04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3468 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu ekki réttur aðili til þess að gefa upplýsingar um það, hvers vegna eitt frv. af hálfu fjármálavaldsins sé með þessum hætti og annað með öðrum hætti. Að sjálfsögðu verður fjmrh. að svara til. þegar spurt er um mismun á tveimur frv., eins og hér var gert af hálfu hv. 2. þm. Norðurl. e., Halldórs Blöndals, áðan. Hins vegar verð ég að játa það, að ég er í sjálfu sér ekkert hissa á því, þótt í frv. um stofnun, sem verið er að setja á fót, komi fram ákvæði, sem fell það í sér, að heimilt sé að segja starfsmönnum upp með 6 mánaða fyrirvara. Hér er um stofnun að ræða, sem er verið að koma á fót og mun starfa með nokkuð öðrum hætti en verið hefur. Menn áskilja sér að sjálfsögðu rétt til að koma með hugsanlegar breytingar á þessu skipulagi síðar meir, vegna þess að reynsla er ekki fengin fyrir þessari skipan mála, og þá verður að sjálfsögðu að haga málinu þannig, að unnt sé að breyta til með tiltölulega auðveldum hætti. Þess vegna er vafalaust sett inn ákvæðið um, að heimilt sé að segja upp bæði forstjóra og matsmönnum með 6 mánaða fyrirvara. Þetta hefur gerst í sambandi við fleiri stofnanir, sem hér hafa verið til umræðu og eru settar á laggirnar með löggjöf í seinni tíð. Ég get nefnt sem dæmi, að í löggjöfinni um Framkvæmdastofnun ríkisins var gert ráð fyrir því, að framkvæmdaráðsmenn, sem ráðnir væru þar til starfa, væru ráðnir með þeim hætti, að þeim mætti segja upp með tiltölulega mjög skömmum uppsagnarfresti. Ástæðan var að sjálfsögðu sú, að menn vildu ekki negla niður skipulag, sem þannig væri, að ekki væri hægt að segja mönnum upp um mjög langt skeið, þegar um var að ræða stofnanir, sem ekki var reynsla fyrir, hvernig ættu eftir að starfa. Ég vil hins vegar taka það fram að lokum, að það ákvæði, sem hér um ræðir, er í fyllsta samræmi við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég vil leyfa mér að vitna í þau lög, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir í 1. gr.:

„Rétt er og að setja í ráðningarsamninga forstjóra atvinnufyrirtækja, er ríkið rekur, ákvæði um uppsögn og annað, er kann að vera nauðsynlegt eða heppilegt starfs hans vegna.“

Þetta ákvæði er sem sagt í 1. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. N. taldi rétt að halda sig við þennan 6 mánaða uppsagnarfrest, en vildi hins vegar taka af öll tvímæli um það, að að öðru leyti ættu lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að sjálfsögðu við og að þessir starfsmenn yrðu ríkisstarfsmenn með þeim réttindum og skyldum, sem því fylgja.

Ég vonast fastlega til þess, að BSRB hafi ekki neitt við þessa lausn málsins að athuga og geti verið ásátt með þessa niðurstöðu. Ef annað skyldi koma á daginn, er að sjálfsögðu tækifæri til þess við síðari meðferð þessa máls hér í þinginu að taka það atriði til endurskoðunar. Ég er sannfærður um það, að bæði fjmrn. og hins vegar sú n., sem um þetta hefur fjallað í þinginu, vilja ganga frá þessum málum á þann hátt, sem samtök opinberra starfsmanna geta sætt sig við.

Varðandi það atriði, sem hv. þm. nefndi, að matsmaður ætti að eiga sæti á Akranesi, en ekki í Borgarnesi, um það hefur hann flutt brtt., þá get ég aðeins sagt það, af því að ég nefndi það ekki í framsöguræðu, — enda vissi ég þá ekki, að þessi brtt. mundi koma fram, — að það var skoðun n., að matsmaður, sem sæti ætti í Borgarnesi, væri meira miðsvæðis á Vesturlandi en sá, sem sæti á Akranesi. Ég geri ráð fyrir því, að flm. frv. hæstv. fjmrh., hafi haft svipuð sjónarmið í huga, þegar frv. var undirbúið.

Um aths. hv. þm. Steinþórs Gestssonar, 6. þm. Sunnl., vil ég aðeins segja það, að ég er honum sammála um, að þetta er einkennilegt orð, sem er í 2. gr. frv. „landmörk“, því að eðlilegra virðist vera að tala um landamörk eða landamerki. Ég tel, að það sé svo litill munur á landamörkum og landamerkjum og í þessu tilviki sé tvímælalaust átt við náttúrleg mörk landa, þ.e.a.s. landamörk, og það væri það orð, sem hér ætti við. Ef við gætum orðið sammála um þetta atriði, trúi ég ekki öðru en að við gætum komið fram brtt., sem lagaði þennan agnúa. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að þm. séu vakandi fyrir því, að Alþ. sé ekki að senda frá sér lög með alls kyns ónefnum og orðum, sem ekki eiga við. Hins vegar er það því miður svo, að frv., sem okkur berast í hendur, eru á misjafnlega góðu máli, og ég verð að segja það hreinskilnislega, að mér virðist, að orðalag á þessu frv. sé með því verra, sem gerist, hver sem svo ábyrgð ber á því.

Að lokum vil ég segja um aths. 6. þm. Sunnl. um bújarðir, að n. staldraði töluvert mikið við þetta ákvæði, að hér er gert ráð fyrir sérreglu um mat á bújörðum. Ég held að vísu, að það þurfi ekki að valda neinum misskilningi, að þegar talað er um mat á bújörðum, þá er að sjálfsögðu ekki átt við, að verið sé að meta bústofninn í leiðinni eða annað lausafé, og ég hef því skilið hv. þm. rétt, að hann átti ekki við það. En við mat á bújörð er áreiðanlega átt við, bæði land og hús, — ég tel, að það geti ekki verið neinum vafa undirorpið, það er átt við það, sem telst til fasteignarinnar sem slíkrar.

Ég get hins vegar það eitt sagt um þetta ákvæði, að það mun vera sett inn í frv., að því er mér skilst, í þágu bændastéttarinnar, til þess að fasteignagjöld verði ekki óeðlilega há og vegna ótta við það, að ella yrðu jarðir allt of hátt metnar. Það væri hægt að sanna það, að ákveðin jörð gæti selst á óhemjumiklu verði, kannske 10 millj., eins og nú er farið að tíðkast, og þá væri illt fyrir þann, sem ætti að sitja slíka jörð, að þurfa að greiða fasteignagjald af verðmæti, sem raunverulega nýtist ekki með þessum hætti við venjulegan búskap. Svo væri, ef miða ætti við gangverð. Ef t.d. jarðirnar í kringum Votmúla væru virtar, miðað við að sú sala hefði átt sér stað, og bændurnir yrðu að greiða fasteignagjöld í samræmi við það, er hætt við, að þær jarðir yrðu mjög erfiðar til búskapar af þessari ástæðu. Mér skilst satt að segja, að þetta sé ástæðan til þess, að þessi sérregla er sett inn. Ég tel, að þessi rök séu ekki neitt út í bláinn, en sjálfsagt er þetta út af fyrir sig umdeilanlegt, að ekki skuli gilda nákvæmlega sama regla um allar eignir í landinu.