18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Það er ekki nauðsynlegt að fara í neinar talna- eða orðaleiki til þess að vera þess fullviss, að við Íslendingar búum nú við þjóðlíf, sem mótast af öflugri framfarasókn á flestum sviðum. Hver hönd hefur verk að vinna. :Atvinnuleysi hefur verið útrýmt nema sem algerlega stað- og tímabundnum undantekningum. Verklegar framkvæmdir hafa aldrei í sögunni verið stórfelldari, hvorki til lands né sjávar. Varla er það byggðarlag finnanlegt, þar sem ný og fullkomin framleiðslutæki eru ekki að taka til starfa eða eru væntanleg í náinni framtíð: ný fiskiskip af fullkomnustu gerð, ný fiskiðjuver eða endurbætt, ný iðnfyrirtæki. Helsta áhyggjuefnið í þessu efni er nú það, að mannafla skortir við framleiðslustörfin. Jafnvel er víða svo komið, þar sem atvinnuleysi var landlægt allt til síðustu ára. Umskiptin, sem að þessu leyti hafa orðið frá síðari hluta viðreisnartímabilsins, hafa ein fyrir sig gerbreytt afkomu alþýðu manna, ekki síst í sjávarbyggðum landsins, þar sem áður ríkti allvíða atvinnulegt neyðarástand langtímum saman og fyllti hugi manna kvíða og vonleysi, olli landflótta hundraða manna og raskaði gífurlega byggðajafnvægi í landinu. Sé litið til beinna opinberra framkvæmda, blasir lík mynd við, hvort sem um er að ræða samgöngumál, vegagerð, hafnir, flugmál, skólamál eða heilbrigðismál. Í öllum þessum málaflokkum hafa á tveggja ára valdatíma núv. ríkisstj. verið gerð stórfelld átök, bæði til að bæta úr vanrækslu viðreisnarstjórnarinnar og til þess að sækja fram. Þannig hafa, svo að nokkur dæmi séu nefnd, verið stóraukin framlög í samgöngumálum, framlög til flugvalla verið margfölduð, og nýframlögð fjárlög boðað stórfelldari framkvæmdir í hafnamálum en nokkru sinni fyrr, samhliða því að í gildi ganga um áramótin næstu ný hafnalög, sem létta stórlega á fjárhag sveitarfélaganna til þessara frumþarfa hvers byggðarlags, sem hafa verið mörgum hverjum ofviða og heimta til sín óeðlilega stóran hlut af framkvæmdamöguleikum þeirra og fjárhagsgetu. Þetta kalla stjórnarandstæðingar nú eyðslustefnu og fjargviðrast yfir því, að peninga skuli þurfa til framkvæmda.

Allar þessar einföldu staðreyndir leiða hugann að því, hver gerbreyting hefur orðið á stefnu þings og stjórnar síðustu tvö árin í þeim málefnum, sem augljóslega eru grundvölluð á blómlegu atvinnulífi, sem öllu öðru fremur tryggir bærilega og batnandi afkomu og lífsskilyrði alls almennings, og andstæðingarnir fá ekki dulið gremju sína yfir þeirri vissu, að þeir verða æ færri, sem hafa hug á að hverfa til þeirra stjórnarhátta, sem þeir stóðu fyrir, svo greinilega er munurinn jafnmikill í þessum efnum sem á svörtu og hvítu. Þótt við þannig í bili geymum okkur samanburðinn á stefnu og verkum núv. stjórnarflokka í félagsmálum og tryggingamálum, þar sem ekki er síður gífurlegur munur, fer tæpast milli mála, að sú stefna örrar og djarfrar atvinnuuppbyggingar, sem fylgt hefur verið, hefur ein fyrir sig gerbreytt heildarhag almennings.

