04.04.1974
Efri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3481 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

300. mál, Ríkismat sjávarafurða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta getur verið örstutt, enda fæ ég tækifæri til þess í hv. n. að fjalla um frv. Að öðru leyti get ég lýst því yfir, að ég fagna framkomu þess og þeirri sameiningu og þeirri samræmingu, sem þar er að stefnt. — Það er aðeins örstutt athugasemd, sem ég vildi hér koma að og jafnframt spyrjast fyrir um hjá hæstv. ráðh. ef hann ætti við því svör.

Í 11. gr. frv. er kveðið á um skyldur og réttindi ákveðinna starfsmanna, svo sem segir í gr.: „Forstjóri Ríkismatsins, deildarstjórar og yfirmatsmenn hafa skyldur og njóta réttinda sem opinberir starfsmenn. Um laun þeirra fer eftir ákvæðum kjarasamninga ríkisstarfsmanna.“

Þá vaknar sú spurning: Hvað um réttindi og kjör einstakra matsmanna víðs vegar um landið, samkv. 9. gr.? Þar stendur:

„Matsmenn, er starfa á vegum Ríkismats sjávarafurða, framkvæma undir umsjón yfirmatsmanna eftirlit það og mat, sem lög þessi gera ráð fyrir.“ — Síðan kemur um löggildingu þeirra og eiðstaf „um, að þeir vilji rækja með alúð og kostgæfni skyldur þær, sem á þeim hvíla í starfi þeirra.“

Spurningin er sem sagt: Hvað um réttindi og kjör þeirra? — Ég hygg, að um þau ríki nokkur óvissa og ég veit, að þeir hafa margir haft áhyggjur af sinni stöðu, hún sé bað óákveðin í dag. Hins vegar dregur enginn í efa mikilvægi þessara starfsmanna og nauðsyn þess, að þeim séu ekki settar aðeins ákveðnar starfsreglur, heldur sé einnig ákveðið nánar um kjör þeirra öll og réttindi, og því vildi ég spyrja hæstv. ráðh, hvort nokkuð væri á döfinni varðandi þessa starfsmenn, og einnig, hvort það væri á döfinni að setja einhverjar skýrari reglur um störf þeirra og réttindi, sem t.d. að einhverju leyti réttindi sem opinberra starfsmanna.