04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði nú hugsað mér að geyma til 3. umr. frekari umr., ef ég sæi þá ástæðu til þess að ræða frekar um þessi mál. En ég gat ekki stillt mig, þegar hv. 4. þm. Norðurl. v. fór að tala hér um ráðningarkjörin skv. þessu frv. og vitnaði í því sambandi til Framkvæmdastofnunar ríkisins. Nú er honum jafnkunnugt um það og mér, að það er nú svo um toppana í þeirri stofnun, að þeir eru alls ekki ráðnir eftir ráðningarsamningum BSRB við ríkisvaldíð, vegna þess að skv. þeim samningum hefði ekki verið hægt að greiða þessum kommissörum og öðrum mönnum, sem þar eru innan dyra, nógu há laun. Ástæðan fyrir því, að það er kveðið á um sérstök ráðningarkjör þeirra manna í Framkvæmdastofnuninni, sem hv. þm. talaði um, var því allt önnur og gefur tilefni til þess að átelja slík vinnubrögð og slíka meðferð kjaramála. En það stendur sem sagt óbreytt, sem ég sagði, að hér er gert ráð fyrir því að ráða menn með nokkuð óvenjulegum hætti, og eru þær skýringar, sem þessi hv. þm. gaf, því engan veginn fullnægjandi, enda alls ekki um sambærilega stofnun að ræða og Framkvæmdastofnunina.