06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

354. mál, lánamál húsbyggjenda

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. áleit, að mér hefði verið svo mikið niðri fyrir að gagnrýna stjórnina, hæstv. ríkisstj., að ég hefði verið búinn að gleyma því, að ég hefði borið fram fsp. Á leið í sæti mitt gaukaði hæstv. heilbrrh. því að mér, að ég hefði sleppt að lesa upp fsp. í trausti þess, að þm. væru — og ráðh. líka læsir, og þetta er rétt.

Hæstv. félmrh. núv. má ekki skoða mitt mál sem gagnrýni á hann, þar sem hann hefur setið örskamma hríð í ráðherrastól, umfram það, sem hann ber ábyrgð á stjórnarstefnunni sem þm. þáv. og að vísu dálitla aukaábyrgð sem einkavinur og lóðs fyrrv. félmrh., og er það út af fyrir sig töluverð ábyrgð að axla. En það, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., — og ég þakka hans svör, þótt innihaldið væri frekar magurt, — var t. d. að varðandi þá, sem hefðu fengið fyrrihlutalán í maíbyrjun, hafi staðið vonir til þess, að þeir gætu fengið síðari hluta — e. t. v. í byrjun næsta árs, og vildi ekki gera mikið úr því, hvorum megin áramóta það væri. En ég vil benda á, að það er töluvert atriði vegna þeirrar útlánastarfsemi, sem viðskiptabankar yfirleitt tíðka. Hann tók það fram, að hann áliti þetta of lága upphæð, málin væru í deiglu, þau væru til athugunar, engar líkur taldar á því, að almenn byggingarstarfsemi yrði meiri á næsta ári. Það er auðvitað hrein ágiskun. Ég hef frá Byggingarsjóði ríkisins upplýsingar um, að til ráðstöfunar til útlána á næsta ári muni verða um 1290 millj. kr. Ég heyrði það áreiðanlega rétt, að hæstv. ráðh. hefði talið, að mundi þurfa í lánakerfið um 2.5 milljarða á næsta ári, þannig að hér er allmikið bil og ekkert smáræðis bil að brúa. Ég vil enn fremur leggja áherslu á það, að verði leitað á mið lífeyrissjóðanna, sem ég tel sjálfsagt, þá er óviðunandi með öllu, að þær lánareglur verði í sambandi við þau lán, að þau verði bundin með þeim hætti, sem átti sér stað við þá lántöku, sem fram hefur farið nú þegar.

Nei, það voru sterkar vonir um, að úr þessu mundi rætast, en mér sýnist á öllu, að hér sé mjög langt í land, og kem reyndar að því í sambandi við aðra fsp., sem er þessu tengd og væntanlega kemur hér á dagskrá næst á eftir.