En á sama tíma hefur kaupmáttur tímakaupstaxta verkamanna hækkað um 27% og áætlað vikukaup um 23,5% samkv. óyggjandi og fyrirliggjandi gögnum. Til samanburðar er rétt að benda á, að þessar hækkanir á töxtum og kaupgjaldi eru viðlíka eða meiri á tveim árum en á 12 ára valdatíma þeirra viðreisnarmanna, sem leyfa sér hér í kvöld að kalla, að hér ríki í þessum efnum ömurlegt ástand, sbr. það, sem Gylfi Þ. Gíslason sagði hér áðan. Vilja menn breyta til og hverfa til hinnar fyrri stefnu í kjara- og atvinnumálum eða halda fram sem horfir? Svari allur almenningur á þann veg, að sá árangur, sem náðst hefur og ekki verður umdeildur, sé viðurkenningar verður, hygg ég, að fara muni eins og hæstv. forsrh. vék að í stefnuræðu sinni, að hin öra kaupmáttaraukning undanfarandi ára reynist góð undirstaða skynsamlegra kjarasamninga, sem nú standa fyrir dyrum, og að takast megi að leysa farsællega þann margslungna vanda að hemja verðbólgu, en tryggja samtímis stöðuga atvinnu og framleiðslu. En sá vandi hvílir ekki á ríkisstj. einni, heldur verður þar að koma til samstillt átak ú sviði launa- og verðlagsmála, fjármála ríkisins og peningamála almennt.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að lýsa þeirri skoðun minni og ég hygg um leið ríkisstj. allrar, að hún er í grundvallaratriðum sammála um þá kjarastefnu, sem verkalýðssamtökin hafa verið að móta nú á þessu hausti :

1) Að sú stefna eigi fyllsta rétt á sér að draga úr launamismun og jafna launakjör og fylgja þannig enn fram þeirri stefnu, sem í verulegum mæli setti svip á kjarasamningana í desember 1971.

2) Að það sé rétt og nauðsynlegt, að aukinn, jöfnuður verði studdur, bæði með sérstökum kauphækkunum til hinna lægra launuðu og með breytingum á sköttum og á skattkerfinu, sem þeim kæmu einkum til góða.

3) Að hlutur þess fólks, sem vinnur að framleiðslunni og alveg sérstaklega í fiskiðnaði, verði gerður stórum betri en nú er, en þetta er ekki aðeins réttlætismál, heldur brýn þjóðhagsleg nauðsyn og því sjálfsagðari sem þessir starfshópar hafa mjög farið varhluta í því launaskriði, sem flestir aðrir launþegahópar njóta vegna eftirspurnar hans á vinnumarkaðinum.

4) Komið verði á atvinnutryggingu þessa fólks, en það ekki lengur látið búa við daglega óvissu um afkomu sína, eins og víða viðgengst.

5) Að sú krafa sé réttmæt og beri að styðja með nauðsynlegum lagabreytingum, að almennri vinnuvernd verði komið á, verkafólki verði tryggt mannsæmandi menningarlegt og félagslegt umhverfi á vinnustöðum og fullnægjandi aðbúnaður og öryggi í hvívetna ásamt auknu valdi fólksins á hverjum vinnustað til þess að framfylgja slíkum settum reglum. Sömuleiðis að fordæmi grannþjóða okkar á Norðurlöndum verði fylgt í því að spyrna við óhæfilegu vinnuálagi og lítt eða ekki takmörkuðum vinnutíma.

6) Að fjárhagsgetu ríkisins og efnahagskerfisins verði í miklu ríkari mæli en áður beint að því að leysa þau miklu vandamál, sem ríkja nú í húsnæðismálum og í allt of mörgum tilvikum eru að eyðileggja þann árangur, sem verkalýðshreyfingin hefur náð í sjálfum launa- og kjaramálunum.

Öll þessi mikilvægu atriði væntanlegra kjarasamninga er ríkisstj. áreiðanlega reiðubúin til þess að leggja sig alla fram um að leysa og aðstoða við að leysa í nánu samráði við alþýðusamtökin.

Um lausn sjálfra krafnanna um launahækkanir er að mínu viti fyrst það að segja, að að sjálfsögðu verður hún að byggjast á hefðbundnum og lögfestum leikreglum, sem þar um gilda, þ. e. a. s. frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins og samtaka þeirra, sem ríkisvaldið grípur ekki neitt inn í, nema öll önnur sund lokist, til þess að þjóðarvoða verði afstýrt. Í þeim efnum verður verkalýðshreyfingin nú sem fyrr að treysta á samstöðu sína, baráttuvilja, samfara fullu raunsæi á því, hvað vinnustéttunum og þjóðarheildinni er fyrir bestu, er til lengdar lætur. Af nokkurri persónulegri reynslu treysti ég því fullkomlega, að slíkt raunsæi á efnahagsmálunum og þeim vandamálum, sem þar er við að etja, sé fyrir hendi meðal yfirgnæfandi meirihl. verkalýðsstéttarinnar og þeir séu næsta fáir, sem vitandi vits eða af ráðnum hug vilja freista þess að spenna bogann svo hátt, að af hljótist slík óðaverðbólga, að kippt verði grundvellinum undan því atvinnuöryggi, sem nú ríkir, og þeirri að ýmsu hagsfæðu efnahagsþróun, sem nú gefur vafalaust svigrúm til raunhæfra kjarabóta, gagnstætt því, sem hér var haldið fram áðan af formanni Sjálfstfl.

