gr. er orð, sem ég kannast ekki við í íslensku máli og mér þykir óeðlilegt, að það sé sett í íslensk lög. Ég hef aldrei heyrt talað um það, sem þar er nefnt „landmörk“ á milli jarða. Það ber ekki vott um góð vinnubrögð hjá Alþ., ef við komum ekki lögum yfir á sæmilegt íslenskt mál.

Annað, sem ég gerði að umræðuefni þá, hefur ugglaust verið af þeirri fáfræði, sem ég er haldinn í sambandi við tölvutækni, þar sem ég kannaðist ekki við orðin greinitalnakerfi eða staðgreinitölukerfi. Það má vel vera, að þett2t séu nauðsynleg orð, í sambandi við þau vinnubrögð, sem þarf að hafa við Fasteignaskrá, eins og hún verður væntanlega byggð upp, og ég geri því engar aths. við þetta, — skrifa þetta á minn reikning, en ekki nm.

Ég hafði orð á því þá líka, að mér fyndist óeðlilegt, að í 3. gr. þessa frv. er allnákvæm upptalning á því, hvaða upplýsingar um mannvirki eigi að vera fyrirliggjandi. Ég taldi, að það væri eðlilegra, að slík upptalning væri í reglugerð, þar sem ætla mætti, að hún gæti breyst nokkuð þétt. Ég sé í aths. með frv., að gert er ráð fyrir því, að þetta sé gert með það fyrir augum að taka til þau helstu atriði og setja í lög, sem þarna þurfi að liggja fyrir og þess vegna hafi þeir, sem sömdu frv., lítið svo á, að nauðsynlegt væri að hafa þetta ekki svo mjög laust í reipunum vegna kostnaðar. Þetta eru rök, sem er mjög auðvelt að beygja sig fyrir. En þá tel ég, að aftur á móti sé ekki rétt að telja það vera rök, að það eigi að vera undanþágur frá þessu í næstu eða næstnæstu grein, þannig að hægt sé að breyta þessu án löggjafar, því að í 5. gr. segir: „Ráðh. getur með reglugerð fjölgað þeim upplýsingaratriðum um fasteignir, sem færð skulu í fasteignaskrá samkv. 3. gr.“ Ég álít þetta alveg óþarft ósamræmi í löggjöf og þess vegna hefði verið eðlilegra að hafa á annan hvorn háttinn.

Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, eru ekki þessi atriði sérstaklega, ég taldi þau ekki svo mikilvæg, en þegar þetta frv. var hér til 1. umr., hafði ég haft það stuttan tíma til yfirlesturs og eitt og annað farið fram hjá mér, sem síðar varð ljóst. Er þá sérstaklega það, sem ég vildi minnast á nú, 16. gr. frv., 2. mgr. 16. gr., þar sem rætt er um bújarðir og hvernig þær skuli metnar.

Í fyrsta lagi má vel vera, að ég hafi ekki það greinilega fyrir mér, hvað er átt við með „bújarðir“. Er það jarðeignin ein, eða er það bújörðin í heild? Þetta er afgerandi fyrir það, hversu veigamikið þetta málefni er.

Það er sagt þarna: „Bújarðir skulu metnar miðað við notkun þeirra til búskapar, á meðan þær eru nýttar þannig.“ — Svo kemur: „Jarðir skulu í þessu tilliti því aðeins taldar nýttar til búskapar, að þær séu lögbýli og hafi eigi minni bústofn en sem svarar 10 kúgildum eða samsvarandi áhöfn í öðru búfé.“ — Svo kemur þar á ofan: „Þó skal ekki meta jörð sem bújörð, ef áhöfn síðustu 5 árin, sem búið hefur verið á henni, hefur að meðaltali verið minni en sem svarar hálfu kúgildi á hvern hektara ræktaðs lands.“

Það, sem ég vil hér gera að umræðuefni, er, að mér sýnist í fyrsta lagi óeðlilegt að meta fasteignir ekki allar með sama hætti, og í öðru lagi finnst mér algjör óþarfi að gefa mönnum ráð með löggjöf til þess að losna undan þessari kvöð um bújarðir. Að losna undan þeirri kvöð að láta meta eign sína sem bújörð, meta hana sem 2. fl. eign í landinu, er ekki annað en það að skirrast við að nota hana eins og ætlast er til. Ef eigandinn heldur henni utan ábúðar eða heldur henni þannig niðurníðslubúskap, að það komi ekki nema hálft kúgildi á hvern ræktaðan hektara, þá má meta það eftir gangverði.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta.