04.04.1974
Neðri deild: 100. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

293. mál, fjáröflun til vegagerðar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Byrðin er nú æðiþung, sem hæstv. ráðherrar þurfa að bera, þegar þeir tala um fjármál, atvinnumál eða vegamál, og það var sennilega góðverk af hæstv. fjmrh. að létta nú svolítið undir með starfsbróður sínum, hæstv. samgrh., og tala fyrir þessu frv., svo sem hann nú gerði. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið ánægja fyrir hæstv. fjmrh. að tala fyrir þessu frv., eins og það er úr garði gert og eins og það speglar ástand fjármálanna yfir höfuð. Þetta frv. er spegilmynd af ástandinu í dag, og þegar hæstv. ráðh. var að tala um þrjár leiðir í vegamálum, þá hafa hv. þm. sennilega tekið eftir því, að hæstv. fjmrh. gleymdi alveg að minnast á þá leiðina, sem hann minnti oftast á, áður en hann varð ráðh. Það var að hækka framlög úr ríkissjóði. Það var sú leið, sem hv. þm. Halldór E. Sigurðsson benti stöðugt á, meðan hann var í stjórnarandstöðu. En nú segir hæstv. ráðh., að það sé ekki til neins að gera till. um auknar greiðslur úr ríkissjóði, því að þar sé ekkert að hafa. Það er rétt sama, hversu mikið ríkissjóður innheimtir, þar er ekkert aflögu.

Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi hér um bil rétt fyrir sér í því, að hæstv. ríkisstj. eyði jafnóðum því, sem í kassann kemur, og það sé lítið þar að hafa, á meðan núv. stjórnarstefna er ráðandi. En það er áreiðanlegt, að allir hv. þm. hafa enn áhuga á því að gera miklar vegaframkvæmdir. Þess gerist þörf að gera miklar vegaframkvæmdir.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. komst til valda, voru miklar auglýsingar uppi hafðar um það, að nú ætti að gera stórátök í vegamálum og framkvæmdum, og var gefið í skyn, að fyrrv. ríkisstj. hefði ekki staðið sig vel í þessum málum. Hæstv. núv, ríkisstj, talar stöðugt um hringveginn sem sitt mál. Hæstv. fjmrh. talaði um það núna, að það væri verið að ljúka við hringveginn og það fyrr en áætlað var. Ég man ekki betur en það hafi verið talað um það, þegar lög um fjáröflun voru sett hér í ársbyrjun 1971, að miða við að ljúka hringveginum á árinu 1974 í tilefni af 1100 ára afmæli byggðar á Íslandi, þannig að það er ekki neitt á undan áætlun. Fjáröflunin og framkvæmdirnar voru ákveðnar af fyrrv. stjórn, og framkvæmdir við hringveginn koma ekkert við fjárhag Vegasjóðs eða venjulegum vegaframkvæmdum, vegna þess að fjáröflun til hringvegarins er með sérstökum hætti, með sölu happdrættisskuldabréfa.

Ég er samþykkur því, sem kemur fram í þessu frv., að haldið verði áfram að selja skuldabréf í þessum tilgangi, ekki kannske aðeins til vegarins upp í Borgarfjörð, heldur til hringvegarins, miðað við það, að það verði hringvegur um landið allt. Ég vil benda á, að það er lítið gagn að því að brúa Skeiðará, ef bæði Mýrdalssandur og Breiðamerkursandur eru alveg ófærir. Ég er þess vegna hræddur um, að það sé betra að láta eitthvert fjármagn í veginn á þeim stað einnig, um leið og lagt er í veginn upp í Borgarfjörð og Suðurlandsveginn yfirleitt, sem ekki þolir þá umferð, sem á hann verður lögð með því að opna hringveginn, eins og kallað er. En um þetta er ekki ástæða til að deila nú, en ég er samþykkur því, að þetta ákvæði verði lögfest. Það væri menningaratriði, ef við gætum gert góðan hringveg um landið allt og það væri góður vegur um Borgarfjörð eins og á aðra staði.