Hverjum þeim, sem hlýtt hefur á stefnuræðu hæstv. forsrh. við upphaf þessara umr., má vera ljóst, að það þing, sem nú er nýhafið, mun verða allannasamt og það mun fá fjölþætt málefni til úrlausnar að frumkvæði ríkisstj., ekki síst í þá veru, að róðurinn mun nú hertur sem vera ber í þá átt að fullnægja ákvæðum málefnasamnings ríkisstjórnarflokkanna, þótt fleira komi vissulega til. Vil ég í því sambandi drepa á nokkur þau málefni, sem unnið er að að undirbúa til þinglegrar meðferðar í þeim rn., sem ég veiti forstöðu, og ég vona, að aðstæður leyfi, að fram verði borin á yfirstandandi þingi.

Af þeim málum, sem sérstaklega er um fjallað í málefnasamningnum, nefni ég endurskoðun sveitarstjórnarlaga, sem nú er hafin, en um það efni segir í málefnasamningnum: „Endurskoða ber skiptingu verkefna og valds á milli ríkis og sveitarfélaga í því skyni að auka sjálfsforræði byggðarlaga. Haft verði samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum um þessa endurskoðun“. Það er ljóst, að hér er um mjög mikilvægt stjórnskipulegt og fjárhagslegt vandamál og álitamál að ræða, sem þarfnast sérstaklega gaumgæfilegrar meðferðar og ef vel á að fara sem mestrar samstöðu allra, sem hlut eiga að. Hitt er líka auðsætt, að meginmarkmið þessarar endurskoðunar er nátengt þeirri byggðastefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt eða mun, ef að vonum og líkum fer, gera að enn áþreifanlegri veruleika á síðari hluta kjörtímabilsins.

Af sérstaklega félagslegum réttindamálum, sem verkalýðshreyfingin hefur borið fyrir brjósti og barist fyrir, hefur allmörgum þegar verið komið heilum til hafnar, svo sem löggjöf um 40 stunda vinnuviku og 4 daga orlof. Eftir stendur m. a. gerð heildarlöggjafar um vinnuvernd, sem ég hef áður drepið á, og löggjöf um atvinnulýðræði. Um það mál vil ég taka skýrt fram, að með þeirri löggjöf er ekki ætlunin að knýja með lagaboðum aðila vinnumarkaðarins til samstarfs, sem verkalýðssamtökunum kynni að vera um geð, heldur sú að veita verkafólki á einstökum vinnustöðum eða verkalýðssamtökum, sem það tilheyrir, tiltekin réttindi til valds og áhrifa á ýmsa þætti stjórnunar fyrirtækjanna, — réttindi, sem því er í sjálfsvald sett, hvort það notar sér eða ekki. Æskilegast væri, að um löggjöf þessa næðist fullt samkomulag milli verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda, en n. sú, sem vinnur að málinu, er skipuð fulltrúum beggja þessara aðila. Vona ég hið besta um árangur nefndarstarfsins. En þótt þær vonir bregðist að einhverju, verður málið engu að síður undirbúið í samræmi við ákvæði málefnasamningsins og með hliðsjón af þeirri miklu og góðu reynslu, sem hér er á að byggja á öðrum Norðurlöndum og víðar, þar sem verkalýðssamtök eru öflugust.

Þegar lög um 40 stunda vinnuviku voru samþ. hér á hv. Alþ., var ekki fengist við að leysa það stórfellda misræmi og mismunun, sem fiskimenn eiga við að búa um vinnutíma samanborið við aðrar stéttir. Við svo búið getur ekki staðið öllu lengur, sbr. þáltill., sem Alþ. samþykkti á sínum tíma að frumkvæði mínu og hv. landsk. þm. Karvels Pálmasonar. Að sjálfsögðu eru á því óleysanleg vandkvæði, að daglegur eða jafnvel vikulegur vinnutími þessara stétta geti orðið hinn sami og þeirra, sem í landi vinna. Ber því vafalaust að jafna hér metin með því að líta frekar á ársvinnutímann og auka rétt fiskimanna hvað hann snertir, t. d. með tvískiptu eða fleirskiptu orlofi á fullum launum. Framkvæmd ákvæða um hvíldartímann ber vafalaust líka að skoða í þessu sambandi.

Enn vil ég nefna af málefnum, sem sérstaklega varða verkalýðssamtökin og áhugamál þeirra, að ég mun næstu daga leggja fram frv. um starfskjör launþega o. fl., en því frv. er ætlað að fulltryggja réttarstöðu verkafólks og samtaka þess gagnvart þeim atvinnurekendum, sem ekki eru með aðild að samtökum atvinnurekenda formlega bundnir af almennum kjarasamningum varðandi launakjör eða greiðslur til sjóða félaganna. með þessu frv., ef að lögum verður, er fulltryggt, að allir kjarasamningar ákveðinna starfshópa verði gildandi sem bindandi lágmarkssamningar í hlutaðeigandi starfsgrein á því svæði, sem þeir ná til, og öll réttaróvissa um þau efni verður úr sögunni.

Um næstu áramót ganga í gildi lög frá síðasta Alþ. um byggingu 1000 leiguíbúða á vegum sveitarfélaga á næstu 5 árum. Þetta eru hin merkustu lög og raunar fyrsta heiðarlega tilraunin, sem gerð hefur verið til að rétta hlut landsbyggðarinnar í húsnæðismálum gagnvart þeim stórfellda fjárdrætti úr byggðarlögunum til höfuðborgarsvæðisins gegnum húsnæðismálakerfið í sambandi við sérstaklega umsamdar byggingarframkvæmdir, sem kenndar hafa verið við Breiðholt, sem lofað var, en svikið að fjármagna sérstaklega samkv. samningi ríkisstj. og verkalýðsfélaga frá árinu 1965. Það er mín skoðun, að bygging þessara 1000 íbúða sé þó frekar í lágmarki en hitt til að skapa viðunandi jafnvægi. En þótt ekki yrði lengra komið til móts við landsbyggðina en hér er ráðgert, standa mál svo, að til framkvæmda þessara laga við hlið annarra skuldbindinga lánakerfisins skortir stórfellt fjármagn, og þess fjármagns verður ríkisstj. og Alþ. að afla, undan því verður ekki vikist. Húsnæðismálin verða ekki leyst farsællega, án þess að framkvæmdir í þeim verði samræmdar við framkvæmdaáætlanir um landið allt og látnar haldast í hendur við þróun atvinnulífsins um allar byggðir. Fram til þessa hafa hinar dreifðu byggðir verið hornreka í þessu tilliti. Það er auk þess tómt og innihaldslaust tal að ræða um raunhæfa byggðastefnu, án þess að húsnæðismálin komi inn í myndina. Um þetta hef ég áður viðhaft þá staðhæfingu, að stórátak í húsnæðismálum landsbyggðarinnar, ekki síður en höfuðborgarsvæðisins, sé stærsta, nærtækasta og mikilvægasta byggðamálið, sem nú er uppi, auk þess sem það er til þess fallið að beina takmörkuðu vinnuafli þjóðarinnar inn á þjóðhagslega hagstæðar brautir og létta jafnframt á húsnæðisskorti á höfuðborgarsvæðinu.

Í sambandi við húsnæðismálin vil ég lýsa sérstakri ánægju minni yfir því frumkvæði, sem verkalýðssamtökin hafa nú tekið í þeim málum, og hygg gott til samráðs við þau af því tilefni. Ég vænti þess einnig og treysti, að ekki standi á hv. Alþ. að standa að úrbótum og tryggja nauðsynlega fjármögnun framkvæmda, þegar til þess kasta kemur.

Á sviði samgöngumála eru mikil verkefni framundan. Þannig gerir fjárlagafrv. ráð fyrir mjög auknum framkvæmdum í flugmálum og hafnamálum og stórfellt meiri en áður hefur þekkst, ekki aðeins í krónutölu, heldur að magni til. Vegáætlun og vegalög verða endurskoðuð, og er þar síst ætlunin að slaka á í framkvæmdum, þótt við nokkra fjárhagsörðugleika verði að etja.

Ég hef talið eðlilegt að fjalla hér nokkuð um þau málefni, sem næst standa mínum verkahring, og gef mér því lítið ráðrúm til að ræða þau málefni, sem geta orðið örlagaríkust á Alþingi að þessu sinni, og á ég þar fyrst og fremst við landhelgismálið og einnig endurskoðun hervarnarsamningsins við Bandaríki Norður-Ameríku. Um það síðar nefnda segi ég það eitt á þessu stigi málsins, að í öllu verður farið, hvað málsmeðferð snertir eftir ákvæðum málefnasamnings stjórnarflokkanna: fyrst kannað rækilega, hvort þess sé kostur að fá breytingu á samningnum, sem kveði á um brottför hersins í áföngum og að öðru leyti er okkur sæmandi, en fullnægja þó skuldbindingum okkar við aðrar þjóðir. En þegar sú könnun liggur fyrir, hlýtur jafnframt að koma til álita, hvort samningnum verði sagt upp og herinn látinn hverfa úr landi með tilteknum samningsbundnum fresti, og sú leið er auðvitað sú eina færa, ef hin fyrri lokast í þeim viðræðum, sem fram undan eru, sem vonandi ekki verður.

Um landhelgismálið vil ég undir lok máls míns segja þetta:

Grundvöllur útfærslunnar 1. sept. 1971 var sú lífsnauðsyn þjóðarinnar að vernda fiskstofninn frá rányrkju og jafnvel eyðileggingu, og árangur þeirrar aðgerðar verður aldrei metin með neinum öðrum mælikvarða en þeim, sem út frá þeim grundvelli mælist, heldur ekki neinar nýjar ákvarðanir um baráttuaðferðir eða um hugsanlega undanþágusamninga. Spurningin um samninga eða samninga ekki við þær tvær þjóðir, sem virt hafa útfærslu okkar að vettugi og beitt hafa okkur ofríki og ofbeldi, er ekki í mínum huga tilfinningalegs eðlis, þótt öldur þeirra rísi nú hátt að vonum, heldur verður svarið við henni að byggja á kaldri rökhyggju, sem svarar því greinilega, hvort samningar þjóni betur en þófið, sem staðið hefur, til verndar tilgangi útfærslunnar, þ. e. a. s. hvort sókn erlendra veiðiskipa minnkar eða vex miðað við það ástand, sem ríkt hefur á miðunum, og það, sem líklegt er að óbreyttu að ríkja muni um verulegt skeið að minnsta kosti. Það mat, sem hér þarf að koma til, er síður en svo einfalt mál. En þar kemur m. a. inn í myndina, hve miklar undanþágur við værum siðferðilega skyldir að veita nokkrum þjóðum, sem virt hafa útfærsluna, en hafa áður stundað veiðar á Íslandsmiðum. Margt fleira kemur hér til álita, ef til samninga eða samningaumleitana kemur, svo sem um stærð og fjöldi veiðihólfa, tímamörk um lokun þeirra og opnun, samningstími um undanþágur og vald okkar Íslendinga til að framfylgja settum hugsanlegum reglum um þær. Þetta ræði ég ekki frekar nú, því að ekki vil ég brjóta neinn trúnað varðandi viðræður hæstv. forsrh. og Edwards Heath á viðkvæmu athugunarstigi þess, sem þar kom fram. En tvennt er þó strax fullljóst: Í fyrsta lagi, að við eigum ekki að taka við neinu, sem skoða mætti sem úrslitakosti Breta, allra síst áður en til hugsanlegra samningaumleitanna yrði gengið. Og í annan stað, að Ólafur Jóhannesson forsrh. hefur í alla staði haldið mjög vel á málum okkar í umgetnum viðræðum við hinn breska starfsbróður sinn og þannig, að ef allt tal um lífsnauðsyn þjóðareiningar í landhelgismálinu á ekki að hljóma sem ómerkt hjal, hljóta stjórnmálaflokkarnir og þjóðin öll að skoða það skyldu sína við samheldni hennar og hagsmuni að standa drengilega að baki honum og tilraunum hans til að fylgja eftir undanhaldi breskra stjórnarvalda. Allt annað nú væri háskalegur óvinafagnaður, sem ekki yrði aftur tekinn.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. Góða nótt.