Frv., sem hér er til umr., er raunalegt, hvernig það er til komið. Það er frv. um tekjuaukningu ríkissjóðs, um fjáröflun til vegamála. En það raunalega er, að sú fjáröflun, sem lagt er til í þessu frv., dugar ákaflega lítið miðað við þá fjárþörf, sem nú er. Þetta frv. getur ekki gefið í tekjur, þótt það verði lögfest, meira en 300 millj. kr. á þessu ári. — Ég reikna ekki með veggjaldinu. Það hefur verið reynt tvisvar áður að taka veggjald af Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut, eftir að því var hætt, og það hefur í bæði skiptin verið fellt. Og dálítið er það skrýtið að óska eftir samstarfi þm. í þessu máli, alveg sérstöku samstarfi, en bera þó fram till., sem allir vita, að veldur hatrömmum deilum hér í þinginu, sem tvisvar er búið að fella. Það hefði einhvern tíma verið sagt, að þetta væru ekki hyggileg vinnubrögð. En hæstv. ríkisstj. hefur sínar leiðir. Það er ekki víst, að hún sé hyggin nú frekar en oft áður.

Þetta frv. gefur ekki meira en þetta. En fjárvöntunin í heild er 1900 millj. kr. Hæstv. ráðh. sagði áðan, svo sem rétt er, að vegagerðarkostnaður hafi hækkað á tveimur árum um nærri 100%, 96%, sagði hann, og er þá miðað við vísitöluna 1. mars s.l. Það er ekki miðað við júnívísitöluna, en hún verður allmiklu hærri, og það verður sú kostnaðarvísitala, sem vinna þarf eftir í sumar. En að framkvæmdakostnaður hækki um nærri 100% á tveimur árum, það er vitnisburður um stjórnarfarið í landinu á þessum tveimur árum. Þótt hæstv. ríkisstj. með sínu stjórnleysi hafi sett allt á annan endann og stefni í strand, þá sést ekkert fararsnið á henni. En margir eru farnir að hugsa, til hvers það leiði, ef núv. hæstv. ríkisstj. situr áfram föst í sínum stólum.

Einn hæstv. ráðh., hæstv. iðnrh., hefur haft orð á því, að það væri eðlilegt, að kosningar færu bráðlega fram. Skyldi þessi hæstv. ráðh. hafa gert sér betri grein fyrir ástandinu en hæstv. samráðh. hans? Um það skal ég ekkert dæma. En það er þó lofsvert, að einn hæstv. ráðh. hefur gefið í skyn, að það sé ástæða og þörf á breytingum.

Sú verðbólga og þær verðhækkanir, sem nú ganga yfir, valda vitanlega öllum hugsandi mönnum áhyggjum. Krónan er að verða að einum eyri eða kannske broti úr eyri. Vegasjóður er ekki eini sjóðurinn, sem nú er tómur og hefur misst sinn framkvæmdamátt. Hæstv. ríkisstj. hefur hrósað sér af fleiru heldur en vegaframkvæmdum. Hún hefur hrósað sér af byggingaráætlunum, hún hefur hrósað sér af því að standa vel með unga fólkinu, sem er að byrja búskap og stofna heimili. En hvernig er með húsnæðislánin? Hæstv. ríkisstj. hefur nýlega ákveðið að hækka lán úr búsnæðislánasjóði í 1060 þús. kr. En miðað við þann kostnað, sem nú er um að ræða, þyrftu þessi lán að vera um 1450 þús. til þess að vera nokkurn veginn hliðstæð því, sem þau voru 1971. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. skorið niður byggingarlánin til þess fólks, sem er að reyna að stofna heimill. Og ekki nóg með það. Þótt lánin hafi verið skorin niður, virðist vera svo, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki enn fundið ráð til þess að standa við þessar lágu og niðurskornu lánveitingar. Það mætti nefna fleiri sjóði, opinbera sjóði, sem eiga mikilvægu hlutverki að gegna, Fiskveiðasjóð, Stofnlánadeild landbúnaðarins og fleiri sjóði, allt er tómt, og ekki virðast vera möguleikar til að veita þá niðurskornu fyrirgreiðslu, sem staðið hefur til að veita.

Gert er ráð fyrir að hækka bensíngjald með lögfestingu þessa frv. um 4.13 kr., en auk þess um eina kr. 1. jan. n.k. Þessi eina kr. á að mæta niðurfellingu ýmiss konar gjalda, sem boðuð er. Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að það hefur oft áður komið til álita að fella niður þessi gjöld. Er ekki ástæða til að mæla gegn því, að það verði gert. En hagræðingin, sem í því felst, er ekki eins mikil og sumir vilja vera láta. Það er hér um bil sama vinna við þetta, vegna þess að venjulega er greiðsla innt af hendi um leið og þjónustan er veitt. Það er þess vegna ekki eins mikill sparnaður og ætla mætti. T.d. þegar ökuskírteini er afhent, þá er lítið meiri vinna í því að taka á móti greiðslu heldur en þótt því sé sleppt. Þannig er það einnig með tryggingaskírteini og annað fleira, sem í þessum gjöldum felst. En ég segi, að þetta hefur alltaf verið álitamál, og ég ætla mér ekki að mæla gegn því, að þessi breyting út af fyrir sig verði gerð. Ég sé ekki ástæðu til þess. Bensínskatturinn á sem sagt að hækka um 5 kr. við næstu áramót og 4.13 kr. nú strax. Útsöluverð á bensíni verður þá sennilega fremur 37 kr. en 36 kr. Mér er sagt, að það bíði einhverjar leifar af síðustu söluskattshækkun, sem ráðgert sé að bæta við, þegar næsta verð verður ákveðið, og eitthvað þurfa olíufélögin að fá meira vegna hækkunarinnar, þannig að það er ekki fjarri lagi, að bensínverðið verði þá, ef þetta verður lögfest, frekar 37 kr. en 36.

Hæstv. fjmrh. var að tala um, að 36 kr. verð væri sambærilegt því, sem bensínverðið var 1964, sé miðað við kaupgjald og sé miðað við byggingarvísitölu. Þessa útreikninga hef ég ekki hjá mér. Það, sem skiptir meginmáli, er þó, að ég er hræddur um, að ef bensínið verður hækkað þetta mikið, þá verði þetta ekki til þess tekjuauka fyrir vegasjóð, sem ætlast er til. Ég er hræddur um, að bensínnotkunin geti dregist saman, verði minni vegna þessarar hækkunar. En mestur reginmunurinn er þó sá, að 1964, þegar bensínverðið var ákveðið og aðrir tekjustofnar Vegasjóðs, var það til þess að brúa bilið, fylla upp í skörðin, og til þess að auka vegaframkvæmdir í landinu. En þótt þessi hækkun verði gerð nú á bensíninu og þungaskattinum, sér þess engan stað. Það er aðeins litið brot af því fjármagni, sem vantar, til þess að hægt sé að standa við þá vegáætlun, sem samin var fyrir tveimur árum, hvað þá að bæta við framkvæmdirnar, eins og alltaf hefur verið gert áður, þegar álögur hafa verið hækkaðar á umferðina.

Það er táknrænt tal hjá hæstv. fjmrh. nú, þegar hann talar um, að það sé ekki til neins að gera kröfur til ríkissjóðs, vegna þess að þar sé ekkert að hafa. Það er táknrænt, tal hæstv. ráðh. í dag, ef það er borið saman við tal hans áður, áður en hann varð ráðh. Þá talaði hv. 3. þm. Vesturl. um, að allar tekjur af umferðinni ættu að ganga til vegamála. Hvaða tekjur skyldu vera af umferðinni, sem ganga í ríkissjóð? Hæstv. ráðh. aflaði fjár með því að hækka skatta á innfluttum bílum. Þessir nýju skattar, sem hann lagði á vorið 1972, munu hafa gefið ríkissjóði á s.l. ári um 400 millj. kr., ekki minna, og heildartekjur af umferðinni, sem gengu í ríkissjóð á s.l. ári, munu hafa verið nærri 2000 millj. kr. Þannig hefur hæstv. ráðh. verið duglegur að skrapa saman í ríkissjóð milljarða, en segir nú, að hann geti engu skilað, vegna þess að allt þetta, sem til ríkissjóðs hefur farið af umferðinni, hátt á 2. milljarð á s.l. ári og verður enn meira að óbreyttum lögum á þessu ári vegna hækkunar á bensíni, — ekkert af því getur hæstv. ráðh. látið af hendi.

Hæstv. ráðh, var að vísu að tala um, að ríkissjóður greiddi vexti og afborganir af lánum. Þetta var áður gert, en hefur farið hækkandi, vegna þess að þessar greiðslur hafa þyngst, en þessar greiðslur eru aðeins brot af því, sem gengur til ríkissjóðs í sköttum af umferðinni.

Ég gerði ráð fyrir því, að í þessu frv. kæmi fram greiðsla frá ríkissjóði til Vegasjóðs, vegna þess að ríkissjóður hefur fengið auknar tekjur af himnum ofan, — tekjur, sem ekki var búist við, vegna hækkunar á bensíni. Má reikna með, að það verði um 400 millj. á þessu ári. Ég vil með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp áætlun, sem var gerð um þessa tekjuhækkun ríkissjóðs 31. jan. s.l. Það er er áætlun um tekjuaukningu ríkissjóðs vegna olíuhækkana erlendis og hækkunar á innflutningsgjaldi. Helstu forsendur dæmisins eru þessar:

a) Verð á bensíni verði 32 kr., — 31. jan. var ekki hugsað, að það gæti orðið hærra, en nú verður það sennilega 5 kr. hærra, — 32 kr. á lítra miðað við óbreytt innflutningsgjald, en kaupverð fob. 123 dollarar hvert tonn.

b) Innflutningsgjald hækki um kr. 3.13, sem hefur í för með sér, að útsöluverð fer upp í kr. 35.90. Þetta er ekki fjarri lagi.

c) Útreikningar eru miðaðir við hækkun á útsöluverði úr 25 kr., sem bensínið var 31. jan. s.l. Tekjur af erlendri hækkun eru reiknaðar út á ársgrundvelli, en söluskattstekjur af innflutningsgjaldi eru miðaðar við 1. mars. Bensínsala er miðuð við tekjuáætlun Vegagerðar ríkisins og er áætluð 98.3 millj. lítra 1974.

Tollverð á bensíni var fyrir hækkun 3.90 kr. á lítra, en er nú áætlað 8.80 kr. á litra. Miðað við framangreindan innflutning yrði tekjuaukning ríkissjóðs um 241 millj. kr. á ársgrundvelli. En það er fleira en tolltekjurnar, það er söluskatturinn líka, sem hækkar, þegar innkaupsverðið hækkar. Miðað við fyrrgreinda bensínhækkun erlendis frá hækkaði söluskattsverð úr 20.35 á lítra í kr. 28.47 eða um kr. 8.12, 11% söluskattur til ríkissjóðs gæfi í tekjur 89 aura á lítra eða 88 millj. kr. á ársgrundvelli. Nú er ekki um það að ræða, að það sé 11% söluskattur, eins og reiknað var með í jan., heldur 15%, og hækka þá tekjurnar um 32 millj. kr., og verður þá tekjuaukningin á ársgrundvelli 120 millj. kr. í staðinn fyrir 88 millj. Hækkun tekna vegna hækkunar veggjalds vegna verðútreiknings á bensíni hefur einnar kr. hækkun innflutningsgjalds í för með sér, kr. 1.05 hækkun á söluskattsverði. Ef innflutningsgjald af bensíni hækkaði um 3.13 kr., hækkar söluskattsverð því um 3.28 kr., sem gæfi í söluskatti 31 millj. kr. á árinu 1974. Ef miðað er við 15% söluskatt, hækkar þessi upphæð um 11 millj. og yrði 42 millj. kr.

Miðað við framangreinda útreikninga yrði heildartekjuaukning ríkissjóðs því þessi, miðað við eitt ár: Tolltekjur 241 millj. kr., söluskattstekjur af erlendri hækkun 120 millj. kr., söluskattur af bensínhækkun, 42 millj. kr., samtals 403 millj. kr. En hæstv. fjmrh. ætlar að stinga þessari hækkun í ríkissjóð, — hækkun, sem hann hefur fengið alveg óvænt, og segir, að það sé ekki möguleiki á því að láta neitt af hendi í þennan tóma Vegasjóð, sem við nú erum að tala um. Það væri þó ekki nema sanngjarnt að gera þá kröfu, að ríkissjóður skili þessari upphæð. Má þá segja, að 403 millj. + 300 millj., sem gert er ráð fyrir, að þetta frv. gefi af sér, ef það yrði lögfest, yrði 700 millj., og yrði fjárvöntunin samt 1200 millj. í Vegasjóð, til þess að hægt væri að standa við vegáætlunina. Ég held, að alþm. og hv. fjvn. eigi eftir að tala við hæstv. fjmrh. um þetta.

Í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að mér skilst, að það megi breyta reglugerðinni frá því, sem hún er nú, og setja ökumæla í minni bifreiðar. Eins og reglugerðin er nú, er gert ráð fyrir, að ökumælar séu settir í bifreiðar, sem eru 5 tonn eða meira, en minni bifreiðar hafa ekki verið með ökumæla. Mér finnst mikið álitamál, hvort þetta eigi að gera, og held, að það sé ekki ástæða til þess. Ég held, að gjöldin á minni bílunum séu nægilega mikil og mikil vinna við það að hafa ökumæla í bílum og álestur, þótt ekki sé farið á víðara svið en nú er með það.

Þá er gert ráð fyrir því að setja ökumæla í festi- og tengivagna. Ég hafði baldið, að það ætti að bíða, vegna þess að þetta er nú ekki orðið svo almennt enn. Ég held, að það ætti að hvetja fyrirtæki til þess að nota tengivagna og festivagna meira en gert er. Það sparar ábyggilega útlendan gjaldeyri, það sparar eldsneyti, og það sparar slit á tækjum, og það, sem kannske mest er um vert, það sparar slit á vegum, því að með því að hafa tengivagna aftan í bílum jafnast hlassþunginn á stærra svæði vegarins og það verður minna slit á veginum. En með því að setja mælana í tengivagnana, er gert ráð fyrir því að greiða fullt gjald fyrir það, að lagt er í þennan mikla kostnað, og það verður miklu síður hvatning fyrir einstaklinga eða fyrirtæki, sem hafa landflutninga með höndum, að notfæra sér þetta, sem getur verið vegakerfinu og þjóðinni í heild til góðs.

Þá finnst mér, að 8. gr. gangi nokkuð langt og það sé nokkuð frjálslynt að samþykkja hana eins og hún er. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég vekja athygli á því, hvernig þessi gr. er. Hún hljóðar svo:

„Bensíngjald og þungaskattur sá, sem tilgreindur er í lögum þessum eða ákveðinn verður með reglugerð, sbr. ákvæði 1. og 4. mgr. 7. gr., skulu vera grunntaxtar. Ráðh. er heimilt að hækka gjöld þessi í réttu hlutfalli við þá hækkun, sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 25 frá 24. apríl 1957. Grunntaxtar bensíngjalds og þungaskatts eru miðaðir við vísitölu eins og hún var 1. mars 1974, þ, e. 998 stig.“

Ég er hræddur um, að hv. alþm. skoði huga sinn, áður en þeir samþykkja þessa gr. í frv., og hugsi til þess, hvað hefur skeð s.l. tvö ár, að framkvæmdakostnaður hefur hækkað um nærri 100% í tíð núv. stjórnar. Það væri sök sér að samþykkja þetta, ef það væri alveg öruggt, að núv. hæstv. ríkisstj. ríkti ekki lengur og upp yrði tekin ný stjórnarstefna, — það er eðlilegt, að þm. hlæi, — sem hindraði þessar miklu hækkanir. En ef menn mega búast við því, að hækkanir verði áfram eins og undanfarið, þá er alveg útilokað að samþykkja ákvæði eins og þetta. Það er líkt því og að samþykkja óútfylltan víxil. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki það traust, að nokkur vilji afhenda henni óútfylltan víxil. Þess vegna er það, að þetta ákvæði frv. verður örugglega skoðað vel, áður en það verður lögfest, ásamt fleiru í þessu frv.

Þá eru það eigendur jeppabifreiða. Þeir eiga að fá nokkurn afslátt, ef þeir geta sannað, að þeir séu með bifreiðar utan þjóðveganna. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann vildi senn gera hlé á máli sínu, ef mikið er eftir af ræðu hans, þar sem ég hafði gert ráð fyrir atkvgr. um annað mál í bili og halda áfram með þessar umr. nokkru síðar í dag.) Það er sjálfsagt að verða við því. Ég geri ráð fyrir því, að það sé talsvert eftir af ræðu minni, og þess vegna er sjálfsagt að verða við því að fresta ræðunni núna, þar sem hæstv. forseti hefur boðað atkvgr. [Frh